Hvítfyssandi flúðafjör!

Allur hópurinn áður en lagt var í hann. Sjö ungmenni …
Allur hópurinn áður en lagt var í hann. Sjö ungmenni og nett áhyggjufull móðir afmælisbarnanna Theodórs og Láru Guðbjargar Guðmundsbarna (þau fyrir miðju á myndinni með bláan og rauðan hjálm).

Tólf ára tvíburar veltu nýlega fyrir sér hvernig þau gætu fagnað 13 ára afmæli í júní. Undanfarin ár höfðu verið haldnar fjölmennar pylsugrillveislur hér og þar en í þetta skipti stóð hugurinn til þess að gera eitthvað óvenjulegt og bjóða fáum gestum.

Flúðsigling í Hvítá varð fyrir valinu! Litla bróður, sem var rétt skriðinn yfir 11 ára aldurslágmarkið, var boðið að koma með. Fyrsta sem hann gerði var að skoða flúðasiglingu (e. river rafting) á Youtube og var afar hikandi að slást með í för eftir það áhorf. Enda kemur þar 5. stigs flúðasigling fyrst upp sem er ekki alveg málið fyrir byrjendur. En hann lét svo sannfærast.

Hinn eiturhressi Hermann Ingi Pálsson „flúðagæd“ leggur börnunum lífsreglurnar á …
Hinn eiturhressi Hermann Ingi Pálsson „flúðagæd“ leggur börnunum lífsreglurnar á ánni áður en lagt var af stað.

Afmælisferðadagurinn rann upp bjartur og fagur. Ekið var með sjö ungmenni á aldrinum 11-13 ára að Drumboddsstöðum, sem er bækistöð Arctic Adventures fyrir flúðasiglingu í Hvítá, skammt NA af Reykholti í Bláskógarbyggð.  Frumkvöðlar að flúðasiglingum hérlendis voru hjónin Björn Gíslason heitinn og Vilborg Hannesdóttir en þau stofnuðu Bátafólkið árið 1985 og settu upp aðstöðuna á „Drumbó“ eins og bækistöðin er jafnan nefnd. Arctic Adventures tók við rekstrinum árið 2003. Flúðasigling niður Hvítá, um Hvítárgljúfur og hin kynngimögnuðu Brúarhlöð, hefur verið afar vinsæl afþreying erlendra ferðamanna í áratugi en sennilega hafa of fáir Íslendingar kynnst þeirri ævintýralegu náttúruupplifun sem siglingin er.

Krakkarnir fengu fyrirmæli um að taka með ull og/eða flísföt til að vera í innan undir blautbúningi og vatnsheldum stakk sem þau fengu afhentan, ásamt blautskóm, flotvesti og hjálmi. Svo var ekið sem leið lá upp með ánni og eftir um það bil 20 mínútna akstur var komið að árbakkanum þaðan sem ýtt skyldi úr vör. En fyrst lagði hinn eiturhressi flúðaleiðsögumaður Hermann Ingi Pálsson krökkunum lífsreglurnar fyrir siglingu. Þau skyldu muna fjórar reglur: 1. Halda alltaf um T-gripið á árinni til á lágmarka hættuna á að missa hana, 2. Þau áttu að halda sig nærri bátnum ef þau skyldu falla útbyrðis, 3. Þau skyldu alltaf hlýða leiðsögumanninum (gædinum) og 4. þau mættu aldrei aldrei reyna vera lóðrétt í ánni (ef þau myndu falla útbyrðis) á sama hátt og í sundlaug eða vatni því þá gætu þau fest sig og fengið alla Hvítána (upp) á móti sér og það væri á allan hátt vont. Ef þau myndu falla útbyrðis ættu þau alltaf að liggja á bakinu og láta flotvestið sinna sínu hlutverki.

Björg Fransdóttir vinkona, Lára Guðbjörg Guðmundsdóttir afmælisbarn og Hjalti Guðmundsson …
Björg Fransdóttir vinkona, Lára Guðbjörg Guðmundsdóttir afmælisbarn og Hjalti Guðmundsson litli bróðir.

Þegar þarna var komið var móður afmælisbarnanna og umsjónarmanni hópsins hætt að standa á sama. Var það mjög líklegt að börnin myndu hreinlega falla útbyrðis? Hermann neitaði því og sannfærði áhyggjufulla konuna að flest þau sem ekki vilja detta útbyrðis geri það ekki. Og ef krakkarnir yrðu hrædd í flúðunum þá væri alltaf í lagi að henda sér inn í bátinn. Hann tók fram að ef fólk fellur útbyrðis væri það oftast af því það velur að gera það. Þetta róaði móðurina lítillega.

Að lokum, og áður en gúmmíbátnum var vippað í ána, spurði hann krakkana af hverju þau héldu að mjótt reipi sem liggur lóðað í kringum bátinn væri kallað ÓS-línan. Þau létu sér detta eitt og annað í hug … Operation .. Security .. og fleira skynsamlegt en nei, þetta var þá einfaldlega „Oh Shit“-línan. Því þegar fólk dettur útbyrðis, grípur það í línunna og þá heyrist hrópað: OH SHIT!

Ótrúleg náttúrufeguð Brúarhlaða birtist þátttakendum á siglingunni.
Ótrúleg náttúrufeguð Brúarhlaða birtist þátttakendum á siglingunni.

Svo var lagt í hann. Fyrsta flúðin sem krakkarnir lentu í nánast strax heitir Öldulestin og nafnið segir sína sögu. Krakkarnir fengu yfir sig brot og ískalt jökulvatnið slettist framan í andlit þeirra. Ljóst var að erfiðaleikastigið „auðvelt“ var engin gönguferð í Hljómskálagarðinum. Taugaveiklaður hlátur og hróp heyrðust úr bátnum. „ÚHÚ!!“ Svo komu flúðirnar hver af annarri, Illviti og Skráargatið og krakkarnir annaðhvort reru hratt og samviskusamlega samkvæmt leiðbeiningunum frá „gædinum“ í bátnum,  Sölva Guðmundssyni, eða hentu sér inn í bátinn þegar flúðirnar sáu sjálfar um að pota honum niður ána og róður hafði ekkert að segja. Rússíbani hvað!!

Hér tekur afmælisdrengurinn Theodór stökkið út í Hvítá.
Hér tekur afmælisdrengurinn Theodór stökkið út í Hvítá.

Inn á milli flúða eru rólegri svæði í ánni þar sem hópurinn naut þess að upplifa náttúruna frá bátnum. Þursaberg Brúarhlaða og Hvítárgljúfrið sjálft eru falleg á þurru en algerlega mögnuð þegar siglt er á ánni milli klettana. Á siglingunni birtist stuðlaberg, tröll og forynjur af ýmsum gerðum. Sölvi segir hópnum sögur af tröllum sem döguðu uppi en líka frá alls kyns illskeyttum skrímslum sem geri stundum vart við sig meðal siglingakappa. Þetta eru Finkurinn sem er hálfur fálki og hálfur minkur, Lárkarlinn — hálfur lax og hálfur hákarl og loks Mananinn — hálfur karl og hálfur banani. Krakkarnir hlógu dátt yfir þessum sögum og veltu fyrir sér hugsanlegum árásum þessara undravera á bátinn þegar þau voru ekki að kljást við flúðirnar sjálfar.

Punkturinn yfir i-ið var svo Stökkið! Í lok ferðarinnar er siglingaköppum boðið að hoppa sisona af bjargbrún Brúarhlaða beint ofan í ískalda jökulána. Ána sem geymir sjálfan Gullfoss örfáum kílómetrum ofar. Mamman í hópnum var búin að tilkynna formlega að enginn úr hópi ungmennanna fengi að stökkva í Hvítá, alveg gallhörð. En þegar fylgst var með öðrum siglingaköppum henda sér (að því virtist) áreynslulaust út í ána og synda í flotvestum að landi, með þrautreynt starfsfólk Arctic Adventures á brúninni tilbúið með línu ef einhverjum skyldi svelgjast á eða missa úr sundtök, og þegar ungviðið byrjaði að suða ákvað hún að gefa eftir. „Okei þá.“ Fjórir krakkar fundu kjark og stukku út í og komu upp úr eftir sundtökin í taugaveikluðu adrenalínhláturskasti.

Í blálokin var svo aðalfjörið að henda sér útbyrðis, til dæmis með því að krækja saman árunum og halla sér yfir bátsbrúnina eða með því að standa í stafni og láta aðra í bátnum róa í hringi og sjá hve lengi hægt var að standa. Á endanum fóru þau öll skellihlæjandi í ána.

„VÁÁ hvað þetta var skemmtilegt!“ sagði afmælisdrengurinn Theodór þegar hann gekk rennblautur og glaður upp úr ánni í lok siglingarinnar.

Lára Guðbjörg að springa út gleði eftir stökkið.
Lára Guðbjörg að springa út gleði eftir stökkið.
Að leiðarlokum. VÁÁ hvað þetta var skemmtilegt. Theodór ekkert smá …
Að leiðarlokum. VÁÁ hvað þetta var skemmtilegt. Theodór ekkert smá sáttur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert