Flúði 17 þúsund kílómetra frá eiginkonunni

Rithöfundurinn Neil Gaiman biðst afsökunar á ferðalagi sínu.
Rithöfundurinn Neil Gaiman biðst afsökunar á ferðalagi sínu.

Rithöfundurinn Neil Gaiman hefur vakið athygli á síðustu vikum, en hann ferðaðist rúmlega 17 þúsund kílómetra, frá Nýja-Sjálandi til Skotlands, til að flýja eiginkonu sína. 

Þrátt fyrir heimsfaraldur og ferðatakmarkanir tókst Gaiman að flýja konu sína yfir hálfan hnöttinn til eyjarinnar Skye á Suðureyjum Skotlands (ísl. Skíð). Gaiman er giftur tónlistarkonunni Amöndu Palmer en ágreiningur kom upp í hjónabandi þeirra svo að Gaiman ákvað að yfirgefa heimilið. 

Hann hefur þó greint frá því að þau hjónin hyggist ekki skilja á næstunni heldur ætli þau að vinna í vandamálum sínum.

Gaiman kom til Skye fyrir þremur vikum. Hann fór með flugi frá Nýja-Sjálandi til Bandaríkjanna og þaðan til London. Eftir að hann lenti í London fékk hann lánaðan bíl hjá vini sínum og keyrði upp til Skye þar sem hjónin eiga annað heimili, þrátt fyrir að fólki hafi verið ráðið frá því að ferðast milli Englands og Skotlands.

Gaiman greindi frá ferðalagi sínu á bloggsíðu sinni og hefur hlotið gagnrýni frá ráðamönnum í Skotlandi. Hann hefur nú beðist afsökunar á ferðalagi sínu.

„Ég gerði svolítið heimskulegt. Ég biðst afsökunar á því,“ segir Gaiman í afsökunarbeiðni sinni. 

Gaiman mælir ekki með því að fólk leiki flótta hans eftir, enda hefur fólki verið ráðið frá því að flýja veiruna upp í skosku hálöndin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert