Býr einn á 26 hæða lúxushóteli í Barcelona

Daniel Ordóñez hefur komið sér fyrir á hótelherbergi í Barcelona.
Daniel Ordóñez hefur komið sér fyrir á hótelherbergi í Barcelona. Ljósmynd/W Barcelona

Spánverjinn Daniel Ordóñez lifir svipuðu lífi og Palli var einn í heiminum en Ordóñez býr einn á lúxushóteli í Barcelona að því fram kemur á vef Insider. Ordóñez sá fram að vera á hótelinu í örfáar vikur á meðan það lokaði vegna kórónuveirunnar. Hann hefur nú verið á hótelinu til þess að sinna viðhaldi í þrjá mánuði. 

Hótelið sem um ræðir heitir W Barcelona en W-hótelin eru þekkt fyrir flottheit og eru hluti af hinni frægu Marriott-hótelkeðju. Hótelið í Barcelona er stórt og með útsýni yfir sjóinn. Þrátt fyrir lúxusinn, flottu hönnunina, sundlaug, spa og þakbar segir Ordóñez það geta verið skrítið að elda fyrir einn í stóru hóteleldhúsi og þvo þvottinn í stóru þvottahúsi. 

Hótelið er afar áberandi.
Hótelið er afar áberandi. Ljósmynd/W Barcelona

„Ég hélt að þetta yrðu bara nokkrar vikur svo ég tók bara bók með mér,“ sagði Ordóñez sem segist þó ekki leiðast. „Ég hef mikið að gera í 26 hæða 99 metra hárri byggingu.“

Öll herbergin eru laus en þrátt fyrir það er Ordóñez bara í venjulegu herbergi. Hann er hæstánægður með herbergið. „Ég er með frábært útsýni yfir borgina og sjóinn. Ég get ekki kvartað.“

Það versta við að dvelja á hótelinu er að vera fjarri vinum og fjölskyldu að sögn Ordóñez. Ef hann hefði ákveðið að vera heima hjá sér hefði hann þó ekki getað hitt vini og fjölskyldu þar sem hann er frá Madríd.

Það er allt mjög glæsielgt á hótelinu.
Það er allt mjög glæsielgt á hótelinu. Ljósmynd/W Barcelona
mbl.is