Aukin spurn eftir einkaeyjum

Einkaeyjur eru heillandi kostur fyrir þá sem eiga nóg til.
Einkaeyjur eru heillandi kostur fyrir þá sem eiga nóg til. Ljósmynd/Pexels

Á tímum kórónuveiru, ferðatakmarkana og landamæralokana hefur spurn eftir einkaeyjum stóraukist. Þeir sem hafa efni á slíkum munaði hafa í auknu mæli skoðað möguleika sína á að kaupa eða leigja einkaeyjur. 

Leigumiðlarar og sérfræðingar í ferðamannaiðnaðinum segja að síðan í mars hafi þeir séð allt að 50 prósent aukningu frá tilvonandi kaupendum eða leigjendum.

Chris Krolow, framkvæmdarstjóri Private Island, segist fá um 150 fyrirspurnir á dag samanborið við um 100 á dag áður en heimsfaraldurinn skall á. Private Island hefur um 800 eyjur til umráða bæði til útleigu og sölu. 

Flestar fyrirspurnirnar berast frá fólki í Bandaríkjunum og Kanada sem er að leita sér að eyjum í Karíbahafinu og við strendur Mið-Ameríku. 

„Þau vilja eyjur sem er auðvelt að komast til, og það útilokar Asíu og Suður-Kyrrahafið,“ sagði Krolow í viðtali við CNN Travel

Krolow á sjálfur eyjuna Gladden við strendur Belís. Hann leigir út eyjuna og segir að áhugi á henni hafi stóraukist í heimsfaraldrinum. Eyjan er uppbókuð út árið 2021. 

„Við fengum líka fyrirspurnir um mars og apríl, en vegna lokana á landamærum gátu engir erlendir ferðamenn komið,“ sagði Krolow. Hann gefur leyfi fyrir fjórum gestum hverju sinni og eyjunni fylgja 4 starfsmenn sem búa á nálægum eyjum. Með öllu inniföldu kostar nóttin á Gladden, fyrir tvær manneskjur, 3.695 bandaríkjadali eða um 542 þúsund íslenskar krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert