Nautahlaupi frestað vegna kórónuveirunnar

Mörgum þykir nautaat hin ógeðfelldasta íþrótt.
Mörgum þykir nautaat hin ógeðfelldasta íþrótt. AFP

Ákveðið hefur verið að fresta hinni árlegu San Fermin-hátíð í Pamplóna vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta er í fyrsta sinn í áratugi sem nautahlaupið hefur verið blásið af eða frá því spænska borgarastyrjöldin geisaði. 

„Þetta er skrítið og sorglegt. Ég gat ekki haldið aftur af tárunum,“ sagði Carmleo Buttini Echarte, þaulvanur nautahlaupari sem hefur ekki misst af nautahlaupi í 40 ár. 

Sagt er að viðburðurinn eigi rætur að rekja til 14. aldar þegar bændur fluttu nautgripi frá ökrunum niður á torg til þess að selja þá. Bændur áttu það til að hlaupa á undan nautgripunum til þess að hvetja þá áfram. 

Þrátt fyrir að hlaupið muni ekki eiga sér stað ætlar ríkissjónvarpið að endursýna frá nautahlaupum fyrri ára. 

Dýraverndunarsinnar hafa verið mjög ánægðir með þessa ákvörðun þar sem dýr munu ekki þjást. Þeir segja að hátíðin snúist um meira en bara nautahlaupið og að það væri gaman að njóta hátíðarinnar án þess að dýr eða menn meiðist.

Dýravinir fagna því að nautaatinu hafi verið frestað í ár.
Dýravinir fagna því að nautaatinu hafi verið frestað í ár. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert