Puttaferðalög bönnuð í Bretlandi

Nú er bannað að ferðast um á puttanum í Bretlandi.
Nú er bannað að ferðast um á puttanum í Bretlandi. Ljósmynd/Pexels

Samkvæmt nýjum sóttvarnalögum í Bretlandi er nú bannað að húkka sér far eða deila bíl með einhverjum öðrum en fjölskyldunni.

Nýju sóttvarnalögin hljóða svo: „Fólk má aðeins ferðast á einkabíl sínum, eitt í för eða með manneskju af heimili sínu.“

Áður en þessi lög tóku gildi var aðeins bannað að húkka sér far á hraðbrautum í Bretlandi. Samtök bifreiðaeigenda í Bretlandi hafa mótmælt því að fólk megi ekki deila bíl og benda á að fleiri muni þá ferðast með almenningssamgöngum.

„Að geta ekki deilt bíl með öðrum en fjölskyldunni getur verið vandamál, sérstaklega fyrir vinnufélaga sem keyra saman í vinnuna,“ sagði Edmund King, formaður Samtaka bifreiðaeigenda í Bretlandi. 

Hann segir að góður kostur til samgangna hafi verið tekinn af þeim sem geta ekki keyrt, vilja ekki nota almenningssamgöngur og geti ekki gengið eða hjólað í vinnuna sína. 

„Það hlýtur að vera öruggara að ferðast með einni manneskju í aftursætinu, skáhalt á móti ökumanninum, jafnvel með andlitsgrímu, frekar en að nota almenningssamgöngur,“ sagði King.

Frétt Independent.

mbl.is