Fór óvæntan hring í kringum landið á einni helgi

Inga Hrönn Sveinsdóttir fór óvænta hringferð um landið.
Inga Hrönn Sveinsdóttir fór óvænta hringferð um landið. Ljósmynd/Aðsend

Inga Hrönn Sveinsdóttir, lyfjatæknir og einn stofnenda Fjallastelpna, er búin að vera á miklu flakki í allt sumar. Hún fór óvæntan hring í kringum landið á einni helgi í sumar, en slíkar óvæntar ferðir eru einmitt henni að skapi. 

Inga Hrönn er einn þriggja stofnenda kvennasamfélagsins Fjallastelpur, sem var stofnað í þeim tilgangi að skiptast á góðum ráðum og hvetja konur til að ganga á fjöll. 

Hvert ertu búin að ferðast í sumar?

„Í byrjun júní fór ég óvart í hringferð um landið yfir helgi. Planið var að taka föstudagsbíltúr að skoða skriðufallið í Hítardal á Snæfellsnesi en úr varð hringferð um landið með viðkomu á fallegum stöðum á leiðinni, tvær nætur í tjaldi og veðureltingarleikur. Hítardalur bíður því betri tíma. 

Í lok júní fór ég í Suðursveitina og átti geggjaða helgi á Hala, þar sem ég gekk Nautastíginn undir leiðsögn Glacier Adventure. Virkilega fjölbreytt og skemmtileg leið þar sem leiðsögumennirnir flétta saman fallega gönguleið og sögu. Magnað að sjá fleiri hreindýr en sauðfé í hlíðunum og ganga í fótspor bænda sem ráku nautin upp í Hvanndal þar sem þau voru höfð á beit. 

Bróðir minn býr í Vestmannaeyjum og erum við börnin búin að heimsækja hann og eyjuna fögru. Í júlí höfum við haft það notalegt í höfuðborginni og notið veðurblíðunnar í sundlaugunum og gengið á litlu fellin hér í kring.“

Inga Hrönn er einn þriggja stofnenda kvennasamfélagsins Fjallastelpur.
Inga Hrönn er einn þriggja stofnenda kvennasamfélagsins Fjallastelpur. Ljósmynd/Aðsend
Inga Hrönn segir að uppáhaldsferðalög hennar séu ferðalög um Ísland.
Inga Hrönn segir að uppáhaldsferðalög hennar séu ferðalög um Ísland. Ljósmynd/AðsendHvernig ferðalögum hefur þú gaman af?

„Ég elska Ísland út af lífinu og uppháldsferðalög mín eru innanlands. Ég fer mikið í óundirbúna bíltúra til að skoða hitt og þetta og enda svo kannski einhvers staðar allt annars staðar en upphaflega var planað. Á Laugarvatni á ég lítið afdrep og fer því mikið þangað. Ég er nýlega búin að fjárfesta í góðum svefnpoka og er því loksins fullgræjuð fyrir tjaldævintýri framtíðarinnar.“ 

Ljósmynd/Aðsend

Hvað hefur staðið upp úr í sumar?

„Í óvæntu hringferðinni heimsótti ég Stuðlagil. Virkilega magnaður og fallegur staður. Sú heimsókn reyndist torfærari en við gerðum ráð fyrir því það voru svo miklar leysingar og beljandi jökulvatnið svo mikið að við þurfum að fá far yfir ána við Stuðlafoss. Síðan tók við nett ganga og í verðlaun fengum við að líta þetta náttúruundur með berum augum.“

Áttu þér einhverja uppáhaldsgönguleið á Íslandi?

„Ég get því miður ekki gert upp á milli – hver og ein hefur sinn sjarma. Ég held samt mikið upp á Fimmvörðuhálsinn, Skarðsheiðina og Nautastíginn. Kaldbakur á Vestfjörðum situr vel í minningunni fyrir ótrúlegt útsýni yfir Vestfirsku Alpana, svo ég tali nú ekki um Öræfakóngana, Hrútfjallstinda og Hvannadalshnúk. Sem betur fer á ég helling eftir eins og Laugaveginn, Leggjabrjót og Síldarmannagötur, sem vonandi bætast í safnið við gott tækifæri.“

Inga Hrönn er mikill göngugarpur.
Inga Hrönn er mikill göngugarpur. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða gönguleið mælir þú með að allir gangi?

„Ég mæli með að allir gangi Fimmvörðuháls – nema öll íslenska þjóðin hafi ekki látið verða af því nú þegar í sumar. Þessa gönguleið á klárlega að setja á göngulistann. Eins og ég kalla hann Fimmveðraháls, þú færð væntanlega bland í poka af alls konar veðri á leiðinni, trilljón fossa í kaupbæti og alls konar landslag tekur á móti þér í allri sinni dýrð. Þetta er klárlega besta útivistarhlaðborðið. Fyrir þá sem vilja ferðast aðeins lengra austur mæli ég með Nautastígnum.“

Um verslunarmannahelgina ætlar Inga að ganga á Sveinstind.
Um verslunarmannahelgina ætlar Inga að ganga á Sveinstind. Ljósmynd/Aðsend
Inga Hrönn heimsótti Stuðlagil snemma í sumar og þá var …
Inga Hrönn heimsótti Stuðlagil snemma í sumar og þá var jökuláin mórauð. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is