Besta bulsa með öllu og vaffla í eftirrétt

Kristborg Bóel Steindórsdóttir dagskrárgerðarmaður.
Kristborg Bóel Steindórsdóttir dagskrárgerðarmaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristborg Bóel Steindórsdóttir dagskrárgerðarmaður þekkir Austfirði vel eftir að hafa búið á svæðinu í um áratug en hún býr nú í Hafnarfirði. 

Minn draumarúntur um Austurland myndi hljóma sirka svona:

Væri ég að keyra suður fyrir landið myndi ég byrja á því að stoppa hjá vinum mínum Prins Póló og Berglindi á Havarí, Karlsstöðum í Berufirði. Þar myndi ég fá mér bulsu með öllu og vöfflu í eftirrétt. Best væri að hitta á tónleikadag í hlöðunni, en það gerast töfrar sem allir ættu að upplifa að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni.

Þá væri næsti viðkomustaður í mínum uppeldisbæ, Stöðvarfirði. Þar myndi ég skoða Steinasafn Petru sem er það stærsta sinnar tegundar í Evrópu. Engin einustu orð lýsa þeirri upplifun og saga safnsins ein og sér er einstök, saga stórbrotinnar konu sem helgaði líf sitt steinasöfnun. Fyrir listsinnaða mæli ég með því að skoða Sköpunarmiðstöðina, en kraftmiklir einstaklingar hafa breytt gamla frystihúsinu þar sem ég plokkaði orma úr ýsu í gamla daga í glæsilegar vinnustofur fyrir hvers konar listsköpun og eitt fullkomasta tónlistarstúdíó landsins,“ segir Kristborg Bóel.

Fyrir þá sem ekki hafa heimsótt Atlavík í Hallormsstaðarskógi er það nokkuð sem ætti að vera á listanum.

„Sá rótgróni útilegustaður inni í skógi við Lagarfljótið hefur alltaf sinn sjarma. Fátt jafnast á við að rölta um víkina á björtum sumarkvöldum, það er rómantík.

Ef ferðalangar eru í göngustuði þá fær Stuðlagil í Jökuldal hjartað til að slá örar, en sú náttúruperla er ein sú fegursta hérlendis.

Seyðisfjörður er svo staður sem allir verða að heimsækja, en mér líður alltaf eins og ég sé erlendis þegar ég kem þangað. Þar er önnur menning, sköpun og list flæðir um allt, þar er fullt af litlum fallegum verslunum og veitingastöðum og bærinn svo fallegur. Minn eftirlætisveitingastaður á landinu er einmitt þar; Norðaustur, sushi og bar, besta sushi norðan Alpafjalla!“

Aðrir veitingastaðir sem Kristborg Bóel mælir með á svæðinu eru: Beituskúrinn í Neskaupstað. „Eins og nafnið gefur til kynna er hann starfræktur í gömlum beituskúr þar sem sjórinn gutlar værðarlega undir fótum þér. Þá eru bestu hamborgararnir og fleira á Hamri, litlum veitingastað rétt utan við Breiðdalsvík. Pítsurnar á Aski á Egilsstöðum eru eldbakaðar og í miklu uppáhaldi hjá mér, en þar geta líka skapast miklar umræður um tónlist því þær heita allar eftir íslenskum dægurlögum.“

Hún mælir líka með Borgarfirði eystri og segir hann veröld út af fyrir sig.

„Þar er náttúran ægifögur og orkan einstök. Ef ég væri að fara austur myndi ég gista á Blábjörgum á Borgarfirði, en þar er einnig frábær veitingastaður og spa-aðstaða með heitum pottum og gufu. Annar gististaður sem ég myndi mæla með á Austurlandi eru smáhýsi á Mjóeyri við Eskifjörð, en þar í kring eru frábærar gönguleiðir og umhverfið dásamlegt.“

Hver eru plönin þín í sumarfríinu?

„Sjálf ætla ég austur í frínu til þess að heimsækja ættingja og vini. Það eina sem ég er búin að ákveða að gera þar er að láta loksins verða af því að ganga í Stórurð sem liggur milli Héraðs og Borgarfjarðar. Stórurð er mynduð úr risavöxnum móbergs- og þursabergsbjörgum sem liggja inn á milli þörungablárra vatna, þannig að umhverfið er ævintýri líkast.“

Norræna stoppar á Seyðisfirði.
Norræna stoppar á Seyðisfirði. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »