Er búin að panta næstu utanlandsferð

Skagakonan Rósa Soffía er mikill heimsborgari.
Skagakonan Rósa Soffía er mikill heimsborgari. Ljósmynd/Aðsend

Rósa Soffía Haraldsdóttir, viðskiptafræðingur og einkaþjálfari, er dugleg að ferðast erlendis. Rósa Soffía sem býr á Akranesi er með ferðabakteríu á háu stigi og þrátt fyrir að utanlandsferðir séu ekki á dagskrá í sumar vegna kórónuveirunnar er hún búin að plana sumarið 2021. 

„Ég bara elska frelsið sem fylgir því að ferðast. Það er svo magnað að upplifa aðra menningu. Heimurinn er svo ótrúlega stór og svo margt að sjá. Því meira sem ég ferðast því meira langar mig að sjá,“ segir Rósa Soffía þegar hún er spurð hvað það gefi henni að ferðast. 

Rósa Soffía á 18 ára dóttur sem ferðast mikið með henni. Hún segir dóttur sína eiginlega hafa erft ferðabakteríuna frá sér. Rósa Soffía var einmitt með dóttur sinni í mjög eftirminnilegu ferðalagi í fyrra. 

„Við dóttir mín fórum í þriggja vikna „roadtrip“ um Ítalíu síðasta sumar og ferðuðumst á milli nokkurra staða með lestum. Sú ferð er ógleymanleg, Ítalía er svo magnað land. Uppáhaldsstaðirnir mínir í þessari ferð voru Amalfi-ströndin, Cinque terre og Verona.“

Rósa Soffía í bænum Positano á Amalfi-ströndinni.
Rósa Soffía í bænum Positano á Amalfi-ströndinni. Ljósmynd/Aðsend

Það kemur ekki að óvart að Ítalíuferðin standi upp úr enda er Rósa Soffía dugleg að panta sér pasta á ferðalögum. 

Ég er svona frekar matvönd manneskja, er lítið fyrir sjávarrétti til dæmis. Ég fæ mér eiginlega alltaf kjúkling eða pasta á ferðalögum, hef komist að því að það klikkar eiginlega aldrei. Besta pasta sem ég hef fengið var á ströndinni á Praiano á Ítalíu, það var gnocchi með tómat, basil og mozzarella. Fæ vatn í munninn við tilhugsunina það var svo gott.“

Ítalía er í miklu uppáhaldi enda auðvelt að fá gott …
Ítalía er í miklu uppáhaldi enda auðvelt að fá gott pasta þar. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsborg í Evrópu?

„Ég held ég verði að segja Prag. Ég var í skiptinámi þar árið 2007 og fór svo aftur í fyrra bara í stutta helgarferð. Tékkar eru svo næs, tungumálið svo fallegt og borgin sú fallegasta sem ég hef farið til. Hvert sem þú ferð eru sögulegar byggingar og svo skemmir ekki fyrir hvað allt er ódýrt þar.“

Prag er í uppáhaldi.
Prag er í uppáhaldi. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Rósa Soffía er spurð hvaða staður á Íslandi sé í uppáhaldi viðurkennir hún að hún mætti vera duglegri að ferðast innanlands. 

„Ég fór til dæmis á Vestfirðina í fyrrasumar og Austfirðina árið þar á undan. En Akureyri á alltaf stað í mínu hjarta. Mamma mín er þaðan og ég dvaldi mikið þar sem barn, fór í listaskóla þar á sumrin og svona. Svo stendur Akranes náttúrulega alltaf fyrir sínu.“

Hvert dreymir þig um að fara þegar óhætt er að ferðast aftur?

„Ég er strax búin að panta ferð,“ segir Rósa Soffía. „Ég fer næsta sumar (2021) í tveggja vikna bootcamp-ferð til Balí. Ég verð nýorðin fertug þá svo þetta verður svona afmælisgjöf frá mér til mín. Balí er búið að vera lengi á „to-do“-listanum mínum svo ég er mjög spennt.“

Kórónuveiran hafði áhrif á ferðaáætlanir Rósu Soffíu sem ætlaði til Sviss í lok mars og Spánar núna í sumar. Í staðinn ætlar Rósa Soffía að ferðast meira innanlands. 

„Ég er strax búin að bóka ferð til Akureyrar núna í júní. Svo mun ég pottþétt skreppa í „roadtrips“ um helgar og þess háttar, en hef ekki planað neitt enn þá. Utanlandsferðirnar bíða betri tíma.“

Cinque Terre á Ítalíu.
Cinque Terre á Ítalíu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert