Drottningin heldur til Skotlands þrátt fyrir heimsfaraldur

Elísabet drottning og Filippus prins halda til Skotlands í byrjun …
Elísabet drottning og Filippus prins halda til Skotlands í byrjun ágúst. AFP

Elísabet II Englandsdrottning og Filippus prins munu halda sig við ferðaplön sumarsins þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Hjónin hafa dvalið vikum saman í Windsorkastala fjarri öðrum fjölskyldumeðlimum en í síðustu viku fóru þau í fyrsta skipti út á meðal fólks. 

Drottningin dvelur á ári hverju í Balmoral kastala í hálöndum Skotlands yfir sumartímann. Talsmaður hallarinnar staðfesti í vikunni að þau ferðaplön stæðu enn og að drottningin og hertoginn af Edinborg myndu halda til Skotlands í byrjun ágúst. 

Ýtrustu sóttvarnarreglum verður fylgt að sögn hallarinnar. Elísabet og Filippus mættu í brúðkaup sonardóttur sinnar á föstudaginn fyrir viku og eftir hádegið mætti Elísabet einnig á opinberan viðburð. Þar hafa þau sýnt gott fordæmi og haldið tveggja metra reglunni. 

Ekki hefur verið gefið út hvort aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar muni halda til Skotlands seinna í sumar líkt og síðustu ár.

mbl.is