Jón Þór fór í sumarfrí í fyrsta skipti í 23 ár

Jón Þór er glaður með sumarið og hefur verið að …
Jón Þór er glaður með sumarið og hefur verið að njóta sín í sól og sumaryl.

Jón Þór Ólafsson þingmaður hefur undanfarin 23 ár alltaf unnið við malbikun á sumrin og því aldrei farið í sumarfrí. Nú er hann búinn að ná brúnkunni upp, en mælir þó ekki með því að sofa úti í sólinni ef fólk vill hafa litinn jafnan á húðinni. 

„Ég reyndi að slappa aðeins af í sumar, en það er of erfitt, svo ég kláraði Þingspilið mitt og setti í hópfjármögnun á Karolina Fund sem lýkur eftir 12 daga. Spil fyrir fólk sem þolir ekki spillingu, nema það fái að spila með.“

Ertu búinn að njóta sumarsins?

„Já, það er náttúrulega þvílíkur bónus eftir erfiðan vetur að fá svona milt og gott sumar. Svo hef ég verið að spila vankantana af Þingspilinu og það er búið að vera geðveikt gaman. Þú spilar formennina á þingi og spilar út skopmyndum Halldórs Baldurssonar síðasta áratugar. Það koma alltaf upp nýjir brandarar og mikið hlegið.“

Eru ferðalög innanlands góður valkostur að þínu mati?

„Já, það er yndislegt á Íslandi þar sem maður finnur sól og skjól, og í sumar með 15 gráður og hærra dag eftir dag - það er dásamlegt.“

Hverjir eru uppáhalds staðirnir að fara á?

„Ég er mikið fyrir dagsferðir. Til dæmis í Sandvík undir ilinni á Reykjanesskaganum, eða að ganga út eftir fjallgarði Esjunnar og frá Bláfjöllum út á Vífilfell. Svo eru lengri ferðir yfir hálendið og að tjalda í Ásbyrgi draumur. Ég er mikið fyrir að plana minna og stökkva bara af stað í eitthvað ævintýri.“

Hvað mælirðu með að allir taki með sér í fríið?

„Þingspilið fyrir þá sem vilja hlæja. Eins og stjórnmálin þá snýst Þingspilið um hagsmuni; að safna saman þingmönnum til að sigra. En ólíkt stjórnmálum er raunverulegur tilgangur Þingspilsins að safna saman skemmtilegu fólki til að hlæja.“

Hvað hefur komið þér á óvart tengt sumrinu?

„Hvað það er orðið fljótt að líða og á sama tíma að ég sé ekki að missa af neinu.“

Hvað myndir þú aldrei gera aftur sem þú hefur gert í sumar?

„Ég er ekki alveg viss. Að sofna úti í sólinni. Nei, það geri ég bókað aftur.“

Skiptir miklu máli að ná upp brúnkunni í sumarleyfinu?

„Já er það ekki? Þá mæli ég með að sofna ekki úti í sólinni, ef maður vill hafa brúnkuna jafna.“

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Bara vel. Samhliða því að klára reglurnar í Þingspilinu hef ég verið að setja reglur Alþingis upp á aðgengilegan hátt, svo hægt sé að sjá hver hefur valdið til að gera hvað. Ég mun gera það aðgengilegt á vefsvæðinu Stjórnmálin þegar það er tilbúið.“

Jón Þór mælir með Þingspilinu í ferðalagið.
Jón Þór mælir með Þingspilinu í ferðalagið.
mbl.is