„Ekki fimm stjörnu hótel, en fimm stjörnu upplifun“

Steingrímur Karlsson framkvæmdastjóri Óbyggðasetursins.
Steingrímur Karlsson framkvæmdastjóri Óbyggðasetursins.

Þeir sem heimsækja Steingrím Karlsson og fjölskyldu á Óbyggðasetrinu geta m.a. fengið að sofa í ekta lokrekkju að hætti forfeðra okkar. Í göngu um óbyggðir Austurlands eru meiri líkur á að rekast á villt hreindýr en að rekast á aðra ferðamenn. 

Ein forvitnilegasta sögusýning landsins er töluvert úr alfaraleið, enda sýning helguð óbyggðum Íslands með allri sinni fegurð og merkilegu sögu. „Við erum ekki beinlínis við þjóðveg 1 og þeir gestir sem koma til okkar eru ekki að finna okkur fyrir tilviljun á leið sinni um landið. En fyrir vikið erum við líka að fá réttu gestina fyrir okkur: fólk sem er að leita að sannri upplifun og gefur sér tíma til að upplifa og njóta. Oftar en ekki dvelja gestir hjá okkur í tvær nætur eða lengur og nota tímann til að upplifa þá afþreyingu sem við höfum upp á að bjóða en líka slaka á og t.d. heimsækja heilsulindina okkar sem við byggðum úr rekaviði og endurnýttu timbri frá eyðibýlum, með hlaðinni laug og sánu smíðaðri úr íslenskri ösp,“ segir Steingrímur Karlsson.

Óbyggðir í bakgarðinum

Steingrímur er framkvæmdastjóri Óbyggðaseturs sem hann stofnaði með konu sinni Örnu Björg Bjarnadóttur. Til að komast að setrinu þarf að aka í suðvesturátt frá Egilsstöðum, meðfram Lagarfljóti og langt inn í landið. „Staðsetningin er óneitanlega sérstök en Óbyggðasetrið er innsta byggða ból í þessum afdal sem Norðurdalur í Fljótsdal er og það er enginn erill hér í gegn – þetta er staðurinn þar sem vegurinn endar. En bakgarðurinn okkar er líka stærstu óbyggðir Norður-Evrópu.“

Fimm ár eru síðan Óbyggðasetrið opnaði og segir Steingrímur að þeim hjónum hafi þótt vanta stað sem gerði óbyggðum Íslands góð skil. Nóg sé af byggðasöfnum, sjóminjasöfnum og víkingasöfnum en engin önnur stofnun helguð óbyggðunum. „Óbyggðir Íslands hafa að geyma margar ævintýralegar sögur og alls kyns viðfangsefni sem við gerum skil í vandaðri og sjónrænni sýningu,“ segir Steingrímur en fjallað hefur verið um starfsemi setursins í virtum erlendum dagblöðum og tímaritum á borð við Vogue, Marie Claire, Cosmopolitan og Guardian.

Sýning Óbyggðaseturs þykir sérlega vel heppnuð og ber þess kannski merki að Steingrímur á að baki langan feril sem kvikmyndagerðarmaður. Framsetningin er litrík og lifandi og fá allir gestir hljóðleiðsögn sem fylgir þeim í gegnum hluta sýningarinnar með fjölda leikradda og tónlist auk þess sem leiðsögumenn setursins fara með gesti um safnasvæðið. Hefur verið hugað að hverju minnsta smáatriði og þannig er t.d. hljóðleiðsagnartækið handsmíðað svo það minnir á forngrip. Sýningarupplifunin er gagnvirk og kallar t.d. á að gestir snúi gamalli sveif eða gægist inn um lítið gat.

En sýningin er aðeins hluti af stærri upplifun og býður setrið m.a. upp á mjög óvenjulega gistimöguleika, heimilislegar íslenskar veitingar og ferðir á hestum, hjólum og tveimur jafnfljótum um nærumhverfið og langt inn á hálendið. Á leið sinni til safnsins aka gestir yfir gamla trébrú sem Steingrímur segir að marki upphafið að ferðalagi til fortíðar, en til að undirstrika sérstöðuna blaktir ekki þjóðfáninn við hún fyrir framan setrið heldur gamaldags föðurland.

„Þeir sem dvelja hjá okkur yfir nótt geta m.a. valið hreppstjórasvítuna, notaleg tveggja manna herbergi eða varið nóttinni á ekta baðstofulofti,“ segir Steingrímur en Óbyggðasetrið er sennilega eini staðurinn á landinu þar sem sofa má í alvörulokrekkju. „Við rekum ekki fimm stjörnu hótel, en bjóðum þess í stað upp á fimm stjörnu upplifun.“

Óbyggðir Austurlands skarta mörgum fegurstu náttúruperlum landsins og mælir Steíngrímur m.a. með að ferðalangar skoði Fljótsdalsheiði og Stuðlagil, Laugarfell og Hafrahvammagljúfur. „Svo mætti halda áfram upp fyrir Kárahnjúkastíflu, enda kannski á Hengifossi og Hallormsstaðaskógi. Þar væri kominn mjög flottur dagur,“ segir Steingrímur en áhugasömum stendur til boða að fara í lengri göngu- og hestaferðir sem spanna frá dagparti upp í nokkurra daga upplifun.

Sérstaða svæðisins er þó ekki síst fólgin í því að fá að vera nánast einn í heiminum. „Það er hluti af gæðunum hvað friðsældin er mikil og náttúran stór. Á mörgum gönguleiðum eru meiri líkur á að rekast á villt hreindýr eða tófu en á annað fólk. Hér þarf ekki að klifra yfir girðingar eða opna hlið heldur er fólk að komast í tæri við alveg ósnortna náttúru. Þetta er eitthvað sem við sjáum að snertir fólk og aðstæður sem fæstir hafa upplifað áður.“

Þá er margt annað til að skoða og gera á ferðalagi um Austurland og mælir Steingrímur með að ferðamenn þræði Austfirðina til að upplifa mannlífið og náttúruna sem þar er. „Hér hefur átt sér stað mikil breyting á tæpum áratug og stóraukið framboð á þjónustu við ferðamenn. Það sem mér finnst helst einkenna ferðaþjónustu á svæðinu er að hún eru rekin af fjölskyldum og þjónustan því mjög persónuleg og þeir sem koma í heimsókn eru ekki túristar heldur gestir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert