Falin perla í Borgarfirðinum

Giljaböðin falla fullkomlega að náttúru Hringsgilsins.
Giljaböðin falla fullkomlega að náttúru Hringsgilsins. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Við Íslendingar elskum sundlaugarnar okkar, enda eigum við um það bil 165 sundlaugar í þessu landi. Og fleiri til, ef þær sem ekki eru opnar almenningi eru taldar með. Við elskum sundtökin þó þau séu ekki alltaf eins mörg eins og lagt er upp með í byrjun sundferðar, pottaspjallið og þessa undursamlegu tilfinningu að hafa nokkurn veginn hreinsað burt allar syndir þegar við göngum heit, rjóð og sultuslök úr klefunum.

Eitt er þó sem við elskum enn meira og það eru náttúruböðin í landinu. Þau eru krúnudjásnið í hópi lauga á Íslandi. Heita vatnið sem rennur óhindrað upp úr jörðinni út í náttúrunni og myndar laugar með mismikilli tækniaðstoð frá fólki. Stundum með engum mannvirkjum nálægt en annarstaðar með göngustígum, búningsaðstöðu eða því um líku. Svo eru til laugar sem ekki hefðu orðið til nema vegna nálægra virkjana og er Bláa lónið þekktasta dæmið um slíka náttúrulaug, blöndu af mannvirki og náttúr. Í náttúrböðunum, í beinni tengingu við hraunið, blómin eða snjóinn eftir árstíðum er manni hreinlega stungið í beint samband við almættið.

Leiðsögumaðurinn sköruglegi, Þórunn Reykdal, svaraði spurningum forvitinna gesta en passaði …
Leiðsögumaðurinn sköruglegi, Þórunn Reykdal, svaraði spurningum forvitinna gesta en passaði einnig upp á að tala ekki yfir þeim á meðan á baðferðinni stóð. Kona sem kann sitt fag. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Nýjasta djásnið í hópi náttúrulauga er einmitt af þeirri tegund. Metnaðarfullir Húsafellsbændur réðust í það stórvirki að byggja Urrðifellsvirkjun.  Samhliða framkvæmdunum var lagður vegur nærri Hringsgili, afar sérstakri náttúruperlu þar sem heitt vatn hefur sprottið úr kletti í gilinu svo lengi sem elsta fólk man. Bergþór Kristleifsson Húsafellsbóndi og fjölskylda hans ákváðu að slá tvær flugur í einu höggi og nýta bæði vegaframkvæmdir og heita vatnið og byggja upp einstakan náttúrubaðstað í gilinu með fullkomna sjálfbærni staðarins en sama leiðarljós á við um allan ferðaþjónustureksturinn í Húsafelli en staðurinn sér sjálfum sér fyrir rafmagni, sem og heitu og köldu vatni.

Skeifan blandast köldu lækjarvatninu þannig að þar er vatnið ylvolgt.
Skeifan blandast köldu lækjarvatninu þannig að þar er vatnið ylvolgt. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Þegar gengið er niður í Hringsgilið í landi Húsafells blasa við lágreist mannlaus böð sem falla fullkomlega að náttúrunni í kring. Böðin hreinlega kalla á gesti að koma ofan í ylheitt vatnið.  Giljaböðin sem voru tekin í notkun í lok nóvember á sl. ári. Þeim var hinvegar lokað í mesta kófinu fyrr á árinu og eru rekstur þeirra því rétt að fara af stað og af augljósum ástæðum eru Íslendingar flestir gesta þessar vikurnar. Í anda þeirra sjálfbærni sem lagt er upp úr á svæðinu er lögð áhersla á að aldrei komi of margir í einu í böðin. Að fámennir gestahópar komi alltaf að mannlausum böðunum og fái aldrei tilfinninguna að það sé yfirfullt. Því eru seldar kynnisferðir með leiðsögn frá afþreyingarmiðstöðinni í Húsafelli og fá gestir yfirgripsmikla fræðslu um svæðið, fólkið, jarðfræðina, tilurð baðanna og fleira.

Sumargróðurinn, Blóðbergið, mosinn og heit náttúrulaug. Dásamlegt bara.
Sumargróðurinn, Blóðbergið, mosinn og heit náttúrulaug. Dásamlegt bara. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Böðin eru hlaðin upp með í því augnamiði að falla sem best að náttúru Hringsgilsins og hefur það tekist vonum framar en stærsta laugin sem heitir Hringur var hlaðin upp með Snorralaug í Reykholti að fyrirmynd. Næsta laug og ívið minni er Urður og svo getur fólk valið um lægra hitastig í Skeifunni en hún þannig staðsett að hún blandast læknum í gilinu og er því rétt ylvolg. Þau sem sækjast eftir kælingu, eins og nú er orðið mjög vinsælt,  geta svo lagst í gillækinn á milli baða.

Heimsókn í Giljaböðin er mögnuð náttúruupplifun. Gestir komast ekki hjá því að velta fyrir sér hvernig það sé að fikra sig ofan í gilið í snjó og myrkri til þess að geta notið stjörnu- og eða norðurljósa eða hvort það sé skemmtilegra að njóta sumarblómanna og sumarbirtunnar sem er svo einstök.

Útsýnið úr Urðarlauginni, séð yfir á Hringinn sem er hlaðin …
Útsýnið úr Urðarlauginni, séð yfir á Hringinn sem er hlaðin með Snorralaug að fyrirmynd. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert