Balí gæti opnað í október

Kuta-ströndin á Balí hefur verið nær mannlaus í tvo mánuði.
Kuta-ströndin á Balí hefur verið nær mannlaus í tvo mánuði. AFP

Balí, einn vinsælasti ferðamannastaður í heimi, gæti opnað dyr sína fyrir ferðamönnum í október næstkomandi. Baráttan við kórónuveiruna hefur gengið vel á Balí og aðeins 343 greinst með veiruna og fjórir látist.

Það eru töluvert lægri tölur samanborið við annars staðar í Indónesíu allri en í heildina hafa rúmlega 16 þúsund manns smitast og 1.076 látist.

Ni Wayan Giri Adnyani, ferðamálaráðherra Indónesíu, sagði í viðtali fyrir helgi að ráðuneyti hennar væri að vinna í kynningarefni um áfangastaði í Indónesíu sem verða tilbúnir til að taka við ferðamönnum seinna á þessu ári. Þar á meðal er Balí. 

Adnyani sagði að markaðsstarfið myndi hefjast í júní og vonaðist til að Balí gæti opnað fyrir erlendum ferðamönnum í síðasta lagi í október. 

Það var mikið áhyggjuefni snemma í heimsfaraldrinum að fjölsóttir ferðamannastaðir, líkt og Balí, myndu verða illa úti en það hefur ekki verið raunin. Heimsfaraldurinn hefur þó haft mikil áhrif á samfélagið sem reiðir sig að stórum hluta á ferðamannaiðnaðinn og því er það í forgrunni að fá ferðamennina aftur. 

Gert er ráð fyrir að Balí geti opnað fyrir ferðamönnum …
Gert er ráð fyrir að Balí geti opnað fyrir ferðamönnum í síðasta lagi í október. AFP
mbl.is