Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull sjaldan verið vinsælli

Jón Björnsson.
Jón Björnsson.

Á tímabili jókst aðsóknin í Þjóðgarðinn Snæfellsjökul svo hratt að Jón Björnsson og starfsfólk hans áttu fullt í fangi með að taka vel á móti öllum gestunum. „Árin 2016-2018 fjölgaði komum í garðinn um 30% á milli ára en róaðist ögn 2019 þegar fjölgunin var 8% frá árinu á undan. Okkur tókst að aðlagast þessum öru breytingum en hefðum ekki ráðið við öllu fleiri gesti,“ segir hann.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður árið 2001 og voru það ekki síst heimamenn sem þrýstu á um að svæðið yrði gert að þjóðgarði. Garðurinn nær yfir vestasta hluta Snæfellsness, frá Dagverðará í suðri að Hellissandi í norðri og er áætlaður fjöldi gesta í þjóðgarðinn um hálf milljón á ári. „Um það bil 15% þeirra koma gagngert til að heimsækja þjóðgarðinn en meirihlutinn er á ferðalagi um landið og fer hér í gegn án þess að hafa endilega skipulagt það sérstaklega. Ekki er ólíklegt að starfsmenn gististaða í Reykjavík bendi á þjóðgarðinn sem áhugaverðan kost,“ segir Jón.

Eðlilega ber lítið á erlendum gestum í augnablikinu og eru það nær eingöngu Íslendingar sem spóka sig um í nágrenni Snæfellsjökuls um þessar mundir. Jóni þykir gaman að sjá að rólegri taktur er á Íslendingunum og oftast gefa þeir sér nægan tíma til að skoða svæðið vandlega. „Erlendir gestir eru stundum á mikilli hraðferð, dvelja aðeins stuttan tíma á landinu og vilja sjá sem mest í einum rykk. Ef þú sérð fólk koma sér fyrir í mestu makindum hér úti í náttúrunni með nestiskörfu þá eru þar sennilega Íslendingar á ferð því erlendu gestirnir stoppa oftast ekki mikið lengur en hálftíma á hverjum stað.“

Jörðin skelfur

Í þjóðgarðinum er enginn skortur á náttúruperlum og segir Jón að gestir hafi oft á orði að á Snæfellsnesi megi sjá á einum degi allt það sem einkennir íslenska náttúru og landslag. „Þetta er eldfjallaland og mikið af ólíkum hraunum, fjölbreyttur gróður og dýralíf, og svo trónar jökullinn yfir svæðinu. Fæstir eru þó að ganga upp á jökulinn heldur ferðast frekar eftir ströndinni þar sem víða er brimasamt og hægt að finna kraftinn í sjónum mjög greinilega á stöðum eins og Djúpalóni,“ útskýrir Jón sem oft stendur ferðamenn að því að sitja lengi við ströndina í kulda og bleytu og fylgjast með öldunum skella utan í bergið. „Þarna geta þau setið tímunum saman og er alls ekki kalt heldur þvert á móti sjóðandi heitt því upplifunin er svo mögnuð.“

Það er alveg óhætt að taka frá a.m.k. nokkra daga til að skoða þjóðgarðinn og Snæfellsnesið enda er þar svo margt að sjá og gera. Má nefna viðkomustaði eins og Arnarstapa, Lóndranga, Vatnshelli, Djúpalónssand, Skarðsvík, Öndverðarnes og Saxhól. Jón minnir gesti á að sýna hæfilega varkárni og þannig geti Djúpalónssandur verið viðsjárverður, sem og Öndverðarnes. „Sem betur fer er það þannig í verstu brimunum að jörðin nötrar öll og fólk hreinlega þorir ekki of nálægt fjörunni. Engu að síður hefur það stundum gerst að öldur hafa hrifið ferðalanga með sér, þó blessunarlega hafi ekki orðið alvarleg slys á fólki,“ segir hann. „Vilji fólk ganga á Snæfellsjökul er vissara að vera í för með reyndu leiðsögufólki, eða í hópi með vönum ferðalöngum sem þekkja aðstæður. Jökullinn er mjög sprunginn og varasamur af þeim sökum.“

Menn og tröll

Þeir sem heimsækja þjóðgarðinn ættu endilega að lesa sér til um náttúruna sem þar er að finna, og heimsækja gestastofuna á Malarrifi. Sakar heldur ekki að þekkja sögu byggðarinnar á svæðinu og stendur þar upp úr Bárðar saga Snæfellsáss. Bárður átti mennska móður en hálftröll fyrir föður og segir sagan að hann hafi numið land í Djúpalóni og hafa ótal sögur spunnist um Bárð og hans ætt. „Ein sagan segir að nafn Dritvíkur komi til af því að þegar Bárður og félagar lögðu skipum sínum utan við Snæfellsnes gengu þeir örna sinna út fyrir borðstokkinn. Næsta dag ganga þeir á land í víkinni og þurfa þá að vaða í gegnum það sem þeir skiluðu í hafið daginn áður, og kölluðu svæðið því Dritvík en sú vík átti síðar eftir að skipa stóran sess í útróðrarsögu þjóðarinnar,“ segir Jón. „Það er líka ein sérstaða Bárðar sögu að hún hefur haldist lifandi allt fram til okkar daga og eru nýjar sögur enn að verða til, enda Bárður n.k. heitguð heimamanna.“

Gerir sælkerarétti í sparisjóðshúsinu

Á veitingastaðnum Skeri í Ólafsvík er hlustað á óskir heimamanna Nöfnin á hamborgurunum voru fengin að láni frá bátunum í höfninni Þegar Lilja Hrund Jóhannsdóttir útskrifaðist sem matreiðslumeistari árið 2017 hefði hún hæglega getað fundið sér gott og vel launað starf í Reykjavík enda var þá mikill uppgangur í veitingastaðasenu höfuðborgarsvæðisins, m.a. vegna fjölgunar erlendra ferðamanna. Hún vildi samt miklu frekar snúa aftur heim á Snæfellsnesið. „Ég er bara þannig að mér finnst best að vera á skrilljón og hafa brjálað að gera. Að reka veitingastað í Ólafsvík hefur verið heilmikið ævintýri og mikil vinna en það hefur líka verið gefandi að byggja upp eigin rekstur og gott að búa á þessu svæði,“ segir Lilja en hún á og rekur í dag veitingastaðinn Sker við Ólafsvíkurhöfn í húsi þar sem Sparisjóður Ólafsvíkur var áður til húsa.

Foreldrar og bróðir Lilju hjálpuðu henni að gera drauminn að veruleika. Þau keyptu húsið haustið 2017 og tók þá við langt og strembið framkvæmdatímabil þar sem sparisjóðsútibúið umbreyttist í huggulegan og rúmgóðan veitingastað. „Við þurftum til dæmis að koma bankahvelfingunni út úr húsinu og tók tvær vikur að brjóta henni leið. Einnig gerðum við gat á bakhlið hússins, sem snýr að höfninni, og komum þar fyrir stórum glugga svo gestir geti notið útsýnisins.“

Metnaður í matseldinni

Gaman er að upplýsa að heimamenn eru mjög duglegir að sækja veitingastaðinn. „Á sumrin er reksturinn einkum borinn uppi af erlendum og innlendum ferðamönnum en á veturna eru íbúar Ólafsvíkur og nærsveita bestu viðskiptavinir okkar og leggjum við okkur fram við að koma til móts við þau með góðum tilboðum og matseðli sem endurspeglar óskir heimamanna.“

Þannig ákvað Lilja, að áeggjan bróður síns, að bjóða upp á pítsur og hamborgara í bland við sjávarrétti sem jafnast á við það fínasta sem finna má á veitingastöðum í Reykjavík. „Í fyrstu þótti mér það af og frá að baka pítsur, verandi nýkomin úr matreiðslunámi, en fyrst vöntun var á góðum pítsum á svæðinu ákvað ég að við skyldum þá bjóða upp á allra bestu pítsur sem völ væri á,“ segir Lilja sem greip m.a. til þess ráðs í kórónuveirufaraldrinum að bregða á leik með hamborgaramatseðilinn. „Við útbjuggum sérstakan matseðil og buðum upp á ólíka borgara sem nefndir eru eftir bátunum hér í höfninni. Svo fylgdumst við vel með hver yrði „aflahæstur“ og fór fram óformleg keppni um hvaða borgarar seldust best. Vinsælustu borgararnir hafa núna fengið sitt pláss á matseðlinum til frambúðar og munu áfram bera nöfn báta sem má sjá út um glugga veitingastaðarins.“

Pítsurnar og hamborgararnir á Skeri eru herramannsmatur en Lilja leggur alveg sérstakan metnað í fiskréttina. Gott sjávarfang er henni mikið hjartans mál enda komin af sjómönnum og gerir fjölskyldan út lítinn línubát. „Ég rak mig á það að þrátt fyrir blómlega útgerð á svæðinu var lítið annað í boði en frosinn fiskur og þurfti að gera sérstakar ráðstafanir svo að bjóða mætti matargestum okkar upp á fiskrétti úr fersku hráefni árið um kring.“ ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert