Fóru um landið í innréttuðum sendibíl

Vala Kristín og Birkir Blær.
Vala Kristín og Birkir Blær. Ljósmynd/Aðsend

Vala Kristín Eiríksdóttir er ein frambærilegasta gamanleikkona okkar Íslendinga um þessar mundir. Hún hefur slegið í gegn í þáttunum Venjulegt fólk ásamt Júlíönu Söru Gunnarsdóttur. Sumarið hennar hefur að miklu leyti farið í tökur á þriðju þáttaröð Venjulegs fólks en þó hefur hún gefið sér tíma í að fara hringinn í kringum landið ásamt kærasta hennar Birki Blæ Ingólfssyni og hundinum þeirra Oliver.

„Vissum ekki að það yrði mál málanna“

Órtrúlegt en satt þá vorum við búin að ákveða að fara ekki til útlanda í sumar heldur ferðast um Ísland. Við vissum ekki að það yrði mál málanna þetta árið. Ég hóf sumarið á tveggja vikna ferðalagi um landið í innréttuðum sendibíl. Ég, kærasti minn og hundurinn okkar Oliver tókum hringinn með áherslu á Austur- og Norðausturland. Þessi ferð er ansi ofarlega á listanum yfir eftirminnilegustu ferðalögin mín.“

„Júlímánuðurinn hefur hins vegar allur farið í tökur á þriðju seríu af Venjulegu fólki (sem verður aðgengileg á sjónvarpi Símans premium í október) sem og skreppitúrum og gæðastundum um helgar. Ég mun svo taka tvær vikur í að safna orku með mínu hjartans fólki þar til Borgarleikhúsið fer á fullt í ágúst þar sem verkið Oleanna er fyrsta mál á dagskrá hjá mér,“ segir Vala um ferðasumarið sitt.

Með nýbakað brauð í hjólakörfunni

Aðspurð segist Vala dreyma um að fara til Ítalíu. „Mig dreymir um að fara til Ítalíu og eiga svona ferðalag sem er eins og krónísk falleg mynd á Instagram. Nýbakað brauð í hjólakörfunni minni, ég hjóla lítinn malarstíg sem liggur upp að sveitahúsinu sem ég dvelst í, sundlaug og opið útieldhús þar sem fjölskylda og vinir koma og við eldum saman dýrindismáltíðir og hlæjum. Ferðalög eru samt aldrei svoleiðis nema að einhverju leyti. Moskítóbit, sviti og vesen er órjúfanlegur hluti. En sem betur fer snjóar yfir það í minningunni,“ segir Vala en uppáhaldsstaðir hennar á Íslandi eru Stykkishólmur, Þakgil og Sundhöllin í Reykjavík.

Vala segir orkustigið ráða úrslitum um hvernig ferðatýpa hún sé. „Það fer alfarið eftir orkustiginu mínu við brottför. Mér finnst æðislegt að vera virk í ferðalögum ef ég er ekki að drepast úr þreytu en þá gerist ég sek um að vilja helst ekki hreyfa mig úr stað og ligg bara grafkyrr með góða bók og vil ekki sjá neinn æsing. Best er þetta þó í bland.“

Parið ferðaðist um landið í innréttuðum sendibíl. Ferðalagið reyndist með …
Parið ferðaðist um landið í innréttuðum sendibíl. Ferðalagið reyndist með eftirminnilegustu ferðalögum Völu. Ljósmynd/Aðsend
Vala ætlaði sér alltaf að ferðast um Ísland í sumar.
Vala ætlaði sér alltaf að ferðast um Ísland í sumar. Ljósmynd/Aðsend
Vala Kristín naut sín vel í hringferðinni um landið.
Vala Kristín naut sín vel í hringferðinni um landið. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is