Ævintýraheimur Herðubreiðalinda og Öskju

Kvöldfegurð í Herðubreiðarlindum.
Kvöldfegurð í Herðubreiðarlindum. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Dóra Magnúsdóttir leiðsögumaður með meiru hafði ekki farið inn að Herðubreiðarlindum og Öskju, sem eru fallegustu staðir landsins að hennar mati, frá því hún var ung leiðsögukona í hálendis- og gönguferðum með Úlfari Jacobsen. Ástæðan var jeppaleysi. Það var einhvern veginn aldrei málið að kaupa heilan jeppa til að geta komist stöku sinnum inn á hálendi og þar með urðu öræfin að bíða árum saman.

Þar til núna, þetta skrýtna sumar þegar við Íslendingar getum nýtt okkur ýmsar dásemdir ferðaþjónustunnar fyrir lægra verð en áður. Eins og til dæmis með því að leigja alvöru jeppa til að komast inn á hálendið! Þannig rættist draumur Dóru að komast aftur inn á þessi ævintýralönd og um leið gat hún kynnt þau fyrir manni sínum og  börnum, 11 og 13 ára.

Drottningin Herðubreið sé sunnan frá. Flest sjá Herðubreið frá hringbeginum …
Drottningin Herðubreið sé sunnan frá. Flest sjá Herðubreið frá hringbeginum á Möðrudalsöræfum og horfa þá til suðurs en hér er horft til norðurs. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Mörg hafa séð magnaðar myndir af víðáttum öræfanna og látið sig dreyma um ævintýraheima en hafnað hugmyndum um ferðalög þangað vegna jeppaleysis. Fyrir fólk sem ekki á bíl eða á venjulegan fólksbíl eru tvær leiðir í boði til að fara inn á hálendi, hvort sem fólk ætlar að ganga eða bara dvelja í faðmi fjalla og hrjóstugrar náttúrunnar.

Annars vegar er hægt að fara með hálendisrútum en nokkur fyrirtæki fara í reglubundnar ferðir inn á hálendi yfir sumartímann; bæði áætlunar- og kynnisferðir. Svo eru ýmis minni fyrirtæki sem fara inn á afmörkuð svæði sem eru ekki fólksbílafær, svo sem inn að Lakagígum, Lónsöræfum og víðar.

Hinsvegar er hægt að leigja jeppa í nokkra daga. Þó svo það kosti töluvert í venjulegu árferði, má horfa til þess að jeppaleiga í fáeina daga er alltaf mun ódýrari en að eiga einn slíkan árið um kring. Íslensku öræfin eru einfaldlega ekki aðgengileg og þar af leiðandi ekki  ódýrt að komast þangað en í stóru samhengi hlutanna og miðað við kostnað af ýmiskonar afþreyingu er jeppaleiga í fáeina daga vel þess virði.

Jökla, Jökulsá á fjöllum, uppi á hálendinu, um það bil …
Jökla, Jökulsá á fjöllum, uppi á hálendinu, um það bil 100 km ofan við Dettifoss. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir
Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

„Við hjónin skoðuðum málið hjá nokkrum bílaleigum á Akureyri eftir að N1 mótinu lauk en við vorum þar með stráknum okkar í byrjun mánaðarins. Spáin fyrir hálendið var góð og við vorum með það opið hvað við gætum gert dagana á eftir og hvort við myndum e.t.v. bara fara suður aftur. Könnuðum málið og Avis gaf okkur hagstæðasta verðið og liprustu þjónustuna en það koma fleiri bílaleigur til greina á Norðurlandi. Við fengum Landcruiser á fínu verði sem við vorum sátt við.

Svo athugaði ég með gistinguna og komst að því að skálagisting í Herðubreiðarlindum væri málið fyrir okkur. Mér finnast Lindirnar einfaldlega svo guðdómlega fallegur staður en við nenntum ekki að tjalda þar. Ferðafélag Akureyrar rekur Þorsteinsskála, snotur skáli sem tekur 25 manns í gistingu með ótrúlegu útsýni úr öllum áttum og gluggum. Þar reyndist ekki bara laust heldur vorum við svo heppin að hafa skálann fyrir okkur þessar tvær nætur sem við gistum á hálendinu. Mjög fyrirhafnarlítil og þægileg gisting fjarri mannabyggðum,“ segir Dóra.

Aksturinn gekk hægt en vel, það þarf að fara yfir eina vatnsmikla á, Lindána á leiðinni inn í Herðubreiðarlindir. Hún er sendinn en þó er ekkert mál að fara yfir á góðum bíl í lága drifinu.

„Þegar við komum inn í Lindir (stytting fyrir Herðubreiðarlindir) var svolítið sérkennilegt veður. Það var farið að létta til í kringum okkur en Herðubreið,  drottningin sjálf, var svolítið hofmóðug þetta kvöldið og hélt sem fastast í skýjabakka í kringum sig. Eins og hún vildi helst ekki vera til sýnis þetta kvöld.

Litbrigði hraunsins í Öskju.
Litbrigði hraunsins í Öskju. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir
Magnað umhverfi, Öskjuvatn og Víti innan Öskju sem er sigdæld …
Magnað umhverfi, Öskjuvatn og Víti innan Öskju sem er sigdæld (askja) inan Dyngjufjalla. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Eftir kvöldmat í „Ora“ stíl gengum við út í hraunið eftir merktri gönguleið og skoðuðum m.a. Eyvindarkofa, smávegis hlaðna holu í hrauninu, sem talinn er hafa verið íverustaður útilegumannsins Eyvindar á fjöllum einn veturinn þegar Halla kona hans hafði náðst. Svo settumst við niður við Lindirnar og fylgdumst með því hvernig Herðubreið gafst smám saman upp fyrir veðurblíðu og heiðskírum himni og sýndi sig alveg að lokum. Þetta kvöld sá ég að Herðubreiðarlindir voru enn jafn fallegar í minningunni og þær höfðu verið gegnum öll árin sem ég gat hafði ekki tök á að heimsækja þær; staðurinn var er einfaldlega óviðjafnanlegur,“ segir Dóra.

Stóri ævintýradagurinn rann upp daginn eftir þegar fjölskyldan ók inn að Drekagili, Öskju og Holuhrauni. Drekagil í eystri hluta Dyngjufjalla er eins og mörg önnur stórskemmtileg gil hérlendis alveg frábær fjölskylduskemmtun þar sem þarf að hoppa á steinum yfir ánna fram og til baka eða vaða til að komast inn að botni gilsins þar sem fossinn bíður göngufólks eins og perla þegar ostra er opnuð.

Drekagilið sjálft ber vott um magnaðar jarðhræringar og átök við ísaldarjökulinn enda eru jarðmyndanir afar svipmiklar. Við Dreka, sem er rýmið framan við gilið, eru tveir skálar með gistipláss fyrir 55 manns, tjaldstæði og mjög góðri salernisaðstöðu miðað við staðsetningu lengst inn á hálendi. Nýr skáli er í byggingu enda svæðið afar vinsælt meðal gönguhópa sem ganga upp á Herðubreið og víðar. Ganga upp á fjallið er ekki ráðlögð nema með leiðsögn og réttum göngu- og klifurbúnaði eða þá mjög vönu fjallafólki.

Þessar hetjur böðuðu sig í 20 gráðu heitu vatninu í …
Þessar hetjur böðuðu sig í 20 gráðu heitu vatninu í 6 gráðu lofthita. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Næst á eftir óku þau inn í Öskju sem er jarðfræðilegt ævintýraland;  50 fermetra sigdæld innan Dyngjufjalla en innan sigdældarinnar er önnur sigdæld full af vatni sem er sjálft Öskjuvatnið en þar norðan við er sprengigígurinn Víti sem gaus árið 1875. Víti var lengi spennandi baðstaður því eins og sönnu „víti“ sæmir var þar gríðarleg brennisteinslykt og vatnið vel heitt. Hinsvegar vegar hefur það kólnað töluvert og var ekki nema rétt um 20 gráður þegar Dóra mætti nýlega ásamt fjölskyldu sinni.

„Ég hafði sagt krökkunum sögur af því að þau myndu lykta eins og andskotinn sjálfur ef þau myndu baða sig í Víti eins og ég hafði svo oft gert mörgum árum fyrr á ferð með erlenda ferðamenn nema þá var gígvatnið mun heitara. En þau létu það ekki aftra sér og fikruðu sig niður snarbrattan gíginn og skelltu sér út í fremur kalt gígvatnið. Þeim fannst það mögnuð upplifun en svo var það töluvert sjokk að koma upp úr enda var ekki nema um 6-7 gráðu lofthiti enda hafði verið smávegis haglél skömmu áður. Í júlí!

En það var svo sem bara hluti af ævintýrinu. Málið vara bara að klæða sig í lopapeysuna og öll hin útifötin sem hraðast og byrja að klifra upp úr gígnum til að fá hita í skrokkinn. Brennisteinsfnykurinn hinsvegar sat í handklæðum, fötum og hári næstu daga þrátt fyrir þvotta og sturtur um leið og komið var til byggða og krakkarnir lyktuðu að sönnu eins og andskotinn sjálfur lengi á eftir. En það er sko líka upplifun!“

Holuhraun er innan þjóðharðs og því strax komnar ágætar merktar …
Holuhraun er innan þjóðharðs og því strax komnar ágætar merktar gönguleiðir. En það er splunkunýtt og töluvert oddhvass, gróft og varasamt að ganga á því. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Næst á eftir óku þau eftir endalausri svartri sandauðninni að Holuhrauni og börðum augum nýjasta hraun landsins 85 ferkílómetra að stærð. „Það er mögnuð upplifun að standa þarna inn í miðju landi við þetta nýja hraun sem var svo óaðgengilegt meðan á gosinu stóð árið 2014.

Þrátt fyrir að aka um á þessum trausta jeppa um mitt sumar við bestu aðstæður þá upplifði ég samt varnarleysi borgarbúans sem getur alltaf hringt eftir vega- eða lögregluaðstoð eða stoppað við nálæga bensínstöð. Að standa þarna einn með fólkinu sínu og börnum inní miðju landi og sjá engan svo langt sem augað eygir þrátt fyrir að vera á ferð í júlí þar sem maður hefur heyrt svo oft um jarðskjálfta, gos, flóð og annað en geta um leið ekki gert neitt annað en að njóta þessarar magnþrungnu upplifunar,“ segir Dóra að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert