Spennt að fá Íslendinga í heimsókn í sumar

Stefanía Ragnarsdóttir er spennt að taka á móti Íslendingum í …
Stefanía Ragnarsdóttir er spennt að taka á móti Íslendingum í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Eflaust þykir mörgum Stefanía Ragnarsdóttir öfundsverð af því að vinna í Vatnajökulsþjóðgarði og fá að vera í návígi við íslenska náttúru og stórbrotinn jökulinn alla daga. Stefanía segir síbreytileika náttúrunnar þó valda því að starfsmenn þjóðgarðsins þurfi alltaf að vera á tánum. „Hér er náttúran lifandi og síkvik og eftir að hafa útbúið kort og skilti og komið fyrir víða um þjóðgarðinn má alltaf eiga von á eldgosi sem breytir öllu,“ segir hún glettin.

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður 2008 en Stefanía hóf þar störf árið 2012, var fyrst landvörður en er núna fræðslufulltrúi. Hún segir að gestum hafi fjölgað ár frá ári og heimsóttu nærri því milljón manns garðinn í fyrra. Eins og við var að búast hefur gestum fækkað mjög í sumar og segir Stefanía að það hafi breytt andrúmsloftinu á svæðinu. „Ég held að mörgum þyki þetta kærkomin endurræsing og við sem störfum í þjóðgarðinum erum afskaplega spennt að fá Íslendinga í heimsókn í sumar. Höfum við útbúið sérstaka fræðsludagskrá og aðlagað hana að því að gestir þjóðgarðsins næstu mánuðina verða nær eingöngu Íslendingar. Áður hefur fræðsludagskráin farið að miklu leyti fram á ensku en verður núna á íslensku.“

Tignarleg Herðubreið er ein af mörgum perlum Vatnajökulsþjóðgarðs og var …
Tignarleg Herðubreið er ein af mörgum perlum Vatnajökulsþjóðgarðs og var á sínum tíma valin þjóðarfjall Íslands í kosningu. Ljósmynd/Júlía Björnsdóttir.

Upplýsingar um fræðsludagskrána má finna á vefsíðu þjóðgarðsins, Vatnajokulsthjodgardur.is. Finna má fimm gestastofur í þjóðgarðinum og eru þær allar með fræðsludagskrá daglega fram í miðjan ágúst og gestir fræddir í viðráðanlegum gönguferðum um næsta nágrenni. Gestastofurnar eru líka allar með barnastund daglega þar sem yngstu gestirnir fá að læra um og upplifa náttúruna á skemmtilegan hátt. Ekkert þarf að borga fyrir að heimsækja gestastofurnar og fræðsludagskráin ókeypis en aðeins þarf að greiða fyrir að nota tjaldsvæðin og eins fyrir að aka inn í Skaftafell. Fer gjaldtakan við veginn inn að Skaftafelli fram með fullkomnum búnaði sem les númeraplötur bíla sem fara þar um og greitt í gegnum snjallsímaforrit.

Á heimsminjaskrá UNESCO

Þjóðgarðurinn er svo stór og svo margt áhugavert að sjá að Stefanía segir það geta verið langtímaverkefni að ætla að skoða allar helstu náttúruperlurnar á svæðinu. „Ég ráðlegg fólki að byrja á að heimsækja vefsíðu þjóðgarðsins og finna þar flipann „skipuleggja heimsókn“. Í gestastofunum er hægt að nálgast hagnýt ráð og upplýsingar um gönguleiðir,“ segir hún og minnir á nokkra hápunkta sumardagskrárinnar, s.s. þegar efnt verður til brennu í Skaftafelli um verslunarmannahelgina, og geimgönguferðar í nágrenni Öskju, á sömu slóðum og bandarískir geimfarar æfðu sig fyrir ferðir til tunglsins.

Að skoða íslenska náttúru kallar á hæfilega aðgát og brýnir Stefanía fyrir gestum að kynna sér veðurspána og hringja í gestastofurnar sem eru í beinu sambandi við landverði á hverjum stað og fylgjast m.a. náið með ástandi jökuláa. „Um þessar mundir eru t.d. miklar leysingar og getur það haft áhrif á hvernig best er að ferðast á milli staða. Á vefsíðu Vegagerðarinnar má síðan finna upplýsingar um ástand vega en hálendisvegirnir opnast hver af öðrum eftir því sem líður á sumarið. Þeir sem heimsækja þjóðgarðinn muna líka vitaskuld eftir því að vera í góðum skóm og fatnaði við hæfi, og ekki síst að hafa fjarskiptin í lagi og nóg rafmagn eftir á símanum.“

Heimsókn í Vatnajökulsþjóðgarð ætti að vera ógleymanleg enda á svæðið enga sína líka. Á síðasta ári var garðurinn valinn inn á heimsminjaskrá UNESCO fyrir það að vera einstakt dæmi um jarðsögu heimsins. „Hér má finna öll helstu jarðfræðifyrirbæri sem tengjast jöklum og eldvirkni; móbergshryggi, eldkeilur, háhitasvæði og landslag mótað af skriðjöklum,“ segir Stefanía. „Þetta svæði er einstakt á heimsvísu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »