Ætla ekki að greiða ferðamönnum fyrir að koma

Stjórnvöld í Japan ætla ekki að styðja við erlenda ferðamenn …
Stjórnvöld í Japan ætla ekki að styðja við erlenda ferðamenn sem koma til landsins en ætla hins vegar að hvetja til þess að fólk í Japan ferðist innanlands. AFP

Ferðamálaráð Japans (Japan Tourism Agency) ætlar ekki að greiða helminginn af útgjöldum erlendra ferðamanna sem leggja leið sína til landsins í ár. Flökkusaga fór af stað um heiminn um að yfirvöld í Tókýó ætluðu að koma til mót við erlenda ferðamenn sem kæmu til Japans með því að greiða helminginn af flugfargjöldum og kostnaði við dvölina í Japan. 

Þessar aðgerðir stjórnvalda áttu að vera til þess að sporna við að fyrirtæki í ferðamannaiðnaðinum færu í gjaldþrot vegna kórónuveirunnar. 

Á miðvikudagsmorgun leiðrétti ferðamálaráðið þennan misskilning. „Go to Travel-markaðsherferðin er til skoðunar hjá japönskum stjórnvöldum og snýst um að auka ferðalög innan Japan eftir kórónuveiruheimsfaraldurinn og að styðja aðeins við innlenda ferðamenn,“ sagði í tilkynningu frá Ferðamálaráði Japan. 

Talsmaður fyrir Japan National Tourism Organisation (JNTO) í London sagði í viðtali við The Independent að Go To Travel-herferðin væri ekki á vegum JNTO en sneri að því að virkja Japani til að ferðast innanlands. 

„Nú þegar neyðarástand ríkir ekki lengur og færri greinast á hverjum degi mun Japan finna meðalveginn milli öryggis og hreinlætis til að fá fólk í Japan til að halda áfram að njóta alls þess sem þeirra fallega land hefur upp á að bjóða,“ sagði talsmaðurinn. 

Herferðin mun að öllum líkindum fara í loftið í júlí og einblína á ferðalög í júlí og ágúst eða á sama tíma og Ólympíuleikarnir í Tókýó áttu að fara fram. Fjármálaráðuneyti Japans hefur lagt til að gefnar verði út ferðaávísanir að hámarki 25 þúsund íslenskar krónur til allra Japana.

mbl.is