„Menn hafa ekki lifað fyrr en þeir hafa smakkað gellurnar þar“

Óttar Guðjónsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir fyrir framan Dynjanda.
Óttar Guðjónsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir fyrir framan Dynjanda.

Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, og unnusta hans, Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólastjóri Lýðskólans á Flateyri, festu kaup á litlu húsi á Flateyri fyrir nokkrum árum. Síðan þá hafa þau verið að gera húsið upp og varið miklum tíma fyrir vestan. Óttar segir hér frá sínum uppáhaldsstöðum á Vestfjörðum. 

Óttar hefur sterkar taugar til Flateyrar en þangað kom hann sem unglingsdrengur til að vinna í fiski og eignaðist vini fyrir lífstíð.

„Ég byrjaði að koma hingað þegar ég var 14 ára til að vinna í fiski á sumrin. Ég kom hingað allar götur síðan til tvítugs. Hér var mér vel tekið, ég eignaðist kæra vini sem tóku mig inn í fjölskyldu sína og mér þykir mjög vænt um þau, þennan stað og fólkið hér hefur tekið okkur vel. Hér eigum við marga góða vini,“ segir Óttar.

Þegar hann er spurður út í sína uppáhaldsstaði á Vestfjörðum nefnir hann Holtsfjöru og bryggju í Önundarfirði og segir að það sé ótrúlega fallegur staður. Svo nefnir hann Bolafjall og Skálavík og mælir með að fólk fari í bíltúr þangað. Fossinn Dynjandi heillar líka og svo segir Óttar að það sé fátt skemmtilegra en að fara í snjósleðaferð upp á Eyrarfjall í góðra vina hópi.

Það er fallegt á horfa niður á Flateyri.
Það er fallegt á horfa niður á Flateyri.

„Hornstrandir eru líka í uppáhaldi en það er til dæmis hægt að fara í dagsferð til Hestvíkur,“ segir hann.

Mælir þú með einhverri gönguleið á þessu svæði?

„Skemmtilegasta gönguleiðin er að fara upp Klofningsdal, yfir Eyrarfjall og yfir í Súgandafjörð og enda á Suðureyri,“ segir hann en mælir líka með styttri göngu sem gengur út á að fara upp Klofningsdal og upp á Eyrarfjall og svo niður aftur.

„Útsýnið yfir Flateyri er frábært þaðan,“ segir hann og bætir við:

„Svo er ógleymanlegt að ganga upp á Þorfinn, útsýnið þaðan yfir fjörðinn og Flateyri er óviðjafnanlegt.“

Ef þú ættir ekki hús á þessum stað, hvar myndir þú gista?

„Við myndum alltaf gista í Litlabýli sem er fallegt hús, frábær staðsetning og svo eru eigendurnir snillingar.“

Hvar er besta matinn að finna á þessum slóðum?

„Fiskisúpan á Bryggjukaffi er sú besta í heimi! Tjöruhúsið á Ísafirði er í sérstöku uppáhaldi, menn hafa ekki lifað fyrr en þeir hafa smakkað gellurnar þar. Svo mæli ég með Kaffi Sól í Breiðadal en það er einstakt kaffihús, góður matur og gott kaffimeðlæti á fallegum stað. Svo er Gunnukaffi á Flateyri líka í miklu uppáhaldi – þar er einstaklega vel hugsað um okkur.“

Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu?

„Við verðum mikið á Flateyri í sumar þar sem verður frábær dagskrá í allt sumar. Við ætlum að heimsækja nokkra staði í sumar, fara hringinn í nokkrum bitum. Erum búin með fyrsta bitann; Húsavík, Tjörnes, Kópasker, Melrakkaslétta, Raufarhöfn, Dettifoss og Mývatn, sem var frábært.

Svo er stefnan tekin á Höfn, Fáskrúðsfjörð, Borgarfjörð eystri, Bakkafjörð, Siglufjörð og Dalvík og kíkja í kaffi í Skagafirði og á Skagaströnd.

Síðan ætlum við á Snæfellsnes, væntanlega fara í eina snjósleðaferð á Snæfellsjökul þar sem er besta skíðabrekka landsins. Svo ætlum við líka að skoða sunnanverða Vestfirði aðeins betur og vonandi eitthvað fleira ef tími gefst til.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert