Líður eins og hún sé á ferðalagi á hverjum degi

Aníta Björk er landvörður í Kerlingarfjöllum og Hveravöllum í sumar.
Aníta Björk er landvörður í Kerlingarfjöllum og Hveravöllum í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Aníta Björk Jóhannsdóttir Randíardóttir er landvörður í Kerlingarfjöllum og á Hveravöllum í sumar. Þetta er ekki hennar fyrsta sumar sem landvörður en sumarið 2018 var hún landvörður í Skaftafelli og sumarið 2019 í Dyrhólaey og Skógafossi. 

Aníta er fædd og uppalin á Ísafirði en frá árinu 2012 hefur hún verið búsett í Reykjavík. En hvernig byrjaði landvarðarævintýrið?

„Árið 2015 ákvað ég að láta slag standa og vann sumarið í Skaftafelli og heillaðist á fyrsta degi af náttúrunni og landvarðarstarfinu. Það var samt ekki fyrr en 2018 sem ég tók landvarðarréttindin hjá Umhverfisstofnun og sama ár hóf ég störf sem landvörður í Skaftafelli – fram að því hafði ég harkað í kaffiteríunni þó að ég vissi innst inni að ég vildi heldur vera úti við önnur störf,“ segir Aníta í viðtali við mbl.is. 

Það er margt fólgið í landvarðastarfinu.
Það er margt fólgið í landvarðastarfinu. Ljósmynd/Aðsend
Anítu er það hugleikið að fræða fólk um hvernig eigi …
Anítu er það hugleikið að fræða fólk um hvernig eigi að ganga um náttúruna. Ljósmynd/Aðsend

Aníta er mikil ferðalangur og í nóvember 2019 ákvað hún að fara í bakpokaferðalag um Nepal, Indónesíu og Víetnam. Hún var stödd í Víetnam þegar hún heyrði fyrst af kórónuveirunni og kom heim til Íslands í byrjun febrúar, eiginlega á fullkomnum tíma að eigin sögn því nokkrum vikum seinna fóru flugsamgöngur úr skorðum. 

„Það fer svolítið eftir hverri starfsstöð fyrir sig hvað felst í starfi landvarðar, en í grunninn myndi ég segja að starfið snerist fyrst og fremst um náttúruvernd og fræða þá gesti sem heimsækja svæðin sem við vinnum á.

Í sumar hef ég fyrst og fremst verið að veita upplýsingar, fræða gesti um svæðið og reyna mitt besta að svara þeim spurningum sem þeir hafa. Í því samtali reyni ég alltaf að koma því að að akstur utan vega sé ólöglegur og að mikilvægt sé að ganga ávallt á göngustígum.

Aníta fræðir fólk um utanvegaakstur, sem er ólöglegur.
Aníta fræðir fólk um utanvegaakstur, sem er ólöglegur. Ljósmynd/Aðsend
Aníta tók landvarðaréttindin árið 2018.
Aníta tók landvarðaréttindin árið 2018. Ljósmynd/Aðsend

Einnig hef ég verið að skipta út veðurbörðum og ónýtum skiltum, laga og skipta út stikum á gönguleiðum, raka för eftir akstur utan vega, raða grjóti í vegkanta þar sem vinsælt er að keyra út fyrir, og síðast en ekki síst hef ég reynt að ganga allar gönguleiðirnar hér í kring til þess að fá tilfinningu fyrir svæðinu og í leiðinni athuga hvernig ástandið er á göngustígunum, þeir geta komið illa undan vetri og þarfnast þá lagfæringa,“ segir Aníta. 

Aðspurð hvað sé það skemmtilegasta í starfi landvarðar segir Aníta að gönguferðir séu það besta. „Það jafnast ekkert á við að ganga í góðu veðri með sleggju við hönd og lagfæra stikur eftir veturinn. Ekki er verra ef ég næ að fræða gesti í leiðinni um svæðið og sýna þeim þá einstöku staði sem þar er að finna. Það gleður mig einstaklega mikið að eiga í samskiptum við gesti sem bera virðingu fyrir náttúrunni. Í gönguferðunum nýti ég oft tækifærið og jarðtengi mig, þá fer ég úr skóbúnaði og geng um svæðið berfætt. Það fyllir mig einhverri lífsorku sem erfitt er að setja í orð, ég mæli bara með því að allir prufi að gera það. Stundum geng ég svo langt að afklæðast alveg, en þá reyni ég að velja staði sem eru fáfarnir, svo ég særi nú enga blygðunarkennd,“ segir Aníta.

Hún segir að sumarið hafi byrjað rólega í Kerlingarfjöllum og hún hafi ekki hitt marga ferðamenn fyrstu vikurnar. Frá því í byrjun júlí hafi svo bæði innlendum og erlendum gestum fjölgað mjög. 

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

„Veðrið hefur að mestu haldist gott með mun meiri sól og blíðu en ég þorði að vona. Að fá smá pásu frá gestum hefur að mínu mati verið mjög gott fyrir svæðið. Náttúran hefur fengið rými til að hvílast og gróa og við sem vinnum höfum fengið yfirsýn yfir hvað gera þarf til að vera undirbúin undir næstu bylgju. Náðst hefur að sinna verkefnum sem setið hafa á hakanum vegna anna síðustu ár,“ segir Aníta. 

Hún segir að heilt yfir hafi sumarið verið frábært og það hafi verið mjög gott að fara rólega af stað og kynnast svæðinu áður en gestir fóru að mæta á svæðið. 

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

„Þótt ég vinni uppi á miðhálendinu fæ ég mína frídaga og eru þeir vel nýttir í gæðastundir með vinum og fjölskyldu í höfuðborginni. Ég var með stór ferðaplön fyrir sumarið, að heimsækja landvarðavini á öðrum starfsstöðvum, en því miður varð lítið úr þeim. Það gerir ekkert til því þau plön færast bara yfir á næstu sumur. Í allt sumar hefur mér samt liðið eins og ég sé á ferðalagi því enginn dagur hefur verið eins og annar. Að fá að kynnast einstöku svæði svona vel og í þokkabót fá borgað fyrir það er fyrir mér hin mestu forréttindi,“ segir Aníta. 

Að lokum langar Anítu að minna alla á mikilvægi þess að koma fram við náttúruna af ást og virðingu. „Munum að ganga á merktum gönguleiðum og fylgja settum reglum á svæðum sem við heimsækjum. Við erum öll í því saman að vernda náttúru Íslands fyrir komandi kynslóðir.“

Fyrir þá sem eru áhugasamir um landvarðarævintýri Anítu er hægt að fylgjast með henni á Instagram undir notendanafninu @anitabjorkj.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is