Nýju reglurnar um borð hjá Ryanair

Ryanair hefur flug að nýju 1. júlí.
Ryanair hefur flug að nýju 1. júlí. AFP

Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair tilkynnti á dögunum að það hygðist hefja flug á ný 1. júlí. Strangar reglur verða þó um borð auk þess sem allir, bæði farþegar og starfsfólk, þurfa að vera með andlitsgrímur.

Margir hafa velt fyrir sér hvernig ferðalög munu líta út eftir að heimsfaraldurinn gengur yfir og kannski eru reglur Ryanair dæmi um hvaða reglum við munum þurfa að lúta þegar við getum aftur farið að ferðast.

Michael O’Leary, framkvæmdastjóri Ryanair, fór yfir reglurnar sem munu gilda um borð í viðtali við The Independent. Takmörkuð veitingasala verður um borð og aðeins verður tekið við snertilausum greiðslu, ekki peningum. 

Sætisbeltaljósin verða kveikt allan tímann og þurfa farþegar að hringja bjöllunni til þess að biðja um leyfi til að fara á klósettið. Engar raðir mega myndast við klósettin og því stýra flugþjónarnir aðgenginu. 

„Það eru aðeins þrjú salerni um borð. Við getum þjónustað fullt af fólki, en við munum ekki leyfa fólki að leika lausum hala eins og vanalega, sérstaklega ekki fremst í vélinni,“ sagði O'Leary. 

Hvorki te né kaffi verður í boði í flugvélum Ryanair. 

„Það er betra fyrir okkur að fá fólk aftur, jafnvel þótt miðaverðið sé lágt. Það er miklu betri niðurstaða en engin flug, engir farþegar og engin þjónusta,“ sagði O'Leary. mbl.is

Bloggað um fréttina