Byrja að fljúga til Tenerife 11. júlí

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrval Útsýn.
Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrval Útsýn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrval Útsýn segir kórónuveiran hafi haft mikil áhrif á starfsemi fyrirtækisins en öll starfsemi stoppaði. Hún er þó bjartsýn á að það rætist úr ferðasumrinu 2020 og ætlar fyrirtækið að byrja að fljúga til Tenerife 11. júlí.

„Við biðum að sjálfsögðu eftir því hvernig aðrar þjóðir væru opna og nú er það ljóst sérstaklega á okkar vinsælu stöðum einsog Alicante og Tenerife. Því höfum við ákveðið að hefja flug til Tenerife þann 11. julí og Alicante þann 13. júlí. Síðan verðum við með vikuleg flug á báða þessa staði,“ segir Þórunn. Aðspurð um sumaráætlun segir hún að þau muni bjóða upp á vikuleg flug á Tenerife og vikuleg flug á Alicante. 

„Síðan bjóðum við að sjálfsögðu upp á alla staði sem eru í áætlunarflugi bæði flug eingöngu og flug og gistingu.“

Þórunn segir að kórónuveiran hafi haft afar mikil áhrif á Úrval Útsýn. 

„Veiran hafði veruleg áhrif á okkar starfsemi því salan  stoppaði í byrjun mars þar til núna.  Þetta hefur verið mjög sérstakt ástand í alla staði en allt tekur enda og við öflugri eftir slíka reynslu,“ segir hún.  

Hvernig ætlið þið að snúa vörn í sókn?  

„Við höfum frá því að flug fór af stað verið að kynna okkar þjónustu þar sem hægt er að bóka flug og hótel út um allan heim í gegnum okkur ásamt því að við erum með leiguflug á ofangreinda staði. Framvegis verður hægt að bóka flug og hótel út um allan heim í gegnum nýja bókunarvél sem við vorum að opna og er á vegum Úrval Útsýn. Hún virkar þannig að þú nýtur samt þjónustu okkar ef eitthvað kemur upp á ferðalaginu.  Ef þú þarft að breyta flugi eða hótelbókun þá eru okkar ferðaráðgjafar til taks til að aðstoða með það. Í nýju bókunarvélinni okkar eru í boði 200.000 hótel og flest öll flugfélög í heiminum sem hægt að bóka hjá okkur. Við hvetjum fólk til að prófa þessa nýju bókunarvél eða hafa samband við ferðaráðgjafi sem aðstoða fólk með ánægju varðandi flug eða hótel,“ segir Þórunn.  

Mun ferðahegðun fólks breytast eftir veiruna?

„Ferðahegðun mun breytast að einhverju leyti til að byrja með eins og við þekkjum með tveggja metra regluna og að fólk fari varlega. Það er erfitt að segja nákvæmlega til um það núna hvernig þetta muni þróast til framtíðar. Fólk mun ekki hætta að ferðast það held ég sé allveg ljóst.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is