Vara við ferðum í Grjótagjá í jarðskjálftahrinunni

Varað er við ferðum í Grjótagjá og Vogagjá í Mývatnssveit.
Varað er við ferðum í Grjótagjá og Vogagjá í Mývatnssveit. Ljósmynd/Unsplash

Landeigendur Voga í Mývatnssveit vara fólk við ferðum í Grjótagjá og Vogagjá vegna jarðskjálftanna sem nú standa yfir. 

Í tilkynningu frá Ólöfu Hallgrímsdóttur landeiganda á Facebook segir að vatnið í Kvennagjánni sé mórautt og þau telji að ekki sé óhætt að fara í gjárnar á meðan jarðskjálftahrinan gengur yfir. 

Jarðskjálftahrina norðaustur af Siglufirði hófst föstudaginn síðastliðinn og hafa yfir 4 þúsund skjálftar orðið á svæðinu samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Jarðskjálftarnir fundust vel í Mývatnssveit og í nálægum sveitum um helgina að sögn heimamanna sem mbl.is talaði við. 

Örlítið hefur dregið úr styrk jarðskjálftahrinunnar en rúmlega 300 skjálftar mældust í nótt, allir undir 3 að stærð og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða, segir á vef Veðurstofunnar.

Grjótagjá og Vogagjá eru gríðarlega vinsælir áfangastaðir ferðamanna, bæði íslenskra sem og erlendra, sem fara um Mývatnssveit. Grjótagjáin var notuð sem tökustaður í þáttunum vinsælu Game of Thrones og hafa vinsældir gjárinnar aukist síðan þá.

mbl.is