Á þessum veitingastað fá matgæðingar valkvíða

Berglind Sigmarsdóttir og Sigurður Gíslason inni á GOTT í Vestmanneyjum.
Berglind Sigmarsdóttir og Sigurður Gíslason inni á GOTT í Vestmanneyjum.

Berglind Sigmarsdóttir segir að með nýrri ferju og tíðari ferðum á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja sé engin afsökun lengur fyrir því að heimsækja ekki Vestmannaeyjar. „Er upplagt að koma hingað í dagsferð og enn betra ef tími gefst til að gista og dvelja lengur svo að ráðrúm gefist til að upplifa allt það sem Vestmannaeyjar hafa upp á að bjóða. Á þessu tiltölulega litla svæði er svo ótalmargt til að sjá og gera, og raunar ætti að vera óhætt að skilja bílinn eftir við Landeyjahöfn því þegar komið er út í Eyjar er stutt á milli staða og hægt að ganga eða hjóla um alla Heimaey á stuttum tíma.“

Berglind er formaður Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja en einnig veitingafrömuður því hún og eiginmaður hennar Sigurður Gíslason landsliðskokkur reka heilsuveitingastaðinn Gott og flatbökustaðinn Pítsugerðina. Ugglaust eiga margir lesendur matreiðslubók Berglindar og Sigurðar uppi í hillu í eldhúsinu því þau gáfu á sínum tíma út metsölubókina Heilsuréttir fjölskyldunnar. Gott hóf starfsemi fyrir sex árum og voru móttökurnar svo góðar að hjónin ákváðu að opna útibú með sama nafni í miðbæ Reykjavíkur.

„Sonur okkar veiktist og þurfti á sérstöku mataræði að halda en við rákum okkur á að oft virtist heilsusamlegur matur frekar bragðlítill og óspennandi. Ég sökkti mér ofan í þessi fræði og rýndi í hvaða hráefni væri best að nota, og Sigurður nýtti bakgrunn sinn sem meistarakokkur til að gera ljúffenga rétti úr þessu holla hráefni,“ segir Berglind söguna. „Bókin fékk afskaplega góðar viðtökur og í framhaldinu ákváðum við að opna veitingastað byggðan á sömu hugmyndafræði og rannsóknum.“

Gott er einn af fjölmörgum framúrskarandi veitingastöðum í Vestmannaeyjum og segir Berglind veitingageira bæjarfélagsins miklu öflugri en ætla mætti að íbúafjöldinn gæfi tilefni til. „Veitingastaðirnir hérna eru reknir af miklu metnaði og birtist árangurinn m.a. í því að þegar leitað er að bestu veitingastöðum Suðurlands á Tripadvisor þá eru a.m.k. tveir eða þrír staðir úr Vestmannaeyjum í hópi þeirra allra bestu.“

Berglind fæst ekki til að gera upp á milli veitingastaðanna í bænum, en þeir sem til þekkja vita að matgæðingar sem staldra stutt við standa oft frammi fyrir miklum valkvíða þegar stigið er á land í Vestmannaeyjum. Fyrir áhugasama má nefna staði á borð við handverksbrugghúsið Brother‘s Brewery, Slippinn og Einsa Kalda. Nýir staðir bætast reglulega við og var t.d. skyndibitastaðurinn Éta opnaður á vordögum við góðar viðtökur.

Jafnast á við að fara í golfferðalag til Spánar

Svo margt er í boði í Vestmannaeyjum að ekki væri hægt að telja það allt upp í einu viðtali. Berglind nefnir þó sérstaklega á söfn bæjarins: Eldheima, Sagnheima og Sea Life Trust sem hýsir núna tvo káta mjaldra sem senn verða fluttir í rúmgóða sjókví. „Áhugafólk um golf hefur líka uppgötvað að heimsókn til Vestmannaeyja jafnast alveg á við það að fara í golfferðalag til Spánar. Þar sem kórónuveirufaraldurinn hefur valdið því að ekki er lengur hægt að skjótast til Islantilla eða La Manga þarf að leita uppi bestu vellina á Íslandi. Golfvöllurinn í Vestmannaeyjum hefur oft lent á topplista virtustu vefsíðna og tímarita yfir fallegustu náttúrulegu golfvelli heims og leitun að golfvelli í öðru eins umhverfi. Er auðvelt að komast þar að og taka nokkra hringi, og upplagt að ljúka ánægjulegum degi á golfvellinum með heimsókn á góðan veitingastað og gista síðan á notalegu hóteli yfir nóttina.“

Á vefsíðunni VisitVestmannaeyjar.is má finna ágætis yfirlit yfir þá þjónustu og afþreyingu sem er í boði á svæðinu og segir Berglind að allir eigi að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. „Það má skoða Heimaey á tveimur jafnfljótum og njóta kyrrðarinnar og náttúrunnar, eða leyfa adrenalíninu að streyma á fjórhjóli ellegar sjókajak. Alls kyns ferðir eru í boði, bæði á landi og á sjó, og sundlaugin í miklu uppáhaldi hjá barnafjölskyldum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert