Davíð fór 14 sinnum til Tenerife og keypti loksins íbúð

Davíð Kristinsson, rafvirki og heilsuþjálfari á Akureyri, festi kaup á íbúð á Tenerife í vetur og hefur síðustu vikur verið að gera íbúðina upp. Hann og eiginkona hans féllu algerlega fyrir þessari fallegu eyju og eftir að hafa heimsótt hana 14 sinnum á fjórum árum varð ekki aftur snúið. 

„Við fjölskyldan höfum síðustu 3 ár verið að skoða húsnæðiskaup hér á Tenerife og gátum sett allt á fullt í desember 2019 þegar við seldum iðnaðarhúsnæði sem við áttum. Ferlið er langt og strangt í kaupum á fasteign hér og margir reyna að kroppa af þér meiri og meiri peninga. Við vorum þó heppin að hafa Hannes Guðmundsson lögfræðing með okkur sem er hálfur Spánverji og vel spænskumælandi. 

Við vorum því búin að skrifa undir kauptilboð áður en kórónuveiran skall á af fullum þunga. Hannes kláraði svo kaupin í maí með umboð frá okkur. Húsið okkar er á frábærum stað rétt fyrir ofan Fanabē-ströndina á Adeje,“ segir Davíð í samtali við Ferðavef mbl.is. 

Húsið er 180 fm að stærð og hýsir tíu manneskjur en í húsinu eru þrjú stór svefnherbergi, góð stofa, eldhús, tvö baðherbergi og nægt pláss fyrir alla, eða alla vega þegar Davíð er í húsinu ásamt konu sinni og þremur börnum þeirra sem eru 5, 9 og 12 ára. Húsinu fylgir 60 fm einkaútisvæði. 

„Í garðinum eru svo tvær upphitaðar sundlaugar. Bónusinn er svo bílskúrinn þar sem við erum með flestallt sem fjölskylduna gæti vantað á ferðalagi; tvö ungbarnarúm, barnakerru, bílsessu, strandardót og svo eru tvö rafmagnshlaupahjól og tvö rafmagnshjól. Því þarf að taka minna dót með sér í tösku og minna að versla af strandar- og sundlaugardóti,“ segir Davíð sem hyggst leigja húsið út þegar þau eru ekki í því. 

„Við vildum gera raunhæfan kost fyrir fjölskyldur þar sem allt er til alls á góðu verði,“ segir hann. 

Síðustu fjórar vikur hafa farið í að mála, laga rafmagn, setja saman IKEA-húsgögn, henda burtu eldra dóti og laga ýmislegt sem þurfti að laga.  

„Konan mín hún Eva Ósk sér svo um hönnun og uppstillingar en hún er lærður útstillingahönnuður. Húsið er því að verða klárt í útleigu,“ segir hann. 

Aðspurður hver sé meginpælingin varðandi íbúðina uppljóstrar Davíð því að hann langi ti að byggja upp leigufélag á Tenerife sem þau geti svo lifað á þegar þau verði eldri. 

„Þetta er því fyrsta eignin í því ferli,“ segir hann. 

Setti kórónuveiran strik í reikninginn?

„Kórónuveiran hefur svo sem ekki sett neitt strik í reikninginn fyrir okkur því við löguðum okkur að því. Hér úti er grímuskylda í öllum verslunum, enginn fer inn ósprittaður í verslun og stærstu kjarnarnir hitamæla fólk á leiðinni inn. Einnig vorum við hitamæld á flugvellinum á leiðinni inn í landið. Hér eru engin smit á ferðamannasvæðinu en nokkur í höfuðborginni. Allir þjónar og afgreiðslufólk eru með grímu allan daginn. Og plastskilrúm eru við alla afgreiðslu á milli fólks. Lögreglueftirlit er mikið hér og vel fylgst með að allir fylgi reglum. Okkur finnst við vera örugg hér og allir hjálpast að. 

Þó að Laugavegurinn (sem er verslunargatan) sé nánast lokaður er allt í kringum okkur opið. Við erum þó mjög heimakær í húsinu okkar og eldum á nánast hverju kvöldi. Grillið er mikið notað enda er allt hráefni hér mjög ódýrt. Okkar plan er að nýta húsið í um 6 vikur á ári og geta um leið sinnt viðhaldi. Frábært að hafa verkefni hér í fríinu fyrir ofvirkan eiganda,“ segir Davíð og hlær. 

Davíð og fjölskylda nota Facebook og Instagram til að koma íbúðinni á framfæri. 

„Þar setjum við inn reglulega nýjustu myndir og tilboð. Við höfum leigt út jólin núna og þar í kring en auðvitað er allt rólegt í þessum málum núna,“ segir hann. 

Fjölskyldan vill hvergi annars staðar vera en á Tenerife þótt þau búi í raun á Akureyri. Þau hafa komið 14 sinnum til Tenerife á síðustu fjórum árum og kunna ákaflega vel við sig. 

„Enda er 28 stiga meðalhiti hér yfir árið og alltaf sjávargola. Við stefnum á að prófa að búa hér í eitt ár á næstu fjórum árum. Stelpurnar eru orðnar spenntar fyrir því og á þessum skamma tíma núna hafa þær strax tekið upp slatta af orðum. 

Tenerife er svo miklu meira en bara Laugavegurinn og ströndin. Ég hef kynnst eyjunni hjólandi hér síðustu 3 árin. Enda er þetta hjólaparadís og öll bestu lið í hjólreiðum æfa hér. Þótt eyjan sé ekki stór erum við alltaf að læra og finna eitthvað nýtt. Svo er líka stutt með ferju í næstu eyjar, en Kanaríeyjarnar eru 8 talsins.“

mbl.is