48 tímar á Snæfellsnesi

Stykkishólmur hefur löngum þótt hafa danskt yfirbragð.
Stykkishólmur hefur löngum þótt hafa danskt yfirbragð. mbl.is/Ómar Óskarsson

Snæfellsnesið er frábær áfangastaður fyrir þá sem langar að skoða meira af Íslandi og fullkomið að taka heila helgi í að skoða sig um. Á Snæfellsnesi eru mörg falleg sjávarþorp og margt fallegt að skoða.

Í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli er margt fallegt að sjá og einnig á Arnarstapa. Bæði á norður- og suðurhluta Snæfellsnessins er eitthvað fallegt að sjá og mælum við eindregið með því að keyra hringinn og stoppa reglulega til að skoða sig um. 

Að gera

Vatnshellir

Vatnshellir í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli er einstök upplifun. Hellirinn sjálfur myndaðist fyrir um 8 þúsund árum. Hægt er að fara í 45 mínútna ferð um hellinn með Summit Guides

Vatnshellir.
Vatnshellir. mbl.is/Helgi Bjarnason

Sjósund í Skarðsvík á Öndverðarnesi

Það er fátt meira hressandi á löngu ferðalagi en að skella sér til sunds í sjónum. Í Skarðsvík á Öndverðarnesi er tilvalið að fækka fötum og stinga sér smástund í sjóinn. 

Í Skarðsvík.
Í Skarðsvík. Alfons Finnsson

Fjöruhúsið Hellnum

Hellnar er einstakur staður til að heimsækja. Niðri í fjörukambi á Hellnum má finna kaffihús sem nefnist Fjöruhúsið og reist var í kringum 1930 og notað sem veiðarfærageymsla. Upp úr 1997 datt þeim hjónunum Kristjáni Gunnlaugssyni og konu hans Sigríði Einarsdóttir hins vegar í hug að sniðugt væri að opna kaffihús í þessari gömlu veiðarfærageymslu, og hrintu hugdettunni í framkvæmd. 

Fjöruhúsið Hellnum.
Fjöruhúsið Hellnum. mbl.is/Alfons Finnsson

Að skoða

Eldfjallasafnið í Stykkishólmi

Eldfjallasafnið í Stykkishólmi opnaði formlega á hvítasunnu, 31. maí 2009, með kynningarsýningu byggða á safni Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings. Haraldur Sigurðsson starfaði sem prófessor í eldfjallafræði og haffræði í Bandaríkjunum en er nú fluttur til Íslands eftir um 40 ára starf erlendis. Á ferðum sínum um heiminn og í störfum sínum hefur Haraldur komið sér upp miklu safni af efni, ýmiss konar listaverkum, rannsóknarefni og bókum sem snerta eldgos og eldvirkni víðs vegar um heiminn. Haraldur hefur nú lagt safn sitt fram sem kjarna til að stofna Eldfjallasafn í Stykkishólmi.

Elfjallasafnið í Stykkishólmi.
Elfjallasafnið í Stykkishólmi. Ljósmynd/Facebook

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

Heillandi náttúra og merkar sögulegar minjar urðu til þess að Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður 28. júní 2001. Markmiðið er að auðvelda fólki að ferðast um svæðið og kynnast því. Hann er fyrsti þjóðgarður á Íslandi sem nær í sjó fram. Hægt er að fara í skipulagða göngu um þjóðgarðinn nokkrum sinnum í viku.

Matur & drykkur

Veitingastaðurinn Sker í Ólafsvík

Sker er skemmtilegur staður við höfnina í Ólafsvík þar sem hægt er að fá bæði hamborgara og pizzur og ýmislegt góðgæti. 

Ískofinn í Stykkishólmi

Ískofinn í Stykkishólmi stendur við höfnina í Stykkishólmi. Þar er hægt að fá alls kyns ís og njóta um leið hafnarlífsins í Hólminum.

Sjávarpakkhúsið í Stykkishólmi

Sjávarpakkhúsið í Stykkishólmi er notalegur veitingastaður sem býður upp á fyrsta flokks mat. Ef þið viljið gera vel við ykkur ættuð þið að kíkja á Sjávarpakkhúsið. 

Kaffi 59 í Grundarfirði

Kaffi 59 er fjölskyldurekinn veitingastaður í Grundarfirði. Þar er boðið upp á hádegistilboð á hagstæðu verði og matseðil sem ætti að henta allri fjölskyldunni. 

Gisting

Hótel Búðir

Hótel Búðir eru á sunnanverðu Snæfellsnesinu og tilvali að gista fyrri nóttina þar. Frábært útsýni er frá hótelinu en það sjálft er líka gullfallegt. 

Hótel Búðir.
Hótel Búðir. Brynjar Gauti

Hótel Egilsen í Stykkishólmi

Hótel Egilsen er einstaklega fallegt hús við höfnina í Stykkishólmi. Húsið er mikið endurgert en það var byggt á 19. öld. 

Kirkjufell í Grundarfirði.
Kirkjufell í Grundarfirði. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is