Langar til Húsavíkur eftir að hafa séð Eurovision-kvikmyndina

Elísabet Ormslev fór í útilegu í Þingeyjarsveit í byrjun sumars …
Elísabet Ormslev fór í útilegu í Þingeyjarsveit í byrjun sumars og fór meðal annars í Jarðböðin í Mývatnssveit. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarkonan Elísabet Ormslev heillaðist mikið af Eurovision-kvikmynd Will Ferrell, Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga og langar til að heimsækja Húsavík eftir að hafa horft á kvikmyndina. 

Elísabet verður á faraldsfæti með hljómsveitinni Albatross í sumar en í samstarfi við RÚV halda þau tónleika í öllum landsfjórðungum í júlí.

Hvað ert þú búin að gera það sem af er sumri?

“Ég fór nýlega norður í Þingeyjarsveit í yndislega heimsókn í sveit til vinkonu minnar og fjölskyldu ásamt c.a 20 öðrum sameiginlegum vinum. Þau eru svo vel búin að vera með tjaldsvæði svo að við gátum öll annað hvort komið okkur fyrir þar og aðrir voru í húsinu. Ég og tvær vinkonur mínar ásamt guðsyni mínum sváfum í fellihýsi sem er alltaf jafn kósí. Svo sækja þau fisk í net í nærliggjandi á og elda sér mat. Það var eitthvað svo heillandi og organískt. Við fórum í sund á Laugum, sem er á ótrúlega fallegu svæði og að lokum heimsóttum við jarðböðin á Mývatni sem var alveg dásamlegt.“

Varstu með einhver útlandaplön sem fóru í vaskinn?

„Heldur betur. Ég átti að vera að fara til 8 mismunandi landa í tónleikaferðalag með hljómsveitinni GusGus sem fór allt í vaskinn vegna heimsfaraldursins. Mér sýnist að það verði af þeirri ferð á næsta ári, ég vona það allavega. Þetta voru meira og minna allt lönd sem ég hef ekki heimsótt áður en langar að fara til.“

Í Jarðböðunum.
Í Jarðböðunum. Ljósmynd/Aðsend

Hver er besti kosturinn við að ferðast innanlands?

„Besti kosturinn er örugglega öryggið. Það er svo auðvelt að finna út úr öllu sem gæti komið upp á þegar maður er í eigin landi. En það sem kemur mér alltaf jafn mikið á óvart, alveg sama hversu mikið ég ferðast er hversu fallegt landið okkar er. Ég hef séð þetta landslag milljón sinnum en er alltaf jafn „blown away“. Svo er vatnið sem kemur beint úr fjöllunum besta vatn sem ég fæ!“

Hver verður hápunkturinn hjá þér í sumar?

Það er góð spurning. Það eru alls konar ferðaplön í kortunum, sumarbústaðarferðir og „roadtrip“ sem ég er að plana með vinum mínum. Það er erfitt að segja hver hápunkturinn verður. Svo er ég að fara á ferðalag með hljómsveitinni Albatross um landið í samstarfi við RÚV núna í júlí sem verður sjónvarpað í beinni útsendingu alla föstudaga. Strákarnir í bandinu eru í miklu uppáhaldi hjá mér svo að það verður örugglega mikið glens um helgar í júlí.

Hvaða staði langar þig að heimsækja?

„Kannski er það vegna þess að ég horfði á Eurovision myndina hans Will Ferrell í gær en mig langar alveg óstjórnlega mikið að fara til Húsavíkur.“

Hvað er ómissandi í „ródtrippið“?

„Góður félagsskapur, góð tónlist og góður matur.“

Elísabet verður á faraldsfæti í sumar.
Elísabet verður á faraldsfæti í sumar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is