Smitar vini sína af fjallabakteríu

Aldís Arna er dugleg að ganga upp fjöll.
Aldís Arna er dugleg að ganga upp fjöll. Ljósmynd/Aðsend

Aldís Arna Einarsdóttir, viðskiptafræðingur og verslunarstjóri í Vatni og veitum, er mikil ævintýramanneskja og er dugleg að ferðast. Í sumar ætlar Aldís Arna að vera dugleg að ganga á fjöll en hún hefur ekki síður lent í ævintýrum á Íslandi en erlendis. 

„Ferðalög losa um einhverja ólgandi þörf á spennu og nýjum upplifunum ásamt því að veita manni eitthvert frelsi sem finnst ekki á Íslandi. Mér finnst gaman að fara á nýja staði og oft leyfa tímanum að ráða hvað gerist hverju sinni. Ég er forvitin að eðlisfari og finnst mun skemmtilegra að upplifa menningu heimamanna og sækist mjög lítið í dæmigerða túristastaði þó svo ég hafi vissulega skoðað þá marga,“ segir Aldís Arna þegar hún er spurð hvað ferðalög gefa henni. Þetta sumarið er Aldís Arna búin að skipuleggja fleiri fjallgöngur á Íslandi en ferðalög erlendis. 

Aldís Arna slök í Norður-Brasilíu. Hún ferðast ekki endilega til …
Aldís Arna slök í Norður-Brasilíu. Hún ferðast ekki endilega til dæmigerðra ferðamannastaða. Ljósmynd/Aðsend

Dregur vini með sér í fjallgöngur

Aldís Arna hefur alltaf verið mikið í útivist en neitar því ekki að kórónuveiran hafi gert það að verkum að nú eru fjallgöngur orðnar að enn stærri hluta af lífi hennar en þær voru áður.

„Ég hef alltaf verið dugleg í útivist, enda verið mikill skíðagarpur frá bernsku. Árið 2016 stofnuðum við vinnufélagarnir fjallagrúppu sem fór aðeins í tvær fjallgöngur. Síðan tók almenn ferðadella erlendis við eftir útskrift,“ segir Aldís Arna sem hefur verið dugleg að skella sér í skyndiferðir til Evrópu á undanförnum árum. Hún hefur einnig heimsótt heimaland mágkonu sinnar, Brasilíu, og farið í brúðkaup til Víetnam. 

„Síðastliðið ár hef ég mikið farið í fjallgöngur, fór upp á Úlfarsfell tvisvar til þrisvar í viku en það er nánast í bakgarðinum. Ég fjárfesti í nýjum skíðagleraugum í fyrra sem varð til þess að ég fór í hvaða veðri sem er. Fjölskylduhundurinn Mix fékk oft að fylgja með og kvartar ekki neitt.

Margt hefur breyst með tilkomu kórónuveirunnar, enda æfi ég crossfit að jafnaði sex sinnum í viku sem er nú alveg dottið út. Í kjölfar þess hefur fjallaferðum fjölgað. Úlfarsfellið fór að vera daglegur hlaupatúr svo ég fór að leita í önnur fjöll fyrir lengri helgaræfingar. Ég er mikil félagsvera og er búin að draga vini með mér í þessa bestu hreyfingu sem í boði er og smita þau mörg af fjallabrölti. Útiveran hefur gríðarlega jákvæð áhrif, þá ekki aðeins á líkamlega mátann heldur er þetta ein besta sálfræði allra tíma. Ég elska að vera út í náttúrunni, mér finnst mikilvægt að vera á góðum skóm og að verða ekki kalt.“

Aldís Arna með vinum sínum á Móskarðshnjúkum.
Aldís Arna með vinum sínum á Móskarðshnjúkum. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða fjöll hefur þú verið að ganga að undanförnu?

„Á þessu ári er ég er búin að fara á öll helstu fjöll nálægt höfuðborgarsvæðinu, eins og Esjuna, Akrafjall, Glym, Þyril, Úlfarsfell, Helgafell, Vífilfell og Móskarðshnjúka. Eftir að skíðasvæðin lokuðu skelltum við skíðunum á bakið og gengum upp Bláfjöll til þess eins að skíða niður.

Síðasta fjallaferð sem ég fór var Húsavíkurfjall í rjómablíðu eftir að hafa farið í fyrra í rigningu og þoku.“

Aldís Arna hefur verið á skíðum frá því hún var …
Aldís Arna hefur verið á skíðum frá því hún var barn. Þegar skíðalyftur lokuðu í Bláfjöllum gekk hún upp og skíðaði niður. Ljósmynd/Aðsend

Eru einhverjar gönguleiðir á stefnuskránni á næstunni?

Í sumar ætla ég að fara Hólmatind sem gnæfir yfir Eskifirði. Mér finnst það eitt fallegasta fjall sem ég hef séð, kannski ekki alveg hlutlaust mat en ég er alin upp á Eskifirði. Í júlí stefni ég á að ganga Fimmvörðuhálsinn í góðra vina hópi og í ágúst stefni ég á að ganga Snæfell, sem er hæsta fjall á Íslandi án jökla, og Herðubreið. Ég mun eflaust fara á mun fleiri fjöll en þessi en þetta er stefnan eins og staðan er í dag.“

Hamingja Íslendinga einkennir íslensk sumur

Aldís Arna er jákvæð að eðlisfari og er alltaf til í að grípa tækifærin sem bjóðast og prófa eitthvað nýtt. Stundum þýðir það að hún lendir í óvæntum ævintýrum sem enda þó oftast vel. 

„Á fyrstu þjóðhátíðinni minni var okkur stelpunum til dæmis boðið í bátsferð sem endaði með því að við vorum strandaglópar og við þurftum að fá björgunarsveitina til að koma með bensín. Þetta var mjög stressandi en allt endaði vel þó svo við misstum næstum af dalnum. Við hlæjum enn þá að þessu í dag. Vinur minn keypti sér kajak um árið og fyrr en varði var ég búin að fjárfesta í einum slíkum og farin í veiðiferðir. Það má segja að með hverju árinu komi ný della enda keypti ég mér racer-hjól tveimur dögum áður en ég tók þátt í þríþraut sem ég hafði ekki æft neitt fyrir og ekki snert hjól í tíu ár. Fyrir örfáum dögum var mér boðið í útsýnisflug og hef ég ekki hugsað um neitt annað en flugvélar síðustu daga. Hvert það leiðir er óljóst.“

Aldís Arna í fyrsta kynnisfluginu sínu um daginn.
Aldís Arna í fyrsta kynnisfluginu sínu um daginn. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er það besta við íslenska sumarið? 

Hamingja íslendinga. Fólk hefur gaman að lífinu og þá er svo gaman að umgangast fólk. Á sumrin eru allir glaðir og kátir og er það líklega hin íslenska bjarta sumarnótt sem orsakar það. Þá er hægt að hoppa út eftir vinnu og skreppa í létta fjallgöngu fram eftir kvöldi og yfirleitt skroppið í ferðalag yfir helgi án þess að þurfa að pæla í ófærð, en ég er búin að lenda í mörgum ófærðarævintýrum þennan veturinn. Ég hef ferðast mikið um landið en fyrir tveimur árum fór ég í fyrsta skipti Gullna hringinn og þá áttaði ég mig á því hvað landið hefur mikið upp á að bjóða og hvað er mikið eftir. Nú hvet ég alla Íslendinga til að nýta sumarið í að kynnast landinu. Það eru allt of margir sem þekkja ekki landið sitt lengra en Selfoss og Akranes og ég vona innilega að Íslendingar nýti fríin til þekkingaröflunar á eigin landi.“

Aldís Arna var ekki lengi að fjárfesta í kajak eftir …
Aldís Arna var ekki lengi að fjárfesta í kajak eftir að hafa prófað einn slíkan. Hér er hún í Hvalfirði. Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvert ferðalag sem þú hefur farið í á Íslandi sem er í uppáhaldi?

„Öll íslensk ferðalög eru eftirminnileg á sinn hátt. Eitt af mínum uppáhaldsferðalögum er þegar við systur fórum í Laugavalladal í útilegu. Við vorum sex saman á Toyota Hilux og VW Polo sem er alveg ótrúlegt að hafi komist þessa ferð. Fyrir þá sem ekki vita hvar Laugavalladalur er þá er hann á hálendinu við Kárahnjúka, um tveggja tíma akstur frá Egilsstöðum. Við fórum á föstudegi og ákváðum að taka útsýnisferð á laugardegi. Þar sem við vorum sex saman fannst okkur tilvalin hugmynd að tvær úr hópnum myndu sitja á pallinum, ég ásamt vinkonu minni. Við keyrðum út um allt á hálendinu. Á þessum tíma var verið að byggja Kárahnjúkastíflu og við stelpurnar á pallinum veifuðum og flautuðum að sjálfsögðu á alla strákana á svæðinu. Síðar um kvöldið skríður niður fjallið lögreglubíll alveg tilbúinn með ræðuna við eiganda Hiluxins en þar sem hann var ekki á staðnum vorum við skömmuð fyrir að grilla úti í náttúrunni. Við gerum enn grín að því að lögreglan hafi lagt á sig fjögurra tíma akstur til að skamma nokkra unglinga fyrir að grilla hamborgara.

Einnig stendur mikið upp úr þegar ég fór með snjótroðara upp á Kaldbak. Ætli ferðin hafi ekki verið um klukkutími upp og við skíðuðum niður. Það er vissulega langt síðan, minnir að ég hafi verið um fimmtán ára.“

Á Vífilsfelli.
Á Vífilsfelli. Ljósmynd/Aðsend

Ætlaði að fara í fyrsta skipti til Bandaríkjanna í vor

Aldís Arna var á leiðinni til New York í apríl síðastliðnum en fór að sjálfsögðu ekki vegna kórónuveirunnar. 

„Ég hef aldrei farið til Bandaríkjanna þó svo ég hafi ferðast víða. Vonandi get ég sett stefnuna þangað í jólaferð,“ segir Aldís Arna sem er með nokkrar ferðir sem hana dreymir um að fara í á næstunni þegar hægt verður að ferðast á ný erlendis. 

„Annars hef ég ekki ákveðið neitt sérstakt, mögulega í menningarferð til Þýskalands, gönguferð um Austurríki eða crossfit-ferð til Taílands. Mig langar einnig í svifflugsferð til Tyrklands en ég hef skoðað staði þar sem sérhæfa sig í því. Ég hef hvorki farið til Tyrklands né farið í fallhlífaflug svo það er um að gera að setja þetta næst á dagskrá.“

Hafa sumarplön breyst eitthvað?

Sumarplönin hafa vissulega breyst að einhverju leyti. Ég reyni yfirleitt að nýta sumarfríið í að heimsækja land sem ég hef ekki heimsótt áður en ég var ekki búin að plana neitt fyrir þetta sumar enda byrjaði óvissan það snemma að ég var ekki búin að ákveða neitt. Þar sem sumarið er rétt að byrja er stefnan alla vega tekin á að nýta tímann hér heima og aldrei að vita nema maður fari utan í einhverri skyndingu ef allt gengur upp.“

Aldís Arna í Rio de Janero í Brasilíu.
Aldís Arna í Rio de Janero í Brasilíu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is