Skemmtigarðar opna að nýju í Bandaríkjunum

Þótt ástandið sé ekki gott í Bandaríkjunum eru ferðamannastaðir og skemmtigarðar farnir að sjá fram á að geta opnað. Skemmtigarður Universal í Orlando í Flórída stefnir á að opna 5. júní og Graceland, heimili Elvis Presley, opnaði á fimmtudag.

Þegar Universal opnar mun upplifunin ekki verða sú sama og áður en kórónuveiran breiddist út um heiminn. Allir verða að hlýða tveggja metra reglunni og mælt verður með því að gestir og starfsfólk verði með andlitsgrímur. Þeir gestir sem ekki koma með grímu geta fengið einnota grímu við komu í garðinn.

Búið er að kortleggja ferðir gesta um garðinn og passa að þar sem gestir þurfa að eiga samskipti við starfsfólk sé farið eftir öllum sóttvarnareglum. 

Í Graceland í Memphis er passað upp á tveggja metra regluna. Hleypt verður inn í hollum og aðeins 25% af hámarksfjölda gesta verður leyfður í hvert skipti. Eins og sést í myndbandinu hér fyrir ofan voru gestir ánægðir með opnunina og nýttu tækifærið til að skoða heimili kóngsins þegar færri voru á ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert