Kolbrún flakkar um heiminn með 4 ára syni sínum

Kolbrún Inga með son sinn Atlas á framandi slóðum.
Kolbrún Inga með son sinn Atlas á framandi slóðum. Ljósmynd/Aðsend

Í tæp tíu ár hefur heimshornaflakkarinn Kolbrún Inga Stefánsdóttir búið fjarri heimahögunum í Vestmannaeyjum. Hún kynntist hinum norska Carl Eliassen í Taílandi og flakkar nú um heiminn með kærasta sínum og fjögurra ára gömlum syni þeirra. Sonurinn er vanur því að vera á framandi slóðum og þykir honum sjálfsagt að gefa fílunum banana rétt eins og börn á Íslandi þykir sjálfsagt að gefa öndunum brauð. 

Kolbrún og Carl voru staðráðin í að halda áfram að ferðast um heiminn eftir að sonurinn kom í heiminn og fékk sonurinn nafnið Atlas ekki að ástæðulausu.  

„Við áttum heima í Shanghaí í Kína þegar ég verð ólétt og þurftum við fljúga til Íslands nokkrum mánuðum áður en ég var sett í maí. Planið var að vera yfir sumarið á Íslandi og ég var búin að hlakka til þess að eyða sumrinu með fjölskyldu og vinum,“ segir Kolbrún um fæðingu sonar síns. Þegar tengdapabbi hennar í Noregi veiktist skyndilega þegar Atlas var fjögurra vikna fór litla fjölskyldan til Noregs og var þar allt sumarið. Kolbrún segir að hún hefði verið búin að sjá fyrstu mánuðina öðruvísi fyrir sér enda þekkti hún ekki marga í Noregi. 

„Eftir sumarið fórum við strax á flakk og fannst okkur dásamlegt að vera með lítinn ferðafélaga með okkur. En að sjálfsögðu þarf maður að hafa bak við eyrað að þegar maður er lengst úti í heimi þá er stuðningsnetið lítið sem ekkert. Þegar ég lít til baka myndi ég ekki breyta neinu og finnst algjör forréttindi að vera búin að skoða 19 lönd saman á fjórum árum,“ segir Kolbrún. 

Carl, Atlas og Kolbrún.
Carl, Atlas og Kolbrún. Ljósmynd/Aðsend

Hægt að elta drauma sína með litlum ferðafélaga

„Þetta er bara eðlilegt líf fyrir hann, hann þekkir ekkert annað,“ segir Kolbrún um lífi sonar síns sem er nokkuð frábrugðið hefðbundu lífi íslenskra og norskra barna. „Hann er ótrúlega duglegur að aðlagast nýjum stöðum og við erum fljót að koma okkur í rútínu hvar sem við erum í heiminum. Til dæmis eru krakkar á Íslandi vanir að fara með foreldrum sínum að gefa öndunum brauð en við förum með hann að gefa fílunum banana. Í hans augum er það bara mjög eðlilegt,“ segir Kolbrún. 

Það er eðlilegt fyrir Atlas að gefa fílunum banana.
Það er eðlilegt fyrir Atlas að gefa fílunum banana. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef alltaf talað íslensku við hann, pabbi hans norsku og svo tölum við pabbi hans saman á ensku. Enska er hans sterkasta tungumál og á flestum stöðum sem við erum á tala flestir ensku svo það er frábært fyrir hann. Á þessum fjórum árum sem við erum búin að vera að ferðast finnst mér við búin að sanna að maður getur alveg fylgt draumum sínum þrátt fyrir að það bætist lítill ferðafélagi í hópinn.“

Atlas var hvorki í gæslu né leikskóla í hátt á þriðja ár og segir Kolbrún að hún hafi verið heppin að vera með syni sínum alla daga fyrstu ár hans. Kærastinn hennar vinnur í gegnum netið svo það var lítið mál að færa sig á milli staða. 

„Stundum vorum við að ferðast ört en stoppuðum líka í tvo mánuði á sumum stöðum. Þegar hann var tveggja og hálfs þá fór hann í leikskóla á Spáni og hann hefur einnig verið í leikskóla í Taílandi. Þá var ég að vinna við að kenna bootcamp í Taílandi, á eyju sem heitir Coral Ísland.“

Feðgarnir Atlas og Carl.
Feðgarnir Atlas og Carl. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú einhvern tímann fundið fyrir gagnrýni fyrir að lifa ekki hinum hefðbunda lífstíl? 

„Fólk er yfirleitt jákvætt en að sjálfsögðu hefur maður orðið fyrir gagnrýni líka. Sumir skilja ekkert hvernig við „nennum“ þessu og aðrir myndu aldrei fara með barnið sitt svona langt út í heim. „Hann er svo áberandi og ljóshærður að honum gæti verið rænt“ hef ég fengið að heyra nokkrum sinnum. En að sjálfsögðu pössum við barnið okkar alveg eins og við værum að lifa hinum hefðbundna lífstíll. Og við erum búin að njóta þess í botn að skoða heiminn öll saman.“

Varð nægjusamari eftir að hún fór að ferðast

Kolbrún ferðaðist mikið með foreldrum sínum þegar hún var yngri og er þakklát fyrir það. Ferðaneistinn kviknaði þó fyrir alvöru þegar hún flutti árið 2011 til Shanghaí í Kína til bróður síns eftir að hún varð fyrir áfalli árið 2009. Hún segist vera bróður sínum ævinlega þakklát fyrir að hafa tekið á móti sér og gefið sér tækifæri til að skrifa nýjan kafla í líf sitt. Í Kína kviknaði sú löngun að fá að upplifa aðra menningarheima og eignast vini út um allan heim. 

Kolbrún segir að ferðalög gefi sér ótrúlega mikið. 

„Ég er orðin mikið nægjusamari, finnst ég ekki hafa þörf á að eiga allt til að vera hamingjusöm. Elska að skoða og kynnast nýjum menningarheimum. Maður kemur stundum á staði sem enginn á neitt en samt eru allir svo ótrúlega glaðir og vinalegir. Það kennir manni svo ótrúlega mikið.“

Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum stödd í Taílandi þegar veiran skall á og við áttum flug til Spánar þann 13. apríl en það breyttist fljótt. Við fórum til Noregs í lok mars og vorum þar í tvær vikur í sóttkví og fórum svo til Íslands og enduðum á að vera í rúma þrjá mánuði,“ segir Kolbrún um áhrif kórónuveirunnar á ferðplön þeirra. Kolbrún og fjölskylda eru nú í Marbella á Spáni en þar keyptu þau íbúð fyrir einu og hálfu ári og hafa dvalið þar í lengri tíma. Kolbrún er komin í vinnu í sumar og Atlas í leikskóla á daginn. Planið var að dvelja á Balí næsta vetur en Kolbrún segir að þau ætli að sjá til hvernig ástandið í heiminum verður. 

Mexíkó í miklu uppáhaldi

Áttu þér uppáhaldsstað eða land?

„Mexíkó (playa del carmen) er eitt af þeim löndum sem kom mér mest á óvart. Þegar við vorum á leiðinni þangað þá skildi enginn í okkur að vera fara þangað. Við vorum þar í tvo mánuði og urðum alveg dolfallin yfir menningunni, matnum og náttúrufegurðinni. Foreldrar mínir komu til okkar í heimsókn þegar við vorum þar og þau voru á sama máli. Enn aftur á móti þá hefði ég aldrei farið út á kvöldin ein eftir að það var dimmt.“

View this post on Instagram

Það er enginn eins og þú 💙

A post shared by 🕊Kolbrún Inga Stefánsdóttir🕊 (@worldwithatlas) on May 31, 2020 at 4:57am PDT

Kolbrún og fjölskylda dvöldu einnig um hríð á Filipseyjum. Hún mælir ekki með borginni Manila og segir að hún hafi verið pínu hrædd þar. Henn leið þó yndislega á eyjunni Boracay þar sem fjölskyldan dvaldi í mánuð. „Þetta var eins og að vera komin aftir í tímann. Einn fallegasti staður sem ég hef komið á, yndisleg menning og allir svo vinalegir og hjalpsamir.“ 

„Fyrir mér er Taíland „heima“. Ég bjó þar með bestu vinkonu minni áður en ég kynntist Carl. Flutti svo ein til Taílands ári seinna og þá kynnist ég Carl. Þetta er land sem er búið að stela hjarta mínu og gefið mér svo mikið. Menningin, maturinn, fólkið og allar eyjarnar eru eitthvað sem er ekki hægt að lýsa í orðum. Ég er búin að læra svo mikið á því að búa þar meðal annars að maður þarf ekki að eiga allt í heiminum til að vera hamingjusamur.“

Hvað er það versta sem getur gerst?

„Við eigum bara eitt líf maður þarf að spyrja sjálfan sig hvað maður vill fá út úr lífinu. Þótt að pabbi þinn eða afi sé læknir, lögmaður eða að vinna á kassa í búð þá þýðir það ekki að þú þurfir að gera slíkt hið sama. Maður á að nýta tímann vel og hlusta á hjartað sitt því maður veit aldrei hvað maður er með langan tíma á þessari jörð. Ef þér líður eins og þig langar að prufa eitthvað nýtt en þorir ekki að taka skrefið hvað er það versta sem það gæti skeð ? Þér gæti mislíkað en þá geturu alltaf bara farið fyrr heim. Það er mun betra að prufa og mistakast en að þora aldrei að tala skrefið,“ segir Kolbrún þegar hún er spurð hvað hún myndi segja við fólk sem dreymir um að dvelja á veturnar á framandi slóðum. „Ef þið eruð með heilsu, vilja og drauma um að skoða heiminn betur þá segi ég „do it“ og þið munið ekki sjá eftir því.“

mbl.is