Oft eru bestu veitingastaðirnir úr alfaraleið

Guðný Hilmarsdóttir rekur vefinn EKTA Iceland sem miðlar upplýsingum um …
Guðný Hilmarsdóttir rekur vefinn EKTA Iceland sem miðlar upplýsingum um framúrskarandi veitingastaði um land allt.

Guðný Hilmarsdóttir, ljósmyndari, þýðandi og ferðahönnuður, opnaði vefinn EKTA Iceland á dögunum en hann vísar ferðamönnum á veitingastaði sem bjóða upp á íslenska matarmenningu og mat úr héraði. 

Guðný var í meistaranámi við Háskólann á Bifröst þegar hugmyndina að EKTA Iceland kviknaði.

„Ég fór í meistaranám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst nýverið og þar sem ég hef verið að vinna í ferðaþjónustunni ákvað ég að leggja áherslu á menningartengda ferðaþjónustu í náminu. Þar á meðal tók ég fyrir íslenska matarmenningu og varð úr að lokaverkefnið mitt var viðskiptaáætlun fyrir Ekta Iceandic food experience. Leiðbeinandi minn var Anna Hildur Hildibrandsdóttir en verkefnið var einnig valið til þátttöku í Virkjum hugvitið á vegum Íslenska ferðaklasans, atvinnuvegaráðuneytisins, Icelandic Startups, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ferðamálastofu,“ segir hún.

Fyrir hverja er vefurinn?

„Hugmyndin er að þetta geti gagnast öllum þeim sem ferðast um Ísland, jafn Íslendingum sem erlendum ferðamönnum. Í ljósi aðstæðna og þeirrar staðreyndar að núna eru hér eingöngu Íslendingar að ferðast um landið er vefurinn bara á íslensku eins og er.“

Er erfitt að finna góðan mat á landsbyggðinni?

„Það er nóg af góðum stöðum en mér fannst vanta vettvang eins og EKTA sem hjálpar til við að finna þá. Oft eru þessir staðir úr alfaraleið og fólk stoppar því bara á bensínstöðvum á ferðalögum sínum. Með þessum vef getur fólk séð hvaða staðir eru í nágrenninu. Fljótlega mun svo birtast kort með staðsetningu veitingastaðanna á vefsíðunni, sem gerir þetta ennþá auðveldara.“

Ef þú værir á leið í ferð um Suðurland, hvað myndir þú gera?

„Ég myndi í fyrsta lagi gefa mér góðan tíma til að geta stoppað á sem flestum stöðum. Ég mæli með heimsókn og gistingu í Traustholtshólma, sem er einstök upplifun. Svo eru góð hótel eins og Hótel Rangá og Iceland Luxury Lodges líka í uppáhaldi hjá mér. Vestmannaeyjar eru dásamlegar og þangað ættum við Íslendingar að vera duglegri að fara, ekki bara á fótboltamót. Varðandi afþreyingu mæli ég með jöklagöngu á Sólheimajökli en þar er einnig hægt að fara á kajak í jökullóninu innan um ísjaka. Svo er hægt að fara í frábæra fjórhjólaferð um Sólheimasand, meðfram svörtu ströndinni og skoða gamla flugvélarflakið.“

Hvert ætlar þú í sumar?

„Ég ætla til Vestmannaeyja, Siglufjarðar, á Strandirnar og svo ætla ég að ganga á Hornströndum.“

Hvert er best geymda leyndarmál Íslands?

Allt Ísland er fallegt, sérstaklega í miðnætursólinni. Ég get ekki gert upp á milli staða.“

Þessi mynd var tekin á Sólheimajökli.
Þessi mynd var tekin á Sólheimajökli. Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson
Við Sólheimajökul er lón og þar er hægt að fara …
Við Sólheimajökul er lón og þar er hægt að fara á kajak. Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson
Slippurinn í Vestmannaeyjum er góður veitingastaður að mati Guðnýjar.
Slippurinn í Vestmannaeyjum er góður veitingastaður að mati Guðnýjar. Ljósmynd/Mali Lazell
Friðheimar bjóða upp á góðan mat.
Friðheimar bjóða upp á góðan mat. Ljósmynd/Guðný Hilmarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert