Samfélagsmiðlar komu upp um ferðamann á Hawaii

Tarique Peters birti þessa mynd af sér á ströndinni á …
Tarique Peters birti þessa mynd af sér á ströndinni á Hawaii og var í kjölfarið handtekinn. Skjáskot/Instagram

Bandarískur ferðamaður var handtekinn af lögregluyfirvöldum á Hawaii á föstudaginn síðasta fyrir að brjóta sóttvarnalög. Ferðamaðurinn, Tarique Peters, ákvað, þrátt fyrir heimsfaraldurinn, að skella sér í frí til Hawaii. 

Peters er búsettur í Bronx-hverfi í New York-borg en ákvað að drífa sig úr borginni til Hawaii. Móðir hans, Marcia Peters, segir í viðtali við New York Post að hún hafi þrábeðið son sinn um að fara ekki í ferðalagið. „Hann átti ekkert að fara þangað. Reglurnar eru skýrar. Ég sagði honum að ferðast ekki. Ég sagði honum að fara ekki,“ sagði Marcia Peters. 

Það voru samfélagsmiðlar sem komu upp um Peters sem hefði samkvæmt sóttvarnarlögum átt að fara í 14 daga sóttkví við komuna til Hawaii. Það gerði hann hins vegar ekki og birti fjölda mynd af sér á ströndinni, í sólbaði og á göngu á Waikiki. 

Heimamenn á Hawaii hafa tekið höndum saman um að verja eyjuna sína og hringdi fjöldi eyjaskeggja inn til lögreglunnar til að tilkynna Peters. Lögreglan fann svo samfélagsmiðlafærslur Peters og með sönnunargögn í höndunum gat hún handtekið hann. 

Tryggingargjaldið til þess að losna úr fangelsi er 4 þúsund Bandaríkjadalir eða um 572 þúsund íslenskar krónur. Móðir hans segir að hvorki hann né hún hafi efni á að greiða upphæðina.

„Hvar fæ ég 4.000 Bandaríkjadali? Ég veit ekki til þess að hann eigi 4.000 dollara. Hann er ekki þannig ríkur. Við þurfum að finna út úr þessu,“ sagði móðir hans. 

Hún sagði að sonur hennar væri almennt löghlýðinn borgari og stundaði nám við Mercy-háskólann í Bandaríkjunum. 

Yfirvöld á Hawaii hafa gengið hart fram í baráttunni gegn kórónuveirunni, handtekið ferðamenn sem brjóta sóttvarnalög og greiða fyrir heimferð ferðamanna sem ekki hafa tök á að vera í 14 daga sóttkví. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert