10 heilsuhökk fyrir ferðalagið

Það er hægt að stunda jóga hvar sem er.
Það er hægt að stunda jóga hvar sem er. Unsplash.com

Margir kannast við það að allt fari úr skorðum þegar verið er að ferðast hvað varðar líkamsrækt. Ferðavefurinn tók saman nokkur góð ráð um hvernig megi halda uppi heilbrigðum lífsstíl á ferðalagi.

1. Undirbúðu þig

Það eru til ótal margar æfingar á netinu. Auðvelt er að vista nokkrar þeirra á símann og þannig spararðu þér hugarangur um hvaða æfingar þú ætlar að gera á ferðalagi. Algeng leitarorð á netinu geta verið: Full Body Workout; Tabata Workout; 7 Minute Workout o.fl. Þá er einnig hægt að hlaða niður snjallforriti á símann sem finnur æfingar sem henta hverjum og einum. Þá má ekki gleyma að vera búinn að undirbúa lagalista fyrir æfingarnar.

2. Vertu með hugmynd að skipulagi

Áður en þú ferð af stað í ferðalagið er gott að vera með fyrirframákveðnar hugmyndir að líkamsrækt. Gættu þess að byrja strax á fyrsta degi svo þú gefir ekkert svigrúm til frestunar. Ef þú byrjar ekki strax gæti allt farið úr skorðum. Sumum finnst best að æfa um leið og þeir vakna og dagurinn hefst ekki formlega fyrr en líkamsræktin er afstaðin.

3. Taktu frá tíma fyrir þig

Það þarf ekki að vera erfitt að finna nokkrar lausar mínútur fyrir líkamsrækt. Það er hægt að gera æfingar inni á hótelherbergi eða úti í náttúrunni með eigin líkamsþyngd. Dæmi um æfingar sem hægt er að gera hvar sem er:

  • Magaæfingar
  • Hnébeygjur
  • Armbeygjur
  • Hlaup á staðnum
  • Hopp
  • Teygjur
  • Planki

4. Talaðu þig til

Oft þarf maður að tala sig til. Gefðu þér tíu mínútur, segðu þér að allir eigi tíu mínútur til þess að hreyfa sig. Oft þegar af stað er farið lengjast þessar tíu mínútur og líkaminn þakkar þér að lokum með vellíðunarhormónum.

5. Vertu snöggur

Tíminn er oft af skornum skammti á ferðalögum og maður vill reyna að fá sem mest úr deginum. Þá er gott að vera raunsær. Líklegast er maður ekki að fara að æfa í klukkutíma í senn enda er maður í fríi. Einbeittu þér að því að gera góðar æfingar á skömmum tíma. Hægt er að nota ferðatösku sem lóð eða eigin líkamsþyngd.

6. Einblíndu á það hvernig þér mun líða eftir á

Það er áhrifaríkt að sjá fyrir sér lokaútkomuna. Einbeittu þér að því hversu góð tilfinning það er að vera búinn að hreyfa sig. Húðin ljómar og þú ert frískur út daginn.

7. Taktu með þér teygju

Það er hægt að gera margar góðar æfingar með þar til gerðum æfingateygjum. Þær taka lítið sem ekkert pláss í farangrinum og skila sínu.

8. Gakktu sem mest

Þetta þarf ekki að vera flókið. Frábær leið til þess að kynnast nýjum stöðum er að ganga sem mest um svæðið. Þá getur það einnig verið sniðugt fyrsta daginn á nýjum stað að fara út að hlaupa. Þannig áttar maður sig betur á staðarháttum á nýjum stað og kemur jafnvel auga á eitthvað spennandi til þess að skoða síðar um daginn. Þá er líka hægt að leigja hjól og skoða nýja staði á hjóli.

9. Fáðu vini með í lið

Stundum er besta leiðin til þess að halda dampi að fá vini með sér í lið. Bæði er það frábær leið til þess að efla vináttusambandið og kynnast upp á nýtt. 

10. Gerðu þitt besta

Fimm mínútur af æfingum eru betri en ekki neitt. Gerðu það sem þú getur. Margt smátt gerir eitt stórt.

mbl.is