Hélt upp á þjóðhátíðardaginn á tindi Valahnúks

Sara Björg horfir yfir Þórsmörk.
Sara Björg horfir yfir Þórsmörk. Ljósmynd/Aðsend

Sara Björg Pétursdóttir hjúkrunarfræðingur er svo sannarlega búin að vera á faraldsfæti í allt sumar. Hún fór í fyrstu útileguna í byrjun maí og hefur ekki stoppað síðan. 

Hún hefur gengið á Snæfellsjökul, Hvannadalshnjúk, Hrútfjallstinda, Eiríksjökul og Kristínartinda í sumar og stefnir á að fara í fleiri ferðir áður en sumrinu lýkur. 

Sara er einn af þremur stofnendum kvennasamfélagsins Fjallastelpur sem var stofnað í þeim til­gangi að skipt­ast á góðum ráðum og hvetja kon­ur til að ganga á fjöll.

Hvert ertu búin að ferðast í sumar?

„Sumarið mitt hófst í byrjun maí með fyrstu útilegu sumarsins í Brynjudal með vinkonum mínum í Fjallastelpum þar sem við tjölduðum eina nótt og prófuðum útilegubúnaðinn okkar fyrir sumarið. Þar vorum við algjörlega einar í heiminum, í engu símasambandi og nutum bara náttúrunnar til fulls á meðan við drukkum nýlagað kaffi og borðuðum nýbakaðar lummur með hnetusmjöri og sultu undir berum himni.

Um miðjan maí gekk ég svo á Snæfellsjökul í fyrsta sinn með gönguhópnum mínum í algjörlega frábæru færi og yndislegu veðri sem var draumi líkast. Ég gekk hann svo aftur á sjálfan Kvennréttindardaginn í sérstakri kvennaferð og þá að kvöldi til sem var allt öðruvísi og alveg ótrúlega mögnuð upplifun. Eftir seinni gönguna gisti ég eina nótt á Arnarstapa og skoðaði mig um á Snæfellsnesinu daginn eftir.

Á toppi Snæfellsjökuls.
Á toppi Snæfellsjökuls. Ljósmynd/Aðsend

Ég nýt jafnframt þeirra forréttinda sem hjúkrunarfræðingur að geta unnið víða og ákvað að eyða sumrinu í ár að leysa kollega mína af á landsbyggðinni. Ég hef því eytt meirihluta sumarsins á Kirkjubæjarklaustri og hef ferðast sérstaklega mikið um Suður- og Suðausturlandið og farið í ótal dagsferðir og göngur um Vestur- og Austur Skaftafellssýslu. Skemmtilegast finnst mér að spjalla við heimafólk og fá ábendingar um nýjar gönguleiðir og fallega staði til að skoða sem eru ekki endilega í alfaraleið.

Í byrjun júní gekk ég á Hvannadalshnúk og Hrútfjallstinda í Öræfum með eins dags millibili í blankalogni og sól eftir að hafa þurft að sæta lagi vegna veðurs í tæpar tvær vikur. Það var því ljúft að fá svona æðislegt færi þegar að því kom að toppa þessa fögru tinda og var algjörlega ógleymanleg upplifun.

Um miðjan júní gekk ég svo Fimmvörðuháls frá Skógum og yfir í Þórsmörk þar sem ég gisti í Básum og hélt svo upp á þjóðhátíðardaginn okkar á toppi Valahnúks í blankalogni og bongóblíðu.

Í Skaftafelli.
Í Skaftafelli. Ljósmynd/Aðsend

Ég hef líka ferðast mikið með dætrum mínum um landið í sumar og farið í dagsferðir frá Klaustri, meðal annars í Reynisfjöru, Múlagljúfur, Fjaðrárgljúfur, Skaftafell og Jökulsárlón. Þá keyrði ég hringinn í kringum landið með eldri dóttur minni í dásamlegu veðri og gistum við í tjaldi á Djúpavogi og í Ásbyrgi. Í þeirri ferð keyrðum við um alla Austfirðina, skoðuðum fossana Hengifoss, Rjúkanda og Dettifoss, heimsóttum Atlavík og dýfðum tánum í Lagarfljótið og nutum þess að vera svolítið tímalausar. Borðuðum bara þegar við vorum svangar, fórum að sofa þegar við vorum þreyttar og vöknuðum þegar við vorum úthvíldar.

Í byrjun júlí leysti ég svo af á Patreksfirði í 10 daga og ferðaðist þá með dætrum mínum um sunnanverða Vestfirði og heimsótti m.a. Rauðasand og Látrabjarg sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég lét einnig verða af því að ganga loksins á Hafnarmúlann en ég dáðist að honum á hverjum degi út um stofugluggann heima hjá mér þegar ég var búsett á Patreksfirði um tíma en lét einhvern veginn aldrei verða af því að ganga þangað upp. Það var því skemmtileg upplifun og útsýnið alveg einstakt.

Á Kristínartindum.
Á Kristínartindum. Ljósmynd/Aðsend
Kerlingarfjöll.
Kerlingarfjöll. Ljósmynd/Aðsend

Um miðjan júlí fór ég svo í tjaldútilegu með Völu vinkonu minni í Kerlingarfjöll í tvær nætur. Við tjölduðum í Ásgarði og tókum svo heilan dag í að ganga frá Neðri-Hveradölum, um Hverabotna og að Vesturfjöllunum Mæni og Ögmundi og upp í hlíðar Hattar og Röðuls. Þaðan gengum við svo eftir Sléttaskarði, fram hjá Kerlingu sem Kerlingarfjöll eru kennd við og aftur heim í Ásgarð. Ótrúlega falleg gönguleið í síbreytilegu og nokkuð krefjandi landslagi. Við nutum þess svo bara að slaka á í tjaldinu okkar, lesa góðar bækur, drekka nýlagað kaffi og borða gott súkkulaði.

Úr Kerlingarfjöllum lá leið mín svo beint á Eiríksjökul þar sem ég gekk ásamt gönguhópnum mínum heila 33 km með rúmlega 1.200 m hækkun í öllum þeim veðrum sem veðurguðirnir höfðu upp á að bjóða þann dag. Gangan hófst í mildu og fallegu veðri en fljótlega fór að rigna og hvessa. Þegar við vorum svo komin í snjólínu rigndi og snjóaði á okkur til skiptis og loks toppuðum við jökulinn eftir GPS-tæki í engu skyggni og þurftum að fara strax niður vegna versnandi veðurs. Þrátt fyrir það var dagurinn algjörlega magnaður og við öll reynslunni ríkari að honum loknum. 

Í vikunni fékk ég svo loksins tækifæri til að ganga á Kristínartinda í Skaftafelli en það var búið að vera draumur hjá mér í langan tíma. Alla leiðina upp á topp gerði ég ekki annað en að segja „vá“ enda útsýnið þaðan engu líkt. 

Nú eru bara nokkrar vikur eftir af sumrinu og enn þá af nógu að taka þannig að ég krossa bara fingur að veðurguðirnir verði með okkur í liði fyrir komandi ævintýri.“

Hvernig ferðalögum hefur þú gaman af?

„Óvæntum og streitulausum ferðalögum sem innihalda útilegu, fjallgöngur, kaffi og súkkulaði.“

Hvannadalshnúkur.
Hvannadalshnúkur. Ljósmynd/Aðsend

Hvað ætlarðu að gera um verslunarmannahelgina?

„Planið var að elta góða veðrið og fara í lengri göngu í góðum félagsskap en miðað við nýjustu veðurspár þá gæti ég mögulega endað uppi í sófa með nýja bók og nóg af súkkulaði.“

Hvað hefur staðið upp úr í sumar?

„Ég myndi segja að það sem hafi staðið upp úr í sumar séu göngurnar á Hvannadalshnúk og Hrútfjallstinda. Þetta var bara svo stórkostleg upplifun. Allur undirbúningurinn, hugarfarið, ferðalagið sjálft og svo að standa á toppnum eftir svona krefjandi göngu og bara vera og njóta. Tilfinningin er eiginlega bara ólýsanleg.“

Hrútfjallstindar.
Hrútfjallstindar. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér einhverja uppáhaldsgönguleið á Íslandi?

„Ég á mjög erfitt með að velja eina uppáhaldsgönguleið en ég held ég verði að segja að gangan á Hrútfjallstinda sé ein fallegasta dagleið sem ég hef hingað til gengið og er leið sem mig langar að fara aftur og aftur.“

Hvaða gönguleið mælir þú með að allir gangi?

„Fimmvörðuháls frá Skógum og yfir í Þórsmörk er ein af fallegri dagleiðum á Íslandi og ég held að enginn verði svikinn af því að ganga hana. Hún er bara algjör konfektkassi frá upphafi til enda. Ég mæli líka með því að fólk gisti a.m.k. eina nótt í Þórsmörk eftir gönguna og njóti þess sem Þórsmörk hefur upp á að bjóða, enda algjör paradís.

Af styttri gönguleiðum mæli ég með því að allir gangi einhvern tímann upp að fossinum Glym. Það er fjölbreytt og skemmtileg leið í fallegu umhverfi sem verðlaunar þig með stórkostlegu útsýni. Hún er ein af mínum uppáhaldsgönguleiðum.  Hana er hægt að ganga sem hringleið en þá þarf að vaða ána fyrir ofan fossinn. En einnig er hægt að fara upp og niður sömu leið.“

Á Eiríksjökli.
Á Eiríksjökli. Ljósmynd/Aðsend
Á Hrútfjallstindum.
Á Hrútfjallstindum. Ljósmynd/Aðsend
Við Atlavík.
Við Atlavík. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is