Aldrei verið betra að heimsækja miðborgina

Gunnar Hákonarson framkvæmdastjóri Kolaportsins.
Gunnar Hákonarson framkvæmdastjóri Kolaportsins. mbl.is/Arnþór Birkisson

Búast má við miklu lífi og fjöri í Kolaportinu í sumar og segir Gunnar Hákonarson að þar spili inn í öll sú uppbygging sem hefur átt sér stað í kringum þennan vinsæla og rótgróna flóa- og matarmarkað. „Við erum ekki lengur hér um bil í útjaðri miðborgarinnar heldur umkringd nýjum og skemmtilegum byggingum og alls kyns rekstri. Sú uppbygging sem hefur átt sér stað úti á Granda hefur blásið nýju lífi í hafnarsvæðið að ógleymdu verslunar-, íbúða- og skrifstofuhúsnæði á Hafnartorgi, og þá er veglegt lúxushótel að rísa á næsta reit.“

Gunnar er framkvæmdastjóri Kolaportsins og hefur starfað þar í röskan aldarfjórðung. Að hans mati hefur aldrei verið betra að heimsækja miðborg Reykjavíkur. „Á mínum yngri árum var stundum talað um að svo mikill asi og streita einkenndi miðborgarsvæðið og var ekki öllum að skapi. Í dag finnst mér allt annars konar andrúmsloft ríkjandi, og hafa m.a. göngugöturnar hjálpað til að hægja á fólki og skapa afslappaðri stemningu.“

Kolportið hefur líka átt sinn þátt í að móta andrúmsloft miðborgarinnar og segir Gunnar að markaðir af svipuðum toga skipti iðulega miklu máli fyrir þau samfélög þar sem þá er að finna. „Íslendingar þekkja það margir hjá sjálfum sér að þegar komið er til útlanda er gott að leita fyrst af öllu að stað eins og Kolaportinu því þar má komast í snertingu við heimamenn. Upplifunin er allt önnur en að koma í marmaraklædda verslunarmiðstöð, vöruúrvalið líka sérstakt og eru margir sem venja komur sínar í Kolaportið til að prútta við seljanda á flóamarkaðinum eða birgja sig upp af matvælum sem fást ekki annars staðar. Á matarmarkaði Kolaportsins má t.d. finna hefðbundinn íslenskan mat eins og signa grásleppu og broddmjólk sem leitun er að í hefðbundnum matvöruverslunum eða fiskbúðum.“

mbl.is/Arnþór Birkisson

Lifandi miðbæjarmarkaður

Þeir sem hafa lagt leið sína í Kolaportið á undanförnum vikum hafa ef til vill veitt því athygli að þar er verið að breyta og bæta og nýtt svæði að verða til sem fengið hefur nafnið Kolaþorpið. Gerð hefur verið breyting á uppröðun sölubása til að skapa gott rými fyrir matar- og viðburðatorg í norðausturhluta hússins. Þar verður hægt að kaupa vörur af ýmsu tagi frá fjölda seljenda og njóta skemmtiatriða. „Kolaportið hefur alltaf verið lifandi staður og tekið sífelldum breytingum. Töfrar flóamarkaðarins munu vitaskuld halda sér en Kolaportið er núna að umbreytast úr flóamarkaði í lifandi miðbæjarmarkað með fjölbreytt úrval matvæla, veitinga, sérvöru og alls kyns afþreyingu,“ segir Gunnar. „Í smíðum er flott Matartorg þar sem landsliðskokkur mun leiða hópinn og á viðburðatorginu munum við hýsa allt frá litlum sölubásum upp í stóra viðburði og verður Kolaþorpið vænt, grænt, girnilegt og skemmtilegt.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert