Frábær kynning fyrir Húsavík

Hinrik Wöhler, forstöðumaður Húsavíkurstofu, segir að þau hafi séð gríðarlega …
Hinrik Wöhler, forstöðumaður Húsavíkurstofu, segir að þau hafi séð gríðarlega aukingu á heimsóknum á sína miðla síðan á föstudag. Samsett mynd

Hinrik Wöhler, forstöðumaður Húsavíkurstofu, segir að kvikmyndin Eurovision Song Contest: Tha Story of Fire Saga sé frábær kynning fyrir bæinn. Kvikmyndin var frumsýnd á föstudag en hún var tekin upp að hluta til á Húsavík. 

„Við höfum auðvitað verið mjög spennt síðan tökuliðið kom hingað til Húsavíkur í október síðastliðnum. Þó nokkuð af heimafólki fékk aukahlutverk í myndinni og var fullt tilhlökkunar að sjá lokaniðurstöðuna, síðan var nú allur gangur á því hvort þau birtust í myndinni eður ei,“ segir Hinrik í samtali við mbl.is. 

Hann segir að þau hafi séð gríðarlega aukningu í heimsóknum á sína miðla síðan myndin kom út á föstudag, aðallega frá Bretlandi og Bandaríkjunum. 

„Þannig að það er morgunljóst að þetta var frábær kynning fyrir bæinn og bjóðum við innlenda og erlenda ferðamenn velkomna norður. Þrátt fyrir að myndin geri óspart grín að okkur Íslendingum hafa bæjarbúar tekið þessu með eindæmum vel, allavega hafa lögin „Volcano Man“ og „Husavik“ ómað um allan bæ,“ segir Hinrik. Blaðamaður getur staðfest þetta en í heimsókn hans til Húsavíkur um helgina mátti greina augljósa ánægju bæjarbúa með lögin í myndinni, sem og kvikmyndina.

Hinrik bætir við að þau sjái tækifæri í kvikmyndinni en kvikmyndatúrismi (e. film tourism) hefur aukist á síðustu árum. 

Fleiri en Húsvíkingar eru ánægðir með lögin. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, lýsti því yfir á facebooksíðu sinni að hér eftir myndi hann óska eftir laginu Jaja Ding Dong við hvert tækifæri. 

mbl.is