Framtíð spilavíta í Las Vegas óviss

Mun Las Vegas ná sér eftir veiruna?
Mun Las Vegas ná sér eftir veiruna? AFP

Framtíð spilavítanna í Las Vegas í Bandaríkjunum er ekki mjög björt eftir að heimsfaraldurinn gengur yfir. Hluti af aðdráttarafli borgarinnar eru án efa spilavítin og erfitt er að fylgja sóttvarnareglum á slíkum stöðum. 

Í úttekt New York Times um málið kemur fram að einn þriðji af hagkerfinu í Las Vegas byggir á tekjum í skemmtana og hótel-iðnaðnum. Það er stærri hluti en í nokkrum öðrum borgum Bandaríkjanna. 

Öll hótel, veitingastaðir, skemmtistaðir og spilavíti hafa verið lokuð um nokkurra vikna skeið vegna kórónuveirunnar og ekki er útséð um hvenær hægt er að opna á ný. Margir spá því að sum spilavítanna muni ekki opna aftur. 

Götur Las Vegas tómar.
Götur Las Vegas tómar. AFP

Á hótelinu El Cortez Hotel & Casino í miðborg Las Vegas er verið að undirbúa opnun að nýju. Búið er að fjarlægja um hundrað spilakassa og breikka bilið á milli þeirra 750 kassa sem eftir eru. Merkingar eru komnar á gólfin til hjálpa gestum við að halda tveggja metra reglunni. 

„Dagarnir þar sem 16 manns standa í kringum teningaborð og gefa háa fimmu eru liðnir,“ segir Adam Wiesberg, rekstrarstjóri El Cortez, í viðtali við NYT. 

Hótelið og spilavítið Luxor hefur verið lokað lengi.
Hótelið og spilavítið Luxor hefur verið lokað lengi. AFP

Ekki er útlit fyrir að nokkur stærri hótelanna og spilavítanna muni opna á næstunni. Morgunverðar-, hádegis- og kvöldverðarhlaðborðin sem margrómuð eru í borginni munu hverfa. Næturklúbbarnir munu að öllum líkindum ekki opna í bráð og erfitt er að segja til um hvenær sýningar, tónleikar og íþróttaviðburðir hefjast á ný.

Mannmergð er óumflýjanleg í öllu því sem gerir Las Vegas að Las Vegas, hvort sem það eru spilavíti, tónleikar, skemmtanir eða partý. Á veirutímum er það einmitt mannmergðin sem þarf að forðast.

Framtíðin?
Framtíðin? AFP

Efnahagsástandið í Las Vegas var einstaklega gott um miðjan mars áður en allri ónauðsynlegri þjónustu og verslunum var lokað. Þrátt fyrir það var borgin mjög lengi að ná sér eftir efnahagshrunið árið 2008. 

„Það kemur enginn til Las Vegas til að eyða tíma með sjálfum sér. Þetta er staður sem fólk kemur saman til að blanda geði við annað fólk,“ sagði Brian Labus, aðstoðarprófessor við School of Public Health við Nevada-háskólann í Las Vegas. 

Spilakassarnir eru lokaðir.
Spilakassarnir eru lokaðir. AFP
mbl.is