Að finna rétta staðinn tók tvö ár

Sabrina og Andreas undirbjuggu flutninginn til Íslands í tíu ár.
Sabrina og Andreas undirbjuggu flutninginn til Íslands í tíu ár. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða hótel ætli sé frægasta hótel Íslands? Er það kannski hið framúrstefnulega ION lúxushótel á Nesjavöllum, gamla góða Hótel Borg við Austurvöll, ellegar lúxushótel Bláa lónsins; The Retreat? Öll eru þessi hótel ágæt, en hvað sýnileika varðar komast þau ekki með tærnar þar sem Panorama Glass Lodge er með hælana.

Er varla hægt að koma tölu á þau dagblöð og lífsstílstímarit sem hafa fjallað um þennan einstaka íslenska gististað en þeirra á meðal má nefna Architectural Digest og Designboom, Elle og Vanity Fair.

Heitur pottur er við hvern skála. Er leitun að betri …
Heitur pottur er við hvern skála. Er leitun að betri stað til að aftengjast hversdagsamstrinu. Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum meira að segja svo lánsöm að fá ferðaverðlaun National Geographic í flokki einstakra gististaða,“ segir Sabrina Dedler sem á og rekur Panorama Glass Lodge með manni sínum Andreas. „Margir gestir hafa á orði að þau líti á hótelið okkar sem áfangastað, frekar en bara stað til að gista, og að þau hagi ferðalagi sínu til landsins og farmiðakaupum í samræmi við það hvenær við eigum lausa nótt.“

Mestur er þó sýnileikinn á samfélagsmiðlum á borð við Instagram, og er þar sennilega kominn lykillinn að velgengni gististaðarins. Sérstaða Panorama Glass Lodge liggur einmitt í einstakri hönnun þessara litlu lúxus-gistihúsa sem eru byggð úr gleri til hálfs og upplifun gesta eins og að sofa úti undir berum himni. Virðast margir hreinlega ekki geta staðist það að mynda sjálfa sig uppi í rúmi með mergjað útsýnið í allar áttir og í algjöru næði.

Ljósmynd/Aðsend
Tvíbreitt rúm er í öðrum enda skálans, umkringt gleri.
Tvíbreitt rúm er í öðrum enda skálans, umkringt gleri. Ljósmynd/Aðsend

Engin ljósmengun og ekkert sem truflar

Sabrina er frá Sviss og Andreas frá Bæjaralandi en þau kynntust fyrir um það bil áratug. Sabrina hafði þá kynnst Íslandi og gert upp hug sinn um að þar vildi hún setjast að á endanum, og gerði Andreas það ljóst strax í byrjun sambandsins. Hann var ekki svo viss um að sér litist á planið, hafandi aldrei heimsótt Ísland og segir Sabrina að hann hafi grunað að þar yrði allt of kalt og ekki sérlega vistlegt, en viðhorfið breyttist eftir fyrstu heimsókn þeirra saman.

„Eftir að hafa verið saman í tvö ár komum við til Íslands í mánaðarlangt ferðalag og hann féll kylliflatur fyrir landinu. Upp úr því vöndum við komur okkar hingað tvisvar til þrisvar á ári og vorum alveg samstiga með okkar framtíðarplön.“

Ljósmynd/Aðsend

Hugmyndin að gistihýsum Panorama Glass Lodge birtist Sabrinu í draumi og lét hún í framhaldinu arkitekt gera uppdrátt að rými þar sem saman fara tvíbreitt rúm umkringt gleri að ofan og allt um kring, lítið eldhús og baðherbergi, auk útiaðstöðu með heitum potti. Eins og vera ber með Svisslending og Þjóðverja fóru þau Sabrina og Andreas sér í engu óðslega heldur lögðu fyrir í nærri áratug til að geta látið drauminn um flutninga og rekstur á Íslandi rætast. Að opna fyrsta gistirýmið var þó hægara sagt en gert, því staðsetningin þurfti að vera fullkomin.

„Leitin að réttu lóðinni fyrir fyrsta bústaðinn tók tvö ár, og núna erum við búin að leita í um það bil ár að þriðja staðnum,“ segir Sabrina en Panorama Glass Lodge er með einn bústað í Hvalfirði og tvo nálægt Hellu. „Við staðarvalið leggjum við ofuráherslu á að gestir hafi algjört næði og að sem fæst hús séu í nágrenninu svo ekkert raski því einrúmi sem fólk vill njóta eða búi til ljósmengun sem spillir norðurljósaupplifuninni yfir vetrarmánuðina. Síðast en ekki síst þarf útsýnið að vera óviðjafnanlegt.“

Aðsóknin er mest á veturna enda vilja gestir sofa undir …
Aðsóknin er mest á veturna enda vilja gestir sofa undir norðurljósunum. Ljósmynd/Aðsend

Eftirspurnin mest á veturna

Aðbúnaðurinn er eins og best verður á kosið en gestir þurfa að sjá um sig sjálfir meðan á dvölinni stendur. Starfsmaður þrífur skálann hátt og lágt á milli gesta og í eldhúsinu er að finna helstu nauðsynjar eins og morgunkorn og kaffi, en gestir þurfa að taka nesti með sér eða koma við í verslun á leiðinni og kaupa eitthvað gott til að elda og mjólk til að bæta út í kaffið. „Við höfum fólk til taks á hverjum stað sem tryggir hreinlætið og hitar upp heita pottinn áður en gesti ber að garði, en annars snýst upplifunin um það að fá að vera í friði.“

Hugsað hefur verið fyrir öllu og er t.d. sérstaklega styrkt gler í gagnsæjum hluta hvers skála, og fullkomið tæki í rýminu sem notað er bæði til að minnka raka, hita eða kæla skálann eftir þörfum. Draga má gluggatjöld fyrir risastóra gluggana en þó ekki fyrir glerþakið og segir Sabrina að þeir sem gista yfir sumarið og eiga erfitt með að festa svefn vegna miðnætursólarinnar geti notað svefngrímur sem fylgja með í snyrtivörupakka skálans.

Gestir þurfa að koma með nesti eða elda matinn sinn …
Gestir þurfa að koma með nesti eða elda matinn sinn sjálfir í notalegu eldhúsinu. Ljósmynd/Aðsend

Það er ekki ódýrt að gista í Panorama Glass Lodge og hvað þá þegar haft er í huga að alla jafna þurfa gestir að bóka að lágmarki tvær nætur. Sabrina segir verðið m.a. skýrast af því að staðsetning skálanna geri allt utanumhald kostnaðarsamara og þarf t.d. að standa straum af ferðakostnaði ræstingafólks til og frá næsta þéttbýliskjarna. „Ólíkt flestum öðrum hótelum á Íslandi er ódýrara að gista hjá okkur yfir sumarmánuðina enda eru erlendir gestir okkar ekki síst að leita eftir því að sofa undir norðurljósunum,“ segir Sabrina. „Þá ætlum við í sumar að auðvelda heimamönnum að heimsækja okkur með því bæði að lækka verðið og leyfa viðskiptavinum að bóka eina nótt frekar en að lágmarki tvær.“

Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert