Læknir með ólæknandi ferðabakteríu

Sverrir Arnar Friðþjófsson ferðast mikið um landið og tekur myndir.
Sverrir Arnar Friðþjófsson ferðast mikið um landið og tekur myndir. Ljósmynd/Sverrir Arnar Friðþjófsson

Sverrir Arnar Friðþjófsson er læknakandídat og sjálflærður ljósmyndari. Hann heillaðist af ljósmyndun og fegurð Íslands á stressandi tímum í læknisfræðinni fyrir nokkrum árum. Með því að fara út á land tókst hann á við stressið sem fylgdi krefjandi námi en smitaðist í stað þess af ólæknandi ferðabakteríu.

„Ég þurfti að ná stressinu úr mér og fór út í náttúruna,“ segir Sverrir um upphafið að ferða-og ljósmyndunaráhuganum. Kærasta Sverris, Tanja Sól Valdimarsdóttir, ferðaðist með honum og gerir enn. Parið keypti sér litla en ágæta myndavél og byrjaði að fikta við ljósmyndun á ferðalögunum. 

Sverrir Arnar er vanur að ferðast með kærustu sinn, Tönju …
Sverrir Arnar er vanur að ferðast með kærustu sinn, Tönju Sól. Ljósmynd/Sverrir Arnar Friðþjófsson

Vinsældirnar komu á óvart

Sverrir hefur verið duglegur við afla sér fróðleiks um ljósmyndun á netinu, meðal annars á YouTube. Nú er Instagram-síðan hans sem geymir fallegar náttúrumyndir af Íslandi með yfir 36 þúsund fylgjendur. Sverrir stofnaði einnig Instagram-síðuna Lost in Iceland

„Ég byrjaði í desember 2018 og hugsaði þetta sem síðu sem innihéldi alla mína uppáhaldsljósmyndara sem ferðast um Ísland. Albúm sem fólk getur fundið, auðveldað ferðir á Ísland og að íslenskir ljósmyndarar gætu fengið meiri athygli út frá þessari síðu,“ segir Sverrir um Lost in Iceland-verkefnið sem er nú með yfir 100 þúsund fylgjendur á Instgram.

Ljósmynd/Sverrir Arnar Friðþjófsson

Sverrir segir að vinsældir beggja síðna hafi komið honum gríðarlega á óvart. Sverrir hefur fengið ýmis tækifæri út frá náttúrumyndunum og hefur meðal annars myndað fyrir veitingastaðinn Dill en myndir hans hafa birst víða eftir að Dill endurheimti Michelin-stjörnuna.  

Sverrir er búinn að vera í skóla undanfarin ár og hefur því lítið ferðast erlendis. Hann langar þó utan að mynda og eru það lönd sem minna á Ísland sem hann er spenntastur fyrir. Skotland, Færeyjar, Grænland eru meðal annars á listanum hjá honum.

Ljósmynd/Sverrir Arnar Friðþjófsson

Þrjú á ferð

Spurður hvort hann hafi einhvern tíma til þess að vera læknir viðurkennir hann að ljósmyndunin hafi setið aðeins á hakanum að undanförnu. En auk þess að vera á kandídatsári í miðjum heimsfaraldri eignuðust hann og Tanja kærasta hans son síðasta sumar. Sverrir er á leiðinni í sumarfrí á næstu vikum og ætlar þá að einbeita sér að myndavélinni. 

Ferðalagið í sumar verður þó öðruvísi en önnur ferðalög þar sem í fyrsta skipti verða nýbökuðu foreldrarnir með lítið barn með sér. 

„Planið er að fara í tveggja vikna ferð með fjölskyldunni og reyna að taka hann með. Það gæti verið krefjandi en hann er ekkert rosalega kátur í bíl. Við verðum að skipuleggja ferðirnar í kringum svefntímann hans. Það verður áhugavert að sjá hvernig það verður,“ segir Sverrir.

„Ég ætla að byrja á að fara á Suðurland og ætla svo að halda mig mest á Norðausturlandi. Mig langar að skoða það betur. Svo langar mig að fara á staði sem ég hef ekki farið á,“ segir Sverrir sem væri líka til í að skoða Vestfirðina betur. Listinn er langur en Sverrir segir það einmitt svo skemmtilegt við Ísland að þar sé alltaf hægt að uppgötva eitthvað nýtt. 

Ljósmynd/Sverrir Arnar Friðþjófsson

Sverrir ætlar líka að reyna að heimsækja nokkra af sínum uppáhaldsstöðum í sumar en staðirnir sem honum finnst fallegastir á Íslandi eru þó nokkrir. Hann segir að Stokksnes á Suðausturlandi sé einn fallegasti staður sem hann hefur séð. Hann nefnir líka Landmannalaugar, Frostastaðavatn og Bláhyl, Þórsmörk og Múlagljúfur. 

Áhugasamir geta fylgst með Sverri og litlu fjölskyldunni ferðast um landið í sumar á Instagram en hann ætlar meðal annars að vera duglegur að sýna frá ferðalaginu í sögu á Instagram. Hann er boðinn og búinn að hjálpa Íslendingum í sumar og segir að fólk geti sent honum skilaboð á Instagram ef það vantar frekar upplýsingar um einhverja staði. mbl.is