Friður og ró austast á Austurlandi

Ljósmynd/Guðjón Halldórsson

Margrét Sigfúsdóttir og fjölskylda taka á móti gestum í Sólbrekku með heimabökuðu góðgæti. Það er ekki hægt að komast mikið austar á Íslandi en í Mjóafjörð, og ef kortaforritin blekkja ekki þá er enginn vegur á landinu sem liggur eins langt til austurs og Mjóafjarðarvegur sem nær alla leið út að vitanum á Dalatanga.

Margrét Sigfúsdóttir.
Margrét Sigfúsdóttir. Ljósmynd/Guðjón Halldórsson

Svæðið er strjálbýlt og reiknast Margréti Sigfúsdóttur til að aðeins tíu manns búi í Mjóafirði allt árið um kring, þó að nokkuð fleiri séu með skráða búsetu þar. Er það enda svo að á veturna gerist það iðulega að vegurinn yfir Mjóafjarðarheiði verður ófær og þá verða íbúar fjarðarins að reiða sig á áætlunarbátinn Björgvin sem siglir til Norðfjarðar tvisvar í viku, frá 1. október til 31. maí.

En það er líka einn af kostum svæðisins hvað Mjóifjörður er afskekktur, því þar eru ekki margir á ferli og hægt að vera einn með fallegri náttúrunni. Margrét er gestgjafi hjá Ferðaþjónustunni í Sólbrekku og er um þessar mundir að taka við rekstrinum af móður sinni sem býr á bænum Brekku. „Þetta er verkefni sem vatt smám saman upp á sig. Í byrjun 9. áratugarins vildi það oft gerast á sumrin að ferðalangar komu við á bænum til að athuga hvort ekki mætti kaupa þar eitthvað matarkyns enda langt í næstu verslun. Varð því úr að móðir mín Jóhanna breytti einu herbergi á bænum í nokkurs konar sjoppu. Bráðum var aðsóknin samt orðin meiri en foreldrar mínir kærðu sig um og stundum myndaðist biðröð við íbúðarhúsið, en þá áskotnaðist okkur aðstaða í Sólbrekku steinsnar frá Brekku, og færðum við þjónustuna við ferðamenn þangað,“ útskýrir Margrét.

Ljósmynd/Guðjón Halldórsson
Ljósmynd/Guðjón Halldórsson

Í dag býður Sólbrekka upp á gistingu og heimagert bakkelsi. „Allt sem við seljum bökum við og útbúum sjálf, ef undan er skilið brauðið í samlokurnar. Getur fólk staldrað hér við og fengið sér sæti, gætt sér á kleinu eða vöfflu og skolað niður með kaffibolla,“ segir Margrét. „Gistingin er tvískipt: annars vegar er hægt að dvelja í Sólbrekku þar sem við höfum fjögur þriggja manna herbergi og eitt sex manna fjölskylduherbergi sem deila sameiginlegri stofu, eldhúsi og baðherbergjum. Til viðbótar þessu höfum við tvö sumarhús, Brekkubrún 1 og 2, sem rúma allt að fjóra til fimm gesti og geta þeir sem gista hjá okkur fengið afnot af heitum potti. Að auki stendur ferðalöngum tjaldstæði til boða og loks starfrækjum við reiðhjólaleigu enda gaman að upplifa Mjófafjörð á hjóli.“

Ljósmynd/Guðjón Halldórsson

Þrælatindur og Smjörvogur

Þó að Mjóifjörður sé ekki í alfaraleið þá er svæðið vel þess virði að skoða. Margrét segir að strax og ekið er niður heiðina að fjarðarbotninum blasi við Klifbrekkufossar. „Um er að ræða einstaklega fallegt vatnsfall sem kemur í stöllum niður fjallshlíðina og liggur slóði upp að fossunum. Ef ekið er áfram út fjörðinn kemur fólk fljótlega að innrásarprammanum svokallaða, sem lagt var af ásetningi í fjarðarbotninum. Þetta er fley frá bandaríska hernum sem upphaflega var hannað til að færa hermenn frá skipi upp á land en heimamenn nýttu prammann á síldarárunum til að flytja síldarúrgang yfir í Neskaupstað og var hann þá dreginn af öðru skipi á milli fjarða. Reyndist hann vera óhentugur til þeirra nota og var prammanum lagt uppi í fjöru eftir aðeins fáeinar ferðir þar sem hann situr enn og er farinn að láta á sjá eftir allan þennan tíma,“ segir Margrét. „Búið er að festa skilti á prammann sem segir sögu hans, enda ferðalangar mjög forvitnir um þetta flak.“

Fallegar sprænur renna út í fjörðinn á mörgum stöðum og má t.d. sjá vel hlaðna fjárborg á leiðinni út ströndina auk þess að mörg nöfn eyðibýla eru merkt allt út að vitanum á Dalatanga. „Það er gaman að virða fyrir sér bæði nýja vitann og þann gamla sem er frá árinu 1895. Búið er að stika gönguleiðir um svæðið og t.d. stikuð leið frá Dalatanga yfir á Skálanes þar sem rekin er ferðaþjónusta yst við Seyðisfjörð,“ segir Margrét en í Sólbrekku má fá kort sem sýnir gönguleiðirnar í og við Mjóafjörð.

Ljósmynd/Guðjón Halldórsson

Mjóifjörður býr ekki aðeins að mikilli náttúrufegurð heldur líka áhugaverðri sögu og segir Margrét ýmsar „smásögur“ tengjast kennileitum á svæðinu. „Þannig er t.d. fjall fyrir ofan Sólbrekku sem kallað er Þrælatindur og segir sagan að þrælar hafi flúið upp á tindinn einhvern tímann í fyrndinni en ekki komist lengra áður en þeir voru handsamaðir. Á leiðinni út á Dalatanga má síðan finna svæði sem kallað er Smjörvogur og var notað sem n.k. náttúrulegt fangelsi fyrr á tímum. Voru fangar látnir síga niður á syllu og geymdir þar en sagan segir að vinnukona nokkur hafi haft svo miklar áhyggjur af velferð eins fangans að hún stundaði það að koma smjörklípu niður til hans til að halda í honum lífinu.“

Ljósmynd/Guðjón Halldórsson
Ljósmynd/Guðjón Halldórsson
Ljósmynd/Guðjón Halldórsson
Ljósmynd/Guðjón Halldórsson
Ljósmynd/Guðjón Halldórsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert