Ótrúlegt að vera nánast einn á ferðamannastöðum

Silja og sonur hennar á ferðalagi um landið.
Silja og sonur hennar á ferðalagi um landið. Ljósmynd/Aðsend

Rithöfundurinn og hlaðvarpsdrottningin Silja Björk Björnsdóttir skellti sér í ferðalag um Austfirðina nú í sumar. Hún segir það hafa verið ótrúlegt að heimsækja fjölsótta ferðamannastaði en að vera nánast aleinn. Hún segir að nú sé tækifæri fyrir fólkið sem ólst upp á Íslandi að skoða landið sitt í nýju ljósi og fundið að við erum jafn velkomin og erlendir ferðamenn.

Silja missti vinnuna í heimsfaraldrinum en hefur unnið að því síðustu vikur og mánuði að klára sína fyrstu bók, Vatnið, gríman og geltið sem kemur út núna í september. Bókin er einskonar sjálfsævisaga um þunglyndi og sjálfsvíg sem hún fjármagnaði í gegnum KarolinaFund í fyrra.

Hvað ertu búin að gera í sumar?

„Ég missti vinnuna í miðjum kórónaveirufaraldri og ákvað að nýta sumarið í að skrifa BA-ritgerðina mína og koma bókinni minni Vatnið, gríman og geltið loksins í bókahillur landans. Það sem af er sumri hefur þá farið í þessi tvö verkefni og svo bauðst mér að taka þátt í útgáfu annarrar bókar, sem ég tók fagnandi, en það hvílir enn smá leynd yfir því verkefni. Ég sit því mikið á kaffihúsum og skrifa en þess á milli nýti ég tímann til að fara í sund með strákinn minn, kíkja í einn drykk á happy í sólinni og ferðast með fjölskyldunni. Við áttum pantaða ferð til Brussel sem breyttist auðvitað í innanlandsfrí og urðu Austfirðirnir fyrir valinu þetta árið en ég ferðaðist mikið fyrir austan sem barn en Ísak, unnusti minn hafði aldrei séð Austurlandið almennilega.“

Hvað er það besta við að ferðast innanlands?

„Ég held að það besta við að ferðast innanlands akkúrat núna sé fækkun ferðamannsins, það er að segja svona fyrir íslenska ferðamenn, þó þessi skyndilega fækkun sé auðvitað alls ekki góð fyrir efnahaginn. Það var samt held ég bara kominn tími á ferðaþjónustuna hérna heima að aðeins átta sig á ástandinu og hversu nærri náttúrunni og þjóðinni þessi iðnaður var farinn að ganga. Það var ótrúlegt að keyra á vinsæla ferðmannastaði eins og Jökulsárlón eða Svartafoss og vera nánast alein þar, það eru forréttindi. Það er svo gott og mikilvægt að við sem búum hérna og höfum kannski alist upp við þessa náttúru og tekið henni sem sjálfsögðum hlut, getum núna séð landið okkar í nýju ljósi og fundið fyrir því að við erum jafn velkomin og erlendir ferðamenn. Allir eiga að fá jafnt tækifæri til þess að njóta fallega landsins okkar!“

View this post on Instagram

Stuðlagil ✨

A post shared by Silja Björk (@siljabjorkk) on Jun 30, 2020 at 11:08am PDT

Saknarðu þess að komast til útlanda í þessu ástandi?

„Já og nei. Auðvitað var leiðinlegt að komast ekki í foreldrafrí til Brussel í maí en við áttum pantaða vikuferð með bestu vinum okkar og var planið að borða á Michelin-stöðum, heimsækja brugghús og kokteilbari, fara á söfn og njóta borgarstemningarinnar en það eru algjör forréttindi að finnast það leiðinlegt. Brussel er ekki að fara neitt svo ég viti, svo það verður bara ennþá skemmtilegra þegar við loksins komumst í þessa ferð. Sem betur fer var þetta ekki fjárhagslegt tjón fyrir okkur og fjölskylda okkar og vinir sem búa erlendis eru öll í góðum gír. Ég held að það hafi bara verið hollt fyrir þjóðina og ferðamannaiðnaðinn að einblína aðeins á innlenda ferðamenn, svona eitt sumar.“

Hvaða staði langar þig til að heimsækja í sumar?

„Ég fór í endurhæfingu á sjúkrahúsið í Stykkishólmi um leið og losnaði um samkomubannshömlur og þangað hafði ég aldrei komið, það var stórkostlegt að vera í Hólminum. Við fjölskyldan tókum svo tvær vikur á Austfjörðum í júní, keyrðum frá Reykjavík að Vík, Höfn í Hornafirði og Kirkjubæjarklaustri. Við fengum síðan að gista í gömlu húsi í eigu föðurfjölskyldunnar sem heitir Snæhvammur og er undir Snæhvammstindi í Breiðdal, rétt fyrir utan Breiðdalsvík. Þangað kom ég oft sem lítil stelpa og þykir alltaf vænt um. Þaðan keyrðum við alla Austfirðina og heimsóttum föðurfjölskylduna mína, gengum á fjöll, söfnuðum steinum og öðrum náttúrugersemum, fórum á söfn, skoðuðum ótal fossa og borðuðum góðan mat. Náttúrufegurðin er ólýsanleg, hafið svo blátt og hreindýr á hverju horni. Mig langaði að koma í Stuðlagil en þangað hafði ég aldrei komið og mig langaði að sýna strákunum mínum Jökulsárlón, Seyðisfjörð og Breiðdalinn. Mig langar mjög mikið að ganga Laugarveginn, koma í Þórsmörk, á Kerlingarfjöll og taka einhverjar fallegar gönguleiðir það sem eftir er af sumrinu og svo hefur það alltaf verið markmið að koma að flugvélaflakinu á Sólheimasandi. Svo eru Hornstrandir og Vestfjarðarkjálkinn alltaf á planinu!“

Ljósmynd/Aðsend

Geturðu mælt með einhverjum stöðum sem eru frábærir fyrir barnafjölskyldur?

„Ég heyrði eitt gott í gær, það er að „vera á ferðalagi með börn er ekki það sama og vera í fríi” en það er auðvitað dagsatt. Þegar fólk ferðast með börnunum sínum þá þarf auðvitað að hafa ofan af fyrir þeim, gefa þeim að borða og skemmta þeim. Það er ekki endilega mikið frí fyrir foreldrana! Ég get alltaf mælt með því  að fólk með börn fari norður á Akureyri en þar var gott að alast upp og nóg að gera fyrir börnin - sundlaugar, leikvellir, húsdýragarðar í sveitunum og auðvitað alltaf langbesta veðrið. Okkur fjölskyldunni finnst samt bara best að vera saman og drullumalla, leika okkur og brasa alveg sama hvar á landinu það er.“

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi?

„Ég er auðvitað Akureyringur í húð og hár og þarf því að segja Akureyri. Það er ógrynni af fallegum perlum á þessu landi en ég held að topp fimm fyrir utan Eyrina fögru séu Stykkishólmur, Seyðisfjörður, Eyrarbakki, Vatnajökulsþjóðgarður og Stuðlagil. Svo erum við bara svo heppin að meira segja í nágreni við borgina þarftu ekki að leita svo langt til þess að komast í fallega náttúru, Úlfarsfellið, Nauthólsvík, Reykjadalur, Þingvellir og nú auðvitað nýta afsláttinn í Bláa lónið fyrir eina netta sjálfu.“

View this post on Instagram

Stuðlagil ✨

A post shared by Silja Björk (@siljabjorkk) on Jun 30, 2020 at 11:08am PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert