Gefi sér nægan tíma til að skoða Austurland

Davíð Torfi Ólafsson framkvæmdastjóri Íslandshótela.
Davíð Torfi Ólafsson framkvæmdastjóri Íslandshótela.

Þegar Davíð Torfi Ólafsson ferðast á Austfirði reynir hann að fara ekki í einum rykk heldur gefa sér góðan tíma til að njóta ferðalagsins og svæðisins. 

Austur á Fáskrúðsfirði er að finna eitt af snotrari hótelum landsins. Fosshótel Austfirðir er rekið í fjórum sögulegum byggingum við flæðarmálið á Fáskrúðsfirði en hótelið opnaði þar eftir langt og vandað ferli þar sem húsin voru gerð upp að frumkvæði Minjaverndar. „Hótelið dreifist á fimm byggingar: gamla franska spítalann, læknabústaðinn, kapelluna og sjúkraskýlið auk nýbyggingar í sama stíl sem bættist við að loknum endurbótum á svæðinu til að fjölga herbergjum fyrir gesti,“ segir Davíð Torfi Ólafsson. „Bæði er staðsetningin einstök en byggingarnar líka mjög fallegar og var mikið lagt í að gera húsin upp og breyta þeim í hótel. Sem dæmi er gamli læknabústaðurinn tengdur franska spítalanum með göngum sem liggja undir veginn sem skilur húsin að og götumyndin þannig varðveitt.“

Hús Fosshótel Austfjarða hefur hlotið Evrópsku menningarverðlaunin.
Hús Fosshótel Austfjarða hefur hlotið Evrópsku menningarverðlaunin. Mynd/Fosshótel

Ævintýralegt útsýni á leiðinni

Davíð er framkvæmdastjóri Íslandshótela en eins og gefur að skilja kallar starf hans á tíð ferðalög innanlands til að vitja hótela um allt land. Þótt hann fáist seint til að gera upp á milli áfangastaða segir Davíð samt að honum þyki einstaklega ánægjulegt að heimsækja Austfirði, og best ef nægur tími gefst bæði til að skoða landið á leiðinni austur, en eins til að verja nokkrum nóttum á svæðinu. „Ef ég væri sjálfur á leið í frí myndi ég leggja hæfilega snemma af stað og aka eftir suðurströndinni austur að Fosshóteli við Jökulsárlón. Aksturinn tekur um fjórar klukkustundir sem þýðir að ágætistími er til að stoppa nokkrum sinnum á leiðinni og líta t.d. á Reynisfjöru, Fjallsárlón og vitaskuld Jökulsárlón. Svo myndi ég halda aftur af stað næsta dag, endurnærður eftir góðan morgunverð, og njóta ævintýralegs útsýnisins frá þjóðveginum alla leið til Fáskrúðsfjarðar. Hentar Fáskrúðsfjörður ágætlega sem miðstöð til að skoða Austfirði á nokkrum dögum, og er t.d. ekki nema um hálftíma akstur til Egilsstaða, sem er álíka og það tekur að aka frá Hafnarfirði inn í Reykjavík í góðri umferð.“

Á Fáskrúðsfirði er margt að sjá og nefnir Davíð t.d. Franska safnið og norðurljósasýninguna Auroras Iceland. Því miður hefur Frönskum dögum verið aflýst í ár, vegna kórónuveirufaraldursins en Davíð segir engu að síður gaman að upplifa þá frönsku menningu sem svífur yfir vötnum á Fáskrúðsfirði og sést m.a. í safninu og byggingunum á svæðinu. „Veitingahúsið á hótelinu er gott dæmi um hvernig þessari hefð er haldið við en staðurinn heitir L‘Abri sem á frönsku þýðir „Skjólið“ og þykir matseldin þar sérdeilis góð og er vitaskuld með frönsku ívafi. Þá dreifast góðir veitingastaðir og kaffihús um allt Austurland og allri þjónustu við ferðamenn vel sinnt,“ segir Davíð.

Fosshótel Austurland er vel staðsett.
Fosshótel Austurland er vel staðsett.

Alla langar austur

Þeir sem hyggja á ferðalag til Austurlands ættu að hefja undirbúninginn snemma því þrátt fyrir að komur erlendra ferðamanna til landsins séu enn í lágmarki er bókunarstaða hótelanna á svæðinu orðin nokkuð góð. „Júlí er nærri því uppseldur og ágúst mikið bókaður og fer hver að verða síðastur að tryggja sér herbergi,“ segir Davíð. „Ætti ekki að koma á óvart hve mikill áhugi er á Austurlandi í sumar enda náttúran fögur og þessi landshluti miklar söguslóðir. Þá hafa ný göng auðveldað samgöngur á milli fjarða og spennandi nýir áfangastaðir hafa bæst við eins og t.d. böðin Vök sem liggja að og út í Urriðavatn og nýta vatn úr heitum uppsprettum.“

Herbergin á Fosshóteli Austurlandi eru falleg.
Herbergin á Fosshóteli Austurlandi eru falleg.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »