Inga Birna smíðaði rúm í Land Cruiser föður síns

Inga Birna Friðjónsdóttir ferðast um landið.
Inga Birna Friðjónsdóttir ferðast um landið.

Inga Birna Friðjónsdóttir, fatahönnuður og tónlistarkona, hefur verið dugleg að ferðast um landið undanfarin misseri og hikar ekki við að fara ein á flakk. Ferðalögin gefa Ingu Birnu mikið og veita henni innblástur þegar kemur að listrænni sköpun en hún gefur út tónlist undir nafninu Blankiflur. Inga Birna sefur gjarnan í Land Cruiser-jeppa sem faðir hennar á en það gerir henni kleift að fara af stað án þess að vita hvar næsti svefnstaður er. 

„Ég hef verið að ferðast bæði ein og með vinum í sumar. Ég á það til að vera á aðeins öðrum hraða en margir í kringum mig þegar ég fer á flakk og þess vegna hefur það hentað mér ágætlega að stökkva af stað ein í ævintýrin. Ég hleyp mikið á fjöll og tek skyndiákvarðanir þegar ég sé eitthvað sem mér finnst spennandi og á erfitt með að halda mig við áætlun eða plana fram í tímann, svo spilar veðrið alltaf inn í hjá mér. Ég smíðaði smá rúmflöt í Land Cruiserinn hans pabba míns í fyrrasumar og keyrði síðan bara út úr bænum án þess að vita nákvæmlega hvar ég myndi stoppa næst. Ég hef nýtt mér þann kost aftur að sofa í bílnum í sumar þegar ég hef verið á ferðinni um Norðurlandið í júní,“ segir Inga Birna um ferðavenjur sínar.

Í Vogagjá.
Í Vogagjá. Ljósmynd/Aðsend

Í síðasta ferðalagi prófaði Inga Birna að tjalda og segist hafa náð nokkuð góðum tökum á því. 

„Núna síðast ákvað ég þó reyndar að prófa tjaldið en ég og vinur minn ætluðum að ganga Víknaslóðir í fjóra daga. Slæm veðurspá breytti reyndar þeim plönum og við enduðum á því að færa okkur austurleiðina frá Þórshöfn og á Suðurlandið með stoppum á tjaldstæðum á Eskifirði, Skaftafelli og Þakgili. Við vorum orðin ansi snögg að henda upp tjaldinu og koma því niður aftur. Ég hugsa að það sé mikilvægt ef ég á að flakka um með tjald að það sé einfalt í notkun og fyrirferðarlítið.“

Ásamt því að sofa í bílnum og tjaldi segir Inga Birna að hún leyfi sér einstaka sinnum smá lúxus. Hún gisti meðal annars með fjögurra ára gömlum syni sínum í litlum kringlóttum kofa á vegum Glamcamping í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum í byrjun sumars. Hún naut þess einnig að gista á Hótel Sigló með vinkonum sínum. 

Inga Birna fór með Birki syni sínum til Vestmannaeyja í …
Inga Birna fór með Birki syni sínum til Vestmannaeyja í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Á ekki að vera erlendis þegar það er sumar á Íslandi

Þrátt fyrir að vera dugleg að ferðast um landið hefur hún ekki alltaf ferðast um landið til þess að skoða náttúruna. Inga Birna æfði fótbolta fram til ársins 2013 og snerust ferðalög um landið þá aðallega um að komast á næsta leikstað. Hún segist þó muna vel hvað henni fannst falllegt þegar hún keyrði inn á Höfn í fyrsta skiptið þá 14 ára gömul í rútu Tindastóls. 

„Það var ekki fyrr en í fyrravor eftir að ég og barnsfaðir minn skildum sem ég áttaði mig á því að ferðalög og utanvegahlaup væru minn tebolli. Þá var ég eiginlega á ferðinni allar helgar sumarsins í alls konar styttri ævintýrum sem auðvelt var að fara í frá Reykjavík. Það sumar lét mig átta mig á að ég á ekki að vera erlendis þegar það er sumar á Íslandi.“

Skaftafell kom á óvart

Hvert ert þú búin að fara í sumar?

„Ég fór í byrjun sumars til Vestmannaeyja með syni mínum. Það var alveg ofsalega skemmtileg ferð frá byrjun til enda. Finnst Vestmannaeyjar fullkominn staður til að fara með börn þar sem það er svo margt spennandi fyrir þau að sjá og gera. Sonur minn er mikill eldfjallaáhugamaður og var búinn að skoða vídeó af gosinu í Heimaey og mála margar eldgosamyndir svo þetta var einstakt að fara með hann upp á Eldfellið, ganga um ævintýralegt hraunið og síðan á safnið þar sem hægt er að sjá húsið sem grófst undir í gjallinu og öskunni. Veðrið lék líka við okkur sem og mjaldrarnir sem voru ekki enn farnir í sjókvíarnar.

Rauðanes.
Rauðanes. Ljósmynd/Aðsend

Ég heimsótti síðan Þórshöfn í fyrsta skipti í maí og fór út á Langanesið þar sem sást langt út á sjó, við sáum þar stróka frá hvölum í fjarska en ég hafði verið með smá hvaladellu síðan um vorið og hef heldur betur fengið að sjá meira af þessum mögnuðu dýrum eftir því sem líða tók á sumarið. Rauðanes er magnaður staður nálægt Þórshöfn sem ég hafði ekki hugmynd um að væri til. Í júní tók ég viku fyrir norðan og fór austur að Egilsstöðum, heimsótti meðal annars Mývatn, tók tvær vaktir í skógrækt á Víðum í Reykjadal fyrir norðan, heimsótti Ásbyrgi í fyrsta skipti og grillaði pylsur yfir opnum eldi í aðstöðunni á Skjöldólfstöðum í Jökuldal ásamt því að heimsækja Stuðlagil sem var alveg magnað.

Stuðlagil.
Stuðlagil. Ljósmynd/Aðsend

Kvöldgangan upp að Hengifossi var líka einstök og ég gisti fyrsta skipti í Atlavík þá nótt áður en ég hélt aftur norður á Sauðárkrók en þar búa foreldrar mínir. Í Skagafirði gekk ég síðan Þórðarhöfðann sem ég bara trúi ekki að ég hafi ekki gert fyrr. Ég keyrði síðan Tröllaskagann með syni mínum frá Skagafirði yfir í Eyjafjörð með stoppi á Hauganesi þar sem við lékum okkur í blíðunni á sundfötum í sandinum með útsýnið yfir fjörðinn og fjöllin sem enn þá skarta fallegum hvítum snjómunstrum í hlíðum sínum. Kjarnaskógur hjá Akureyri er síðan algjör paradís en það var mjög gaman að koma þangað aftur í móðurhlutverkinu en ég hef ekki komið þangað síðan ég var sjálf unglingur.

Horft yfir Þórsmörk á göngu yfir Fimmvörðuháls.
Horft yfir Þórsmörk á göngu yfir Fimmvörðuháls. Ljósmynd/Aðsend

Ég heimsótti svo Þórsmörk í byrjun júlí þar sem ég og vinur minn gengum frá Skógum yfir Fimmvörðuhálsinn. Ég fékk einnig þá flugu í hausinn að hlaupa Dyrfjallahlaupið svo ég skellti mér á Borgarfjörð eystri í eitt það erfiðasta en jafnframt fallegasta sem ég hef gert. Tuttugu og þriggja kílómetra fjallahlaup þar sem var óvenjusnjóþungt. Ég meira að segja villtist aðeins ásamt fleirum þegar komið var í Stórurð en það var eiginlega bara betra enda magnaður staður og ég var ekki að þessu til að vinna stór afrek tímalega séð.

Í heitum potti á Mjóeyri.
Í heitum potti á Mjóeyri. Ljósmynd/Aðsend

Eftir að hafa hvílt lúin bein á Þórshöfn nokkra daga lá leiðin síðan á Eskifjörð en við gistum í tjaldi á Mjóeyri þar sem er ofsalega notaleg aðstaða. Við fórum hratt yfir sögu gegnum Fjarðabyggð en ég viðurkenni að ég kolféll fyrir fallegu húsunum og stemmingunni sem er yfir Eskifirði og langar að koma þangað aftur. Við busluðum okkur upp á HAVARÍ og komum okkur í Skaftafell eftir að hafa gengið upp falda perlu við rætur Vatnajökuls sem kallast Múlagljúfur og heimsóttum Fjallsárlón.

Múlagljúfur.
Múlagljúfur. Ljósmynd/Aðsend

Skaftafell kom mér á óvart, það skemmdi ekki fyrir að það létti til akkúrat yfir þessu svæði þegar við vorum að ganga um svæðið og sex kílómetra ganga breyttist í 17 kílómetra göngu þar sem við gengum upp á topp Kristínartinda en útsýnið þaðan er eitt það flottasta sem ég hef séð. Úr Skaftafelli lá leiðin í Þakgil sem er líka ofsalega fallegur staður. Það var reyndar alveg örugglega norðan 20-30 metrar á sekúndu þegar við vorum komin upp að Mýrdalsjökli og fossar láku upp en ekki niður en það var bjart yfir enn og aftur og allt þess virði.“

Kristínartindar.
Kristínartindar. Ljósmynd/Aðsend

Best að koma heim eftir gott ferðalag

Hvað hefur þetta sumar kennt þér?

„Þetta sumar hefur meðal annars kennt mér að það er ekkert svo mikið mál að flakka um með tjald. Fannst brasið við að koma því upp alltaf alveg óþolandi sérstaklega þegar það var rigning og blautt en ef þetta er lítið og nett og maður tæmir bara eins mikið og þarf úr loftdýnunni til þess að hún komst í bílinn þá er þetta minna mál en ég hélt. Ég hef líka varið miklum tíma á Norðausturlandinu og ég hef kolfallið fyrir því eins og Suðurlandinu og Snæfellsnesinu sem ég heimsótti svolítið í fyrra. Hef líka fengið að sjá glitta í staði sem mig langar að heimsækja og skoða betur. Svo hef ég líka lært að það er gott að hafa mismunandi skóbúnað til útvistar ef eitt par fer að meiða, fyrir hvatvísa og forvitna að pakka alltaf meira nesti en minna þegar lagt er upp í göngu sem átti bara að vera sex kílómetrar en endar í 17 kílómetrum. Og að vera með flipflops-inniskó er möst þegar maður þarf að stökkva inn og út úr tjaldi eða bíl. Keyra á sokkunum eða tánum.“

Á Fimmvörðuhálsi.
Á Fimmvörðuhálsi. Ljósmynd/Aðsend

Eftir ævintýraleg ferðalög er það þó alltaf heimili Ingu Birnu sem stendur upp úr. 

„Ég fann mikið fyrir því þegar ég var búin að vera á ferðinni núna að það yrði gott að komast heim og það er held ég á endanum samhengið sem þessi ferðalög gefa mér. Ólýsanlega fegurð og mikla orku, næringu og tengingu við sjálfið og náttúruna. En staðurinn sem stendur upp úr þegar öllu er á botninn hvolft er heimilið mitt. Þar sem ég nýt þess að rifja upp allar þessar góðu minningar og nota þær sem innblástur inn í lífið og sköpunina.“

Tengingin við náttúruna sem Inga Birna fær í ferðalögunum nýtir hún þegar hún semur tónlist. Lagið hennar Above A Fall sem hún gaf út undir nafninu Blankiflur fjallar einmitt um tengingu hennar við náttúruna. 

View this post on Instagram

Listen to Above A Fall by Blankiflur on Spotify, link in bio 🌸 . . #aboveafall #blankiflurmusic

A post shared by Blankiflur (@blankiflur_music) on Jun 13, 2020 at 12:47am PDT



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert