Félag jöklasleikjara ferðast til að sleikja

Hér sést maður sleikja jökul.
Hér sést maður sleikja jökul. Ljósmynd/Aðsend

Félagið Iceberg Licking Society eða félag jöklasleikjara ferðast til að sleikja. Félagið berst gegn hamfarahlýnun og er í samstarfi við Landvernd. Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, fagnar öllum sem vilja leggja málefni hamfarahlýnunar lið. 

Félag jöklasleikjara er félagsskapur fólks sem ferðast út um allan heim í leit að gæðajöklum til þess að sleikja. Í heimildarmynd sem félagið sendi frá sér nýlega á YouTube má sjá hvernig fólk sleikir jökla á Íslandi. 

Auk heimildarmyndarinnar er félagið með vefsíðu og er á samfélagsmiðlum. Hægt er að kaupa varning á heimasíðunni og rennur ágóðinn til Landverndar. Í svari forsvarsmanns félagsins til ferðavefjar mbl.is er markmiðið að auka vitundarvakningu um hamfarahlýnun. Bráðnun jökla er sögð ógn við félagið. 

Er þetta grín eða listaverk?

„Ef fólk vill horfa á þetta sem háðsádeilu er það þeirra upplifun. Hvort sem er, háðsádeila eða grín, er krafist gagnrýnnar hugsunar af hálfu áhorfenda. Húmor getur ögrað umræðu og hvatt til breytinga.“

Auður Anna hjá Landvernd staðfestir í samtali við mbl.is að félagið er í samstarfi við Landvernd og Landvernd fái hluta ágóða varnings sem félagið selur, ef einhver verður. Hún játar þó að um einhvers konar listræna tjáningu sé að ræða en fagnar öllum sem sýna hamfarahlýnun áhuga. 

„Það er nauðsynlegt að við notum margar aðferðir til að vekja athygli á hamfarahlýnun. Það eru mismunandi aðferðir sem ná til mismunandi aðila og þetta er ein aðferð. Þetta er líka góð aðferð nú þegar við höfum náð svo góðum árangri í vitundarvakningunni árið 2019 að þá þurfum við náttúrulega að viðhalda málinu á dagskrá og þetta er ein leið til þess,“ segir Auður Anna. 

Ljósmynd/Aðsend

Það er ákveðinn tvískinnungur að félagsskapurinn berjist gegn bráðnun jökla en ferðist á sama tíma um heiminn. Forsvarsmaður félagsins segir félagið hvetja til nýsköpunar þegar kemur að ferðamáta auk þess sem félagar eru hvattir til að stunda áhugamál sitt heima hjá sér með því að sleikja ísmola heima. 

Jöklasleikjarafélagið segist hafa fengið jákvæð viðbrögð við myndinni sinni þrátt fyrir að lítið annað en kórónuveirufaraldurinn komist í fréttir. Félagið vonast til þess að fólk horfi á myndina, fari inn á heimasíðuna og hjálpi félaginu að stöðva bráðnun jökla.  

mbl.is