Engin skriðdrekaolía, bara vatn og möndlur!

Hótel Djúpavík.
Hótel Djúpavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Oft er talað um hvítasunnuhelgina sem fyrstu ferðahelgi ársins hjá Íslendingum. Þar sem ég var á göngu upp Esjuna með möndlur í poka og vatn rifjaðist það upp fyrir mér að þessi fyrsta ferðahelgi ársins hafði oft verið töluvert hressari. Fyrir um 20 árum var helsta sportið hjá vinahópnum mínum að keyra á Búðir á Snæfellsnesi, tjalda og skemmta sér heila helgi í góðra vinahópi. Á þessum árum átti ég sérstakan bakpoka sem ég tók með í ferðalög og kallaðist hann Lúbarinn! Í Lúbarnum var alltaf hægt að finna sér svalandi drykki og var mikill metnaður lagður í hárrétta blöndu. Á þessum árum fengust ekki sætir svaladrykkir í vínbúðum landsins og þess vegna þurftu ungmenni landsins að nota hugvitið til að gera gott ferðalag ennþá betra.

Eitt árið keyrðum við vinkonurnar á bílnum mínum á Snæfellsnesið með tvö speltbrauð og hummus í skottinu. Þessi tvenna var það ferskasta hjá hippunum sem borðuðu á Grænum kosti en þeir drukku gulrótarsafa með brauðinu, ekki skriðdrekaolíu eins og við.

Meðan brauðin og hummusinn hossuðust í skottinu dundaði vinkona mín við að búa til skriðdrekaolíu sem samanstóð af vodka og piparbrjóstsykri. Það tók um það bil þrjá klukkutíma að láta brjóstsykurinn leysast upp í áfenginu og því var drykkurinn akkúrat tilbúinn þegar við renndum í hlað á bláa golfinum. Seinna fóru menn að framleiða þetta undir nöfnum eins og Hot n'Sweet.

Það er nú farið að fenna yfir hvað gerðist nákvæmlega nema ég man að einhver keyrði BMX-hjól fram af bryggjunni án þess að slasast og annar tók Hasselhoff-hlaupið í sandinum. Svo var farið á trúnó á ströndinni og sá Lúbarinn um að þjónusta þá sem deildu sínum hjartansmálum í íslenskri sumarnótt.

Frá því skriðdrekaolía var hluti af staðalbúnaði okkar vinanna hefur margt breyst, þá sérstaklega ferðalögin. Nú snúast ferðalög um gönguferðir, að hafa nógu góðar bækur með sér svo fólk nái örugglega að núllstillast og svo þarf gistingin að vera upp á tíu.

Á Vesturlandi er enginn skortur á frábærum hótelum og eru tvö þeirra í sérstöku uppáhaldi. Það er hótelið á Djúpuvík sem er rekið í eldgömlu húsi. Herbergin eru notaleg og frammi er allt fullt af bókum og tímaritum en ein þekktasta fyrirsæta fyrri tíma, María Guðmundsdóttir, er alin þarna upp. Þegar ég var þarna síðast las ég einmitt bókina um hana sem lá þarna frammi og hafði gaman af. Hitt hótelið heitir Heydalur og er magnaður staður. Í nálægð við hótelið er heit náttúrulaug og skemmtilegar gönguleiðir. Á matseðlinum er til dæmis sérlega gómsætt grænmetis-lasagna og góður fiskur sem kemur úr nærumhverfinu.

Ef ég væri á ferð á þessum tveimur stöðum myndi ég alltaf skilja Lúbarinn eftir heima en fylla þess í stað bakpoka af möndlum, döðlum og kókosflögum og hafa stóran vatnsbrúsa með. Ég myndi líka hafa með eina bók ef þú skyldir finna litla laut til að leggja þig í. Það er nefnilega ekkert sem toppar íslenskt sumar úti í náttúrunni og það er alger óþarfi að sturta í sig skriðdrekaolíu til að hækka orkustigið og margfalda gleðina.

Gleðilegt ferðasumar!

HÉR getur þú lesið fyrsta Ferðablað Morgunblaðsins! 

Djúpavík úr lofti.
Djúpavík úr lofti. Ljósmynd/Claus
Ljósmynd/Helga Aðalgeirsdóttir
Heydalur er dásamlegt sveitahótel sem vert er að gista á.
Heydalur er dásamlegt sveitahótel sem vert er að gista á. Ljósmynd/bb.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert