Uppáhaldsstaðir alþingismannsins

Vilhjálmur Árnason við Brúarárfoss ásamt Sigurlaugu Pétursdóttur eiginkonu sinni og …
Vilhjálmur Árnason við Brúarárfoss ásamt Sigurlaugu Pétursdóttur eiginkonu sinni og sonum þeirra, Pétri Þór, Patreki Árna og Andra Steini Mynd: úr einkasafni

Covid 19 hafði minni áhrif á ferðaáform sumarsins hjá Vilhjálmi Árnasyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins en hjá mörgum öðrum. Vilhjálmur og fjölskylda eyða flestum sumrum á flakki um Ísland með hjólhýsið í eftirdragi frekar en að fara út fyrir landsteinana, en þau fóru síðast saman til útlanda árið 2016. Auk þess ferðast Vilhjálmur talsvert vegna vinnu sinnar, hann hefur því þvælst meira um Ísland en margur og á nokkra uppáhaldsstaði hér og þar um landið.

„Sumarið byrjar þegar við förum í Laugaland í Holtum í maí. Við förum þangað á hverju ári í maí með stórum hópi vina, maður bíður alltaf spenntur eftir þessari fyrstu ferð með hjólhýsið,“ segir Vilhjálmur.  

Miðhálendið er í miklu uppáhaldi hjá Vilhjálmi
Miðhálendið er í miklu uppáhaldi hjá Vilhjálmi Mynd: Rax / Ragnar Axelsson

Stór hluti ferðalaga sumarsins fer í að elta strákana hans þrjá á fótboltamót um landið allt, en við það bætast alltaf fleiri fjölskylduferðalög. „Ég lifi enn þann dag í dag á því hvað mamma og pabbi voru dugleg að ferðast með okkur um landið og fara í útilegur, hvað mér finnst gaman að ferðast og þekki landið vel. Ég reyni að gera það sama fyrir strákana mína.“

Vestmannaeyjar eru í sérstöku uppáhaldi hjá allri fjölskyldunni. „Maður finnur kraftinn og náttúruna einna mest í Vestmannaeyjum af öllum stöðum. Fjölskyldunni líður ótrúleg vel þar, líka Sillu sem er frekar eldgosa- og jarðskjálftahrædd.“ Fjölskyldan sækir eyjuna reglulega heim en Þjóðhátíð er í sérstöku uppáhaldi, og varð þeim enn hjartfólgnari þegar Vilhjálmur og kona hans, Sigurlaug Pétursdóttir, trúlofuðu sig í Brekkunni. „Okkur þykir öllum vænt um Vestmannaeyjar og strákarnir lifa fyrir þjóðhátíð. Þetta er svo frábær fjölskylduskemmtun.“

Fjölskyldan er tíður gestur á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum
Fjölskyldan er tíður gestur á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum Mynd: úr einkasafni

Vilhjálmur er í stjórn bæði Þingvallaþjóðgarðs og Vatnajökulsþjóðgarðs svo það var ekki annað hægt en að spyrja um hvaða staðir stæðu uppúr hjá honum innan garðanna. „Ég á nýjan uppáhaldsstað í Þingvallaþjóðgarði, það er nýr útsýnispallur við Hrafnagjá. Það er svo fallegt útsýni þar yfir gjána, vatnið og svæðið. Í Vatnajökulsþjóðgarði þá er það miðhálendið, það eru forréttindi að fara þar um. Ég fór um Vonarskarð, upp í Öskju og í Nýjadal, og það sem stóð sérstaklega upp úr var hverasvæðið í Vonarskarði, Snapadalur. Þar að auki verð ég að segja Ásbyrgi, þangað fór ég á hverju ári með ömmu og afa þegar ég var yngri.”

Vilhjálmur klippti á borða ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra og …
Vilhjálmur klippti á borða ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra og Einari Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsverði fyrr í sumar þegar nýr útsýnispallur við Hrafnagjá var opnaður Mynd: Vilhjálmur Árnason

Vilhjálmur býr í Grindavík og kann vel að meta nærumhverfið. „Reykjanesið er falin perla, það eru svo margar fallegar dagsferðir og frábært að kíkja þangað í sunnudagsrúnt eða stutta gönguferð, kíkja á Brimketil, Gunnuhver, Reykjanesvita og eldvörpin. Ég fór í gönguferð um Reykjanesið þar sem ég gekk um Lambagjá, þá labbar maður bókstaflega í gegnum fjall, sem er klofið því það er á flekaskilum og landið er að gliðna.“

Gönguleiðin um Lambagjá er eitt margra dæma um glæsilegar jarðmyndanir …
Gönguleiðin um Lambagjá er eitt margra dæma um glæsilegar jarðmyndanir á Reykjanesi Mynd: Vilhjálmur Árnason

„Svo er það Skagafjörðurinn, það er ekkert fallegra. Að fara í sveitina og veiða í vötnunum út á Skaga með krakkana er frábært. Svo er fátt fallegra en að vakna hinu megin [í firðinum] þar sem ég ólst upp og horfa á Drangey, Málmey og Þórðarhöfða fyrir framan þig. Það er ekkert betra.“

Vilhjálmur hefur farið í ófáar veiðiferðir í vötnin á Skaga.
Vilhjálmur hefur farið í ófáar veiðiferðir í vötnin á Skaga. Mynd: úr einkasafni
mbl.is