Kynntust á köfunarnámskeiði í Taílandi

Steve og Susie Zaleski ásamt dætrum sínum Aiyu og Lolu.
Steve og Susie Zaleski ásamt dætrum sínum Aiyu og Lolu.

Steve og Susie Zaleski kynntust á köfunarnámskeiði í Taílandi sumarið 2000. Áratug seinna lögðu þau upp í ferðalag um heiminn með börnin sín tvö og í dag búa þau saman í Devon í Bretlandi. 

Susie hafði búið í Japan í um 18 mánuði þegar hún fór í frí til Taílands ásamt frænku sinni í ágúst árið 2000. „Ég var á ferðalagi með frænku minni sem langaði rosalega á köfunarnámskeið í Koh Tao. Þannig ég ákvað bara að láta slag standa,“ sagði Susie í viðtali við The Guardian

Þar hitti hún Steve á fyrsta degi. Hann var í veikindaleyfi frá vinnunni sinni í London og vann hjá köfunarskóla í Koh Tao. Hann tók eftir Susie á fyrsta degi hennar á námskeiðinu. 

„Við vorum í þrjá daga á námskeiðinu. Í lokin bauðst ég til að búa til te handa honum til að hafa ástæðu til að tala við hann,“ segir Susie. Þau byrjuðu að spjalla saman um reynslu sína og ferðalög og komust að því að þau áttu margt sameiginlegt. 

Þegar námskeiðinu lauk skráði Susie sig strax í framhaldsnámskeið til að geta eytt meiri tíma með Steve. Áður en framhaldsnámskeiði byrjaði fór allur hópurinn saman út að borða. 

„Við kysstumst í fyrsta skipti það kvöld á barnum,“ sagði Steve. 

Eftir tíu daga þurfti Susie að snúa aftur til vinnu í Japan og stakk upp á að hann myndi heimsækja hana á leiðinni aftur heim til Bretlands. „Það var klárlega ekki í leiðinni. En í september hugsaði ég, afhverju ekki?“ sagði Steve. 

Hann flaug til Tókýó og ferðaðist til Hirosaki til að hitta Susie. Hann segir að það hafi verið mjög krefjandi að ferðast um Japan fyrir 20 árum. Hann hafi þurft að fara í fullt af lestum og næturrútur. 

Þau héldu áfram að vera í sambandi og um jólin bauð Susie honum að dvelja með sér og fjölskyldu sinni í Devon yfir hátíðarnar. „Ég þekkti hann ekki vel, en þetta var smá próf til að sjá hvernig honum myndi líka við fjölskylduna mína,“ sagði Susie. 

Árið 2001 snéri Susie aftur til Japan að kenna og þau voru í fjarsambandi. Steve fór oft snemma á skrifstofuna svo hann gæti hringt í hana og þau sendu hvort öðru handskrifuð bréf. 

Susie lauk störfum í Japan í maí það ár og í kjölfarið eyddu þau 3 mánuðum í að ferðast um Asíu saman. Þau fluttu svo saman til London eftir ferðina og Susie fékk vinnu í borginni. 

Í lok árs 2001 kkeypti þau íbúð í Stoke Newington í norðurhluta London. 

„Ég var komin með mikla innilokunarkennd árið 2005 og stakk upp á því að við myndum selja húsið,“ sagði Susie. Daginn eftir var húsið komið á sölu og þau fóru að skoða hús í Brighton. 

Þangað fluttu þau og stuttu seinna varð Susie ólétt af þeirra fyrsta barni, dótturinni Aiyu, sem kom í heiminn sumarið 2006. Þau giftu sig árið 2007 og árið eftir eignuðust þau dótturina Lolu. 

Ferðabakterían blundaði þó enn í hjónunum og árið 2009 ákváðu þau að selja húsið sitt í Brighton og fara í heimsreisu með dætur sínar áður en þær hæfu skólagöngu sína. 

„Ég held að fólk hafi haldið að við værum frekar skrítin, en þetta var algjörlega magnað. Við eyddum nokkrum mánuðum á mismunandi stöðum. Að vera með barn í tanntöku var smá áskorun þegar við vorum á tjaldferðalagi um Nýja sjáland,“ sagði Susie. 

Eftir heimsreisuna fluttu þau til heimabæjar Susie, Devon, og búa núna á móti fjölskyldu hennar.

mbl.is