Geta sparað sér hálfan sólarhring með því að fljúga

Ásgeir segir engu líkt að sjá landið úr lofti þegar …
Ásgeir segir engu líkt að sjá landið úr lofti þegar háskýjað er eða heiðskírt. Í aðflugi á Höfn í Hornafirði er flogið niður með jöklinum. Ljósmynd/Aðsend

Þeir sem ætla að nota sumarið til að ferðast um Ísland ættu að skoða vandlega þann möguleika að fljúga frekar en að aka. Flugfélagið Ernir fagnar 50 ára afmæli í ár og býður af því tilefni upp á 50% afslátt af fargjöldum. „Við gerum þetta bæði til að fagna þessum tímamótum hjá félaginu en líka til að koma betur til móts við landsmenn og gera þeim auðveldara að fljúga innnanlands í sumar og nýta sér alla þá afþreyingu og þjónustu sem er í boði á áfangastöðum okkar,“ segir Ásgeir Örn Þorsteinsson, sölu- og markaðsstjóri flugfélagsins.

Það getur gjörbreytt ferðalaginu að fljúga frekar en að aka og segir Ásgeir að muni ekki síst um tímasparnaðinn. Ernir fljúga frá Reykjavík til Vestmannaeyja, Hafnar í Hornafirði, Húsavíkur, Bíldudals og Gjögurs, en allt eru þetta staðir sem tekur um og yfir 6 klst. að ferðast til á bíl. „Eina undantekningin er Vestmannaeyjar, þar sem aka þarf í um 2,5 tíma og svo bíða eftir ferjunni. Allir hinir áfangastaðirnir kalla á töluverðan akstur og getur fólk sparað sér mikinn tíma og líka sparað peninga með því að fljúga,“ segir hann. „Með því t.d. að fljúga frekar en að aka 5-6 klukkustunda leið er fólk í reynd að græða allt að 12 klukkustundir til að verja á áfangastaðnum og njóta svæðisins, og upplagt að fljúga ef ætlunin er að skjótast í stutta helgaferð.“

Þá á það við um alla áfangastaði flugfélagsins að þar eru starfræktar bílaleigur. „Má fá mjög hagstæð kjör í sumar og er fólk með algjört ferðafrelsi þó að heimilisbíllinn hafi verið skilinn eftir á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ásgeir. „Á öllum þeim stöðum sem við fljúgum til er fjölbreytt þjónusta í boði, gisting, afþreying og góður matur og verða ferðalangar ekki fyrir vonbrigðum.“

Magnað útsýni yfir landið

Kórónuveirufaraldurinn varð þess valdandi að margir landsmenn hafa ekki stigið um borð í flugvél í óvenjulangan tíma. Ásgeir segir ekki gerða kröfu um það í innanlandsflugi að farþegar beri andlitsgrímur en þeim tilmælum sé beint til farþega að gæta ýtrasta hreinlætis. „Það gerum við sjálf með því að þrífa vandlega og reglulega allar vélar milli flugferða og öll þau rými sem farþegar og starfsfólk nota, og eins með því að tryggja gott aðgengi að sótthreinsispritti.“

Ernir flýgur til allra áfangastaða 5-6 sinnum í viku, nema til Gjögurs sem flogið er til einu sinni í viku í sumar. Má reikna með að ferðum fjölgi ef eftirspurn eykst þegar líður á sumarið. Afmælistilboð flugfélagsins varir út ágústmánuð og segir Ásgeir miðaverðið ákaflega hagstætt og gilda fyrir öll fargjöld hvort sem um er að ræða nettilboð eða almenn verð. „Það má t.d. finna flugmiða til Hafnar í Hornafirði sem kosta allt niður í 10.300 kr aðra leið og gætu því tveir flogið fram og til baka fyrir rétt rúmar 40.000 kr.“

Flugið sjálft getur líka verið ævintýri og segir Ásgeir að þótt aldrei sé hægt að lofa því að skyggni sé gott alla leið jafnist fátt á við það að líta út um flugvélargluggann þegar háskýjað er eða heiðskírt og sjá alla fegurð landsins breiða úr sér. „Það er algjörlega einstakt að sjá landið úr lofti, og hvað þá að koma inn til lendingar á stöðum eins og Höfn í Hornafirði þar sem flogið er yfir og niður með jöklinum.“ ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »