Lærði að ganga á Hornströndum

Magnea ásamt eiginmanni og börnum. Magnea segir frábært að stunda …
Magnea ásamt eiginmanni og börnum. Magnea segir frábært að stunda útivist saman. Ljósmynd/Aðsend

Magnea Magnúsdóttir, umhverfis- og landgræðslustjóri Orku náttúrunnar, þekkir ekkert annað en að vera mikið í útivist og er dugleg að leika sér í náttúrunni með fjölskyldu og vinum. Hún stundar fjölbreyttar íþróttir og segir konur og karla hafa jafnmikla getu til að stunda þær íþróttir sem hún stundar. 

„Ég er alin upp á fjöllum og þar elska ég að vera og leika mér. Foreldrar mínir eru mikið fjallafólk og við ferðuðumst mikið um Ísland. Ég lærði að ganga á Hornströndum, því þegar ég var eins árs fórum við fjölskyldan þangað í tveggja vikna gönguferð og ég var borin á milli fjarða í burðarpoka á bakinu á mömmu og pabba. Þetta var löngu áður en fólk fór að fara í gönguferðir á Hornstrandir og við sigldum þangað með varðskipi,“ segir Magnea um hvernig útivistaráhuginn kviknaði. 

Hvað gefur það þér að vera úti í náttúrunni og leika þér?

„Það gefur mér endalausa gleði, orku og endurheimt. Mér finnst frábært að hitta vinkonur mínar úti í náttúrunni, spjalla og leika. Ég er ótrúlega lánsöm að eiga yndislegar vinkonur sem stunda sömu útivist og ég. Svo er líka best í heimi að ferðast um landið með fjölskyldunni minni og gerum við mikið af því,“ segir Magnea. 

„Ég fjallahjóla mjög mikið allt árið um kring, svo er ég einnig í vélsleðasportinu og á snjóbretti og telemarkskíðum. Svo fer ég líka í gönguferðir um fjöll og firnindi meðal annars á gönguskíðum. Ég er alltaf að byrja í nýjum og nýjum sportum og hef prófað frekar margt. Ég var til dæmis mikið að klifra í klettum og ísfossum fyrir svona 15 árum en svo hætti ég því þegar ég slasaði mig í öxlinni. En nú er öxlin að verða nógu góð svo að ég það væri gaman að byrja aftur að klifra og taka fjölskylduna með.“

Magnea og fjölskylda hennar eru á fjallahjólum.
Magnea og fjölskylda hennar eru á fjallahjólum. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Magnea er beðin um að velja eina ferð sem er í uppáhaldi á hún í erfiðleikum með að velja á milli. Það eru þó tvær sem standa upp úr. 

„Fyrir fjórum árum fór ég með frábærum vinum í Jökulfirði á Vestfjörðum í skíða- og snjóbrettaferð. Við sigldum þangað á vegum Borea adventures og gistum í gömlu húsi sem kallast Kvíar. Þar sigldum við á milli fjarða og völdum okkur skemmtileg fjöll til að labba upp og skíða niður, þetta var ótrúlega skemmtileg ferð og við bjuggum til myndband um hana,“ segir Magnea en hér fyrir neðan má sjá myndbandið úr ferðinni skemmtilegu. 

„Svo verð ég að nefna gönguferð sem við fjölskyldan fórum í fyrir tíu árum á Hornstrandir á svipaðar slóðir og ég fór með mömmu og pabba þegar ég var eins árs og sagði frá hér að ofan. Það skemmtilega við þetta var að við vorum með dóttur okkar Lindu Mjöll og hún var eins árs eins og ég hafði verið rúmum 30 árum áður og ég bar hana á bakinu í sama gamla burðarpokanum.“

Magnea á vélsleða.
Magnea á vélsleða. Ljósmynd/Aðsend

Snjóbretti, vélsleðar og fjallahjól eru íþróttir sem einhverjir myndu kalla jaðaríþróttir. Hvernig er að vera kona í þessu?

„Það eru fullt af flottum konum að stunda snjóbretti og fjallahjól á Íslandi og það er mjög gaman að sjá hvað okkur fer hratt fjölgandi í fjallahjólunum. Það kemur fólki aðallega á óvart að ég sé í vélsleðasportinu því þar eru því miður ekki nógu margar konur. Sumum finnst skrítið að konur geti verið góðar í að keyra sleða því þeir eru frekar þung tæki. En eins og gildir með flest önnur sport þá geta flestir lært þetta hvort sem við erum konur eða kallar, þetta krefst bara æfingar og smá kjarks, sem kemur nú oftast smám saman með æfingunni.“

Tekur öll fjölskyldan þátt?

„Já fjölskyldan er öll að fjallahjóla og skíða eða brettast og þetta eru frábær fjölskyldusport. Svo er maðurinn minn öflugur vélsleðamaður og það sport stundum við oftast án barnanna, nema núna í vetur þá nýttum við vélsleðann okkar mjög mikið til að draga hvort annað og krakkana upp á fjöll sem við skíðuðum svo niður. Við höfum gert mikið af þessu síðan að skíðasvæðin lokuðu vegna Covid 19.“

Magnea gengur upp á fjöll og rennir sér niður.
Magnea gengur upp á fjöll og rennir sér niður. Ljósmynd/Aðsend

Í sumar ætlar Magnea að ferðast um landið. 

„Ég stefni á að ferðast mikið um landið með fjölskyldunni minni og við ætlum meðal annars enn og aftur á Hornstrandir með stórfjölskyldunni. Svo stefni ég á að fjallahjóla mikið og keppa í einhverjum fjallahjólakeppnum bæði í fjallabruni og enduro.“

Öll fjölskyldan getur hjólað saman úti í náttúrunni.
Öll fjölskyldan getur hjólað saman úti í náttúrunni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is